16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Skagf. fór um það nokkrum orðum, að hér væri verið að leika sjónleik. Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Eyf., að af hálfu Sjálfstfl. hefir þetta greinilega verið gert. Og það hefir verið illa leikinn sjónleikur. Um leið og þeir samþ. frv. þeirra þm. Eyf., létu þeir þess getið, og fóru ekkert dult með, að þeir álitu, að sú breyt., sem þar var gert ráð fyrir, að yrði gerð á l. um stj. síldarverksmiðjanna, væri til þess að gera stj. óstarfhæfari og miður heppilega en nú væri. Þetta kalla ég að leika mjög illa.

Hv. 1. þm. Skagf. virtist undrandi yfir því, að ég skuli ekki hafa gefið loforð um það, að ég skyldi fylgja þeim till., sem kynnu að koma frá fulltrúum flokkanna. Það er vitanlega ómögulegt að vita um það fyrirfram, hverjar þær till. verða, og mér dettur ekki í hug að fara að lofa neinu, áður en ég veit, hvernig þær líta út. Hitt er sjálfsagt, að þær till., sem fram verða komnar, gangi til þingsins, og að það hafi greiðan aðgang að öllum þeim gögnum, sem þar að lúta. Get ég beint þessu til hv. 1. þm. Eyf., samkv. því sem hann sagði áðan.

Hv. þm. var að tala um það, að með setningu bráðabirgðal. hefðu verið misnotuð ákvæði stj.skr. um bráðabirgðal. Mig furðar, að hv. 1. þm. Skagf. skuli láta sér slíkt um munn fara. Hann veit, að það var bein skylda ráðh., eins og komið var, þar sem verksmiðjustj. var ekki fullskipuð, að leysa málið einn veg eður annan. Hitt get ég skilið, að menn greini á um það, hvort þetta form á bráðabirgðalögunum hafi verið heppilegt eða ekki, en ráðh., sem hafði umsjón með þessu, varð að gera ráðstafanir til þess, að stj. gæti verið l. samkvæm.

Hvað það snertir, að hv. þm. er með sögusagnir um það, hvað gerzt hafi á síðasta þingi, áður en því var slitið, í þessu máli, þá kemur það þessu ekkert við. Honum er líka kunnugt um það, eftir endurteknar yfirlýsingar hér og í Nd., að ég sem ráðh. gekk úr skugga um það, að þingvilji væri fyrir því, að bráðabirgðal. væru gefin út. Og það hefir ekki verið dregið í efa af neinum.

Hv. 1. þm. Skagf. lagði 1. þm. Eyf. orð í munn um hlutdrægni í atvinnuveitingum við síldarverksmiðjurnar. Hv. þm. Eyf. leiðrétti þetta í sinni ræðu, og hefi ég þar litlu við að bæta. En mér finnst það vera mjög ósæmilegt fyrir hv. 1. þm. Skagf., að taka sér í munn gífuryrði og eigna þau þm., sem aldrei hefir tekið sér þau í munn.

Hv. þm. sagðist geta talið þetta mál greinilegan vott þess, hvað ríkisrekstur væri óheppilegur, af því að flokkastreita gæti átt sér stað. Mér er ekki vel ljóst, hvað þm. á við. Ég veit vel, að við ýms atvinnufyrirtæki, sem félög eða einstaklingar eiga, er beitt ekki lítilli harðýðgi, svo að ég ekki segi hlutdrægni, við atvinnuveitingar. En það kemur þessu máli ekkert við. Eins og hv. 1. þm. Eyf. hefir bent á, þá er þátttaka sjálfstæðismanna í þessu máli ekkert annað en illa leikinn skrípaleikur. Þeir hafa ekki meint það sjálfir, að sú skipun, sem þeir hafa bent á, gerði stjórnina nokkuð starfhæfari. — Hinsvegar er þessum hv. þm. án efa kunnugt um það, að síðastl. vor voru af hans flokksmönnum gerðar alvarlegar tilraunir, ekki til að hnekkja starfsemi síldarverksmiðjanna út af fyrir sig, heldur til að hnekkja beztu atvinnu meginhluta sjómanna hér á landi, með því að reyna að koma fram stöðvun á síldarflotanum í byrjun vertíðarinnar. Og það er að minni hyggju það ljótasta bragð, sem leikið hefir verið í sambandi við þetta mál, að gera sér leik að því að reyna að stöðva þann atvinnuveg, sem á þeim tíma gaf bezta von, og raun hefir sýnt, að gaf betri árangur heldur en nokkur annar atvinnuvegur hefir gefið á skömmum tíma nú hin síðari ár. Þetta er sá leikur, sem sjálfstæðismenn hafa leikið í sambandi við þetta mál.