22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

87. mál, skráning skipa

Bergur Jónsson:

Eins og sjá má af grg., er frv. þetta flutt fyrir tilmæli Eimskipafélags Íslands. Breytingin fer í þá átt, að veita mönnum einkarétt til vissra skipaheita, en hingað til hefir það ekki verið bannað með lögum, að taka upp nöfn annara skipa. Hinsvegar þótti okkur of langt gengið, er Eimskipafélagið vildi banna, að fleiri félög létu nöfn skipa sinna enda á sama orði, eins og t. d. „foss“, en eins og kunnugt er, á Eimskipafélagið aðeins skip með fossanöfnum. — Vil ég leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr.; það þarf ekki að fara til nefndar.