20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2426)

138. mál, brunaslys í Keflavík

*Sigurður Einarsson:

Það fór eins og við var að búast, að þegar hv. þm. G.-K. fer að klæða mínar hugsanir í búning, þá fer flíkin ekki eins og ég mundi hafa óskað, því að ég er yfir höfuð andvígur því, að önnur skipun sé á þessu höfð en sú, að fénu sé úthlutað af þar til kjörinni nefnd, sem skiptir því milli hlutaðeigenda, eftir því sem efni og ástæður standa til. Þó að Keflavíkurhreppur hafi gengið í ábyrgð fyrir sjúklinga þá, sem hlutu brunasár, þá leiðir ekki af því, að það sé sjálfsagt að afhenda hreppnum þetta fé. Mér skilst, að fólkið muni vilja sjálft standa skil á og greiða sjúkrakostnaðinn með því, er því kynni að áskotnast á þennan veg eða annan, og það sé í sjálfu sér ástæðulaust að afhenda hreppnum þessa peninga, eins og þar með sé ákveðið, að engri krónu af þessu mætti verja á annan veg en þann, að greiða upp þær ábyrgðir, sem hreppurinn hefir tekizt á hendur. Annars verð ég að segja eins og er, að þegar það var nefnt við mig að vera stuðningsmaður þessarar till., þá var mér persónulega ókunnugt um efnahag þessa fólks. En mér skilst, að með till. hv. þm. G.-K. sé verið að gefa til kynna, að hreppurinn sé sá aðili, sem harðast hefir orðið úti, en það eru vitanlega þeir menn, er hafa misst sína og orðið fyrir langvarandi vanheilsu af þessu. Til þeirra viljum við, að peningarnir verði greiddir, ef till. nær samþykki.