21.10.1937
Efri deild: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

2. mál, atvinna við siglingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Með þessu frv. er leitað staðfestingar Alþingis á bráðabirgðalögum, sem út voru gefin 30. maí síðastl. Ástæðan er sú, að það hefir sýnt sig, að vegna óvenju mikillar þátttöku í síldveiðunum síðasta sumar skorti vélstjóra með fullum réttindum á nokkurn hluta flotans, og var því óhjákvæmilegt, ef skipin áttu ekki að stöðvast, að fá heimild ríkisstj. til þess að veita undanþágu frá ákvæðum téðra laga. Undanþágan er bundin við tímabilið frá 1. júní til 31. okt. ár hvert. Það er sem sé fyrst og fremst miðað við síldveiðitímabilið, þegar flest af skipunum er í notkun. — Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til hv. sjútvn. að umr. lokinni.