20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2421)

138. mál, brunaslys í Keflavík

*Sigurður Einarsson:

Ég var að koma inn í d. og hefi ekki heyrt nema lítinn hluta af því, sem hv. þm. G.-K. sagði, og er ekki ljóst, hvaða form þessi hv. þm. hyggst að hafa á þessu, eða hvað hann leggur til í sinni brtt. En ég vil upplýsa það, að fyrir okkur flm. þessarar till. vakti það fyrst og fremst, að þetta væru bætur til þeirra manna og heimila, sem harðast hafa orðið úti, á þá leið, að fólkið hefir þurft að leita sér langvarandi og dýrrar læknishjálpar. Það er upplýst af oddvita Keflavíkurhrepps, að ógreiddur sjúkrakostnaður, sem þessar slysfarir höfðu í fór með sér, nemur um 5000 kr., og það er vitað um ýmsa, sem þar eiga hlut að máli, að þeim muni reynast torvelt að komast frá þessu. Þetta er því fyrst og fremst hugsað sem hjálp til þessara manna, svo að þeir geti greitt þennan kostnað. En hitt mun ekki hafa vakað fyrir, að í till. fælist það, að bæta upp allt það fjárhagstjón, er einstakir menn hafa orðið fyrir vegna þessa hörmulega atburðar. Annars vildi ég gjarnan bíða með að segja meira um þetta þangað til ég hefi heyrt brtt. hv. þm. G.-K.