22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

56. mál, útflutningur á kjöti

*Sigurður Kristjánsson:

Það er aðeins vegna þess, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði um norska markaðinn, að ég vil undirstrika það, að það er hann, en ekki ég, sem er hér með misskilning, er hann heldur fram, að hér sé ekki um neitt misrétti að ræða. Því hann bara athugar það ekki, að þeir, sem nú hafa sérstaklega þörf fyrir norska markaðinn, eru þeir, sem útrýmt hefir verið af innanlandsmarkaðinum með sérstökum ráðstöfunum kjötverðlagsnefndar. Það er auðvitað, að eftir því sem aðrir öðlast meiri rétt á innlenda markaðinum, verða þeir, sem höfðu hann áður, að fá meiri rétt á erlenda markaðinum.

Út af enska markaðinum vil ég segja það, að það er full ástæða til að ætla, að þessum rétti verði beitt nokkuð harkalega. Ég skal bara nefna sem dæmi, af því mér er það kunnugt, að einn kaupsýslumaður var búinn að vinna upp sérstakan markað fyrir innýfli úr sauðfé, en ég veit ekki betur en þau sérréttindi, sem Sambandið þykist hafa, séu svo rík, að klagað hafi verið yfir þessu og þessi nýi útflutningur stöðvaður. Þetta sýnir, að hér er um einkarétt að ræða, sem ekki er réttmætt að halda svona við út í yztu æsar.