16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

65. mál, héraðsskólar

*Bergur Jónsson:

Ég er sammála hv. 9. landsk. um, að mjög væri æskilegt, ef hægt væri að koma upp einhverskonar skóla þarna á Reykhólum í Reykhólasveit, af þeim ástæðum sérstaklega, að þessi staður er mjög hentugur til að nota hann til opinberrar starfsemi á einn eða annan hátt. Hitt er annað mál, að það er náttúrlega búið að reisa það mikið af héraðsskólum hér á landi, að ég býst við, að hv. þm. verði tregir til þess að samþ. þennan stað nú sem héraðsskólasetur. Þess vegna er það, að ég, þrátt fyrir óskir frá ungmennafélögum þarna vestra um að stuðla að því að koma þessu í framkvæmd, hefi þó ekki flutt frv. um þetta. Ég býst við, að þetta sé líka ástæðan til þess, að hv. 9. landsk. hefir ekki heldur flutt frv. um þetta. Hann flutti frv. í fyrra um það á Alþ., að ríkið tæki þessa jörð eignarnámi, án þess að geta um ástæðurnar til þess, að hann gerði það. Ég lagði þá til, að fram færi rannsókn á því, til hverra opinberra nota Reykhólar væru bezt hæfir. Ég gerði ráð fyrir, að þar væri hentugt að koma upp fyrirmyndarbúi. T. d. mætti koma þar upp mikilli garðrækt og nota við hana jarðhita, sem þar er. Það er ekki vafi á því, að sá fátæki hreppur, sem þessi jörð er í, hefir alls ekki þau not þessarar jarðar sem skyldi. Og æskilegast væri fyrir alla, sem þar búa nálægt, að betur væri búið að þessum stað. Ég er þeirrar skoðunar og ég veit, að hv. 9. landsk. er einnig þeirrar skoðunar, að það sé ekki heppilegt eins og nú hagar til, að það sé aðeins einn búandi á þessari stóru jörð, nema þá að það sé það opinbera, ef á að nota þessa jörð til fulls. Þessari jörð fylgja mikil hlunnindi, svo að segja ótæmandi graslendi til ræktunar. Jarðhiti er þar mikill. Og ef réttum tökum væri beitt, þá mundi jafnvel líka vera hægt að fá þar nokkuð mikið vatnsafl. En ég hefi ekki þorað að bera fram till. um, að þarna yrði reistur héraðsskóli, af þeirri ástæðu, að ég hefi eftir viðtölum við ýmsa hv. þm. af öllum flokkum komizt að þeirri niðurstöðu, að nú liggur það ekki í loftinu, að menn vilji stofna til að byggja fleiri héraðsskóla. Það er enginn vafi á því, að Reykhólar eru á margan hátt fullt eins vel lagaðir til héraðsskólaseturs og t. d. Laugarvatn. En á þessum tveim stöðum er þó einn munur sérstaklega, sá, að Laugarvatn er í mannfleira héraði og á þann hátt betur í sveit komið, þannig að hægt er að nota skólahúsið fyrir gistihús á sumrum. En ég býst við, að ef vel væri gengið frá skóla á Reykhólum, þá mundi líka vera hægt að afla þar tekna með einhverju í þá átt. En það, sem sérstaklega er rétt að vinna að í framtíðinni fyrir okkur báða (hv. 9. landsk.), hvort sem það á fyrir okkur að liggja að vera báðir saman á þingi eða bara annar okkar — þá getum við tekið höndum saman um að stuðla að því, að þessari jörð verði meiri sómi sýndur heldur en verið hefir hingað til.

Ég mun greiða atkv. með brtt. hv. 9. landsk. um þetta mál, því að ég álít, að hún stefni í rétta átt, þó að ég hinsvegar hafi ekki fulla von um, að hún nái samþykki hv. þingdeildar.