06.04.1937
Sameinað þing: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2456)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Hannes Jónsson:

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. G.-K. sagði um það, hverskonar tegund af óráði það væri, sem ráðið hefði ummælum mínum um hv. þm. A.-Húnv., vil ég taka það fram, að ég hefði haldið, að hv. þm. A.-Húnv. hagaði gerðum sínum vitandi vits um, hvað hann væri að gera, og í samræmi við sína sannfæringu, og sérstaklega fannst mér ástæða til að ætla, að till. hans væri flutt í samræmi við hans sannfæringu í málinu, þar sem ég hafði heyrt hana staðfesta af honum sjálfum fyrir nokkrum dögum í útvarpinu. Það má vel vera, að það sé eitthvað óráðshjal að ætla einhverjum sjálfstæðismanni að vera svo sjálfstæður, að hann geti látið sannfæringu sína koma fram í einni einustu brtt. við eitt atriði í einu einasta máli á Alþingi. Það getur verið, að það sé óráðshjal, ef ætlazt er til þess af mönnum úr Sjálfstfl., að þeir hafi sjálfstæða skoðun í málum, en það er ekki ég, sem hefi borið þessar sakir á Sjálfstfl., heldur er það formaður fl., sem hefir gert það. En viðkomandi því, sem hv. þm. G.-K. beindi til mín, að ég myndi vera á sama hátt leiðitamur við sig eins og hv. þm. A.-Húnv. við Framsfl., skal ég endurtaka það, að ég tek upp till. þá, sem hv. þm. A.-Húnv. hefir ekki séð sér fært að standa við við þessa umr., og tek ég hana upp vegna þess, að hv. þm. hefir, fyrir málflutning okkar bændaflokksmanna, komizt inn á rétta braut í þessu máli, og þó að hann sé andstæðingur minn, vil ég þó gjarnan fylgja honum, þegar hann er á réttri braut, enda á það að vera stefna allra stjórnmálamanna að fylgja heldur málefnum en mönnum, og í þessu tilfelli vil ég fylgja málefni hv. þm. A.-Húnv., þó að ég að öðru leyti sé ekki eins fús á að fylgja honum eða hans líkum.

Hæstv. fjmrh. er enn að „fílósófera“ yfir því. hvort íslenzka krónan sé raunverulega fallin nú eða hvort hún eigi að falla í verði. Sjálfur hefir hann lýst yfir því, eins og hér hefir komið fram, að krónan væri í lægra verði á frjálsum markaði en hún er skráð, og þó að við færum ekki einu sinni eftir því, sem skeður á frjálsum markaði um íslensku krónuna, ætti hæstv. fjmrh. þó að hafa fylgzt svo með störfum þessa sænska hagfræðings, að hann viti, að allar þær fjárhagslegu aðstæður, sem eru ríkjandi í okkar þjóðfélagi, eru ótvírætt vitni um það, að krónan er of hátt metin. Ef til vill hefir hæstv. fjmrh. þá skoðun, að verðgildi krónunnar sé ómögulega hægt að meta á nokkurn hátt sanngjarnlega, að það verði bara að vera eitthvað út í loftið, að einhverjum mönnum verði falið að gera það, eftir því sem þeim sjálfum sýnist, án nokkurs tillits til atvinnuvega landsmanna. En hvaða ástæða var það, sem knúði Englendinga til þess að hverfa frá gullinnlausn og lækka verðgildi sinna peninga gagnvart gulli? Það var ekki annað en það, að þeir tóku fullt tillit til þeirra staðreynda, sem voru fyrir hendi í þeirra fjármálastarfsemi. Þeir sáu, að þetta gat ekki gengið lengur fyrir ensku þjóðina, og þess vegna lækkuðu þeir verðgildi sinna peninga. Hvers vegna fylgdum við Englendingum? Ekki fyrir það, að við hefðum sömu aðstöðu í okkar atvinnulífi og Englendingar. Það fór engin rannsókn fram um það; það var aðeins spursmál um það, hvort við ættum að fylgja þeim í blindni eða hvort við ættum að fylgja öðrum í blindni, t. d. Norðurlöndum. Þessi blindingsleikur í fjármálum okkar Ísendinga getur ekki staðið til lengdar. Það verður að taka á þessu máli föstum tökum. Það verður að líta á staðreyndirnar í atvinnulífi þjóðarinnar og taka afleiðinnunum af því öllu saman. Við getum ekki látið þetta ganga svona áfram, eins og verið hefir, að hnýta okkur blint aftan í aðrar þjóðir í þessu máli, sem skiptir fjárhagslega afkomu þjóðarinnar svo miklu. Við verðum að skapa okkur fasta og örugga skoðun á því, hvað sé heilbrigðast fyrir atvinnulífið í landinu, því að það er ekki hægt að neita því, að velmegun þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á því, að atvinnulíf þjóðarinnar sé rekið á heilbrigðum grundvelli. Með því móti er fyrst hægt að fá jafnvægi í þjóðfélagsbúskapinn, og með því móti er hægt að skapa öllum hinum vinnandi stéttum nægilega atvinnu, en það er ekki hægt á annan hátt. Þessi óarðbæra vinna, sem reynd hefir verið undanfarin ár, verður einungis bráðabirgðalausn, en engin framtíðarlausn; það er spor í áttina til þess að halda enn lengra áfram á leið fjármálalegrar spillingar. Það verður að stefna í rétta átt, og því fyrr sem það verður gert, því auðveldara verður okkur að ná því takmarki, að verða fjárhagslega sjálfstæð þjóð, en okkur tekst þetta ekki með því að binda okkur blint og skilyrðislaust aftan í ákvarðanir annara þjóða, sem hafa allt önnur skilyrði til að bera en við. — Ég vil enn spyrja: Hver ástæða var til þess, að við fórum eftir skráningu enskra peninga gagnvart gulli frekar en eftir skráningu norðurlandapeninga gagnvart gulli?