16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

65. mál, héraðsskólar

*Sigurður Einarsson:

Það gleður mig, hvernig hv. þm. Barð. hefir tekið í þetta mál. En hann hefði ekki þurft að lesa fyrir mér landafræði viðvíkjandi þessum stað. Ungmennafélagasambandið skrifaði mér snemma í vetur og tilkynnti mér, að það hefði falið hv. þm. Barð. á hendur að beita sér fyrir því, að héraðsskóli yrði reistur þarna. Bréfið var ekki annað en vitneskja til mín um þetta. Og ég áleit því ekki, að það væri mitt að bera fram frv. um þetta sérstaklega. En þegar svo var komið, að staður var samþ. sem héraðsskólasetur, sem ekki hafði neitt meira til brunns að bera en þessi staður, þá taldi ég mér skylt að taka þetta mál upp fyrir Barðstrendinga.

Mér dettur ekki í hug að hafa á móti því að mega eiga von á stuðningi hv. núv. þm. Barð. til þess að vinna fyrir þetta mál, þó að hann eigi ekki lengri setu hér á þingi. Ég heyrði ekki betur en að hann væri að flytja hér skilnaðarræðu, sem ég tek þannig, að hann búist ekki við að eiga eftir að starfa meira hér á Alþ.