22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Magnús Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. er svo náðugur að ætla að leyfa þessu frv. til 2. umr., og ég þakka fyrir minn part, sem ekki er nú stór. Hitt er náttúrlega ekki vitað, hvort við, sem eigum þátt í þessu frv., göngum að öllum þeim breyt., sem hann vill gera, en nokkrar þeirra get ég gengið inn á. Samhliða því, sem ég geri grein fyrir því, sem mér finnst athugavert við frv., mun ég koma að því, sem hæstv. ráðh. finnur því til foráttu. Það er þá fyrst, að í 9. gr. er ekki gert ráð fyrir því, að verksmiðjurnar megi kaupa síld föstu verði. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að slíka heimild þurfi að veita verksmiðjunum, eins og var, en jafnframt eigi þó að stefna að því, að verksmiðjurnar vinni fyrir reikning útgerðarmanna og sjómanna, en hinu er ég ekki blindur fyrir, að þegar síldarverðið er lágt, er ekki hægt að komast hjá því að borga meira út við móttöku heldur en þegar síldarverðið er hátt, eins og verið hefir tvö síðastl. ár, enda tel ég, að vel hefði verið hægt að borga aðeins allt að 85%, og ég tel það eðlilegt, þegar verksmiðjurnar voru byggðar í þeim tilgangi, að þær ynnu síldina fyrir þá, sem veiða hana, en ekki í neinum ríkisrekstrartilgangi, þannig að síldareigendur hefðu ábyrgðina og áhættuna á sínum atvinnurekstri, og þar af leiðandi tap eða ágóða.

Náttúrlega má halda því fram, eins og hæstv. ráðh. benti á, að einhverjir mundu fyrir þessa sök heldur selja síld verksmiðjum einstakra manna fyrir fast verð. En af hverju ætti það að þurfa að vera? Ætti það að vera af því, að menn fengju ekki allt útborgað í einn? Ég sé nú ekki, að þarna þurfi að vera svo mikil hætta, ég sé ekki betur en hægt væri að gera sér von um hærri uppbót en áætlun nemur. Það eru sannarlega ekki svo lítil hlunnindi, sem þessar ríkisverksmiðjur hafa fram yfir verksmiðjur einstakra manna, að það ætti að vera auðvelt að sýna fram á, ef rekstur þeirra væri í góðu lagi, að þær ættu að geta borgað hærra verð samtals en verksmiðjur einstakra manna. Það er enginn efi á því, að rétt er, að verksmiðjurnar hafi leyfi til að kaupa síld ákveðnu verði í einstökum tilfellum; sú aðferð hefir verið leyfileg sem undantekning, en aðalreglan átti að vera að taka vöruna til vinnslu. En undantekningin hefir orðið að aðalreglu, en aðalreglan að undantekningu í praksis, eins og hæstv. ráðh. tók fram.

Þá þótti hæstv. ráðh. of litið, að verksmiðjustj. hefði ekki nema 75 þús. kr. yfir að ráða til endurbóta og nýbygginga á hverju ári. Út af því vil ég spyrja hann, hvort það sé satt, að á þessu ári hafi verið notuð um 500 þús. kr. til endurbóta og nýbygginga, eins og sagt er. Ef þetta er satt, sýnist engin vanþörf á, að tekið sé í taumana. Hvort 75 þús. kr. er of lítil upphæð í þessu skyni, skal ég ekki um segja, en að notaðar séu 500 þús. kr., eða hver veit hvað, kannske miklu hærri upphæð, til viðhalds eða nýbygginga án íhlutunar Alþingis, það held ég, að öllum hljóti að ofbjóða. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi samþ. þessar ráðstafanir, en til vonar og vara vil ég spyrja hann, hvort svo sé. Ég vil ennfremur spyrja hann, hvort fé þetta hefir verið tekið að láni hjá bönkunum, eða hvort það hefir verið til í sjóðum hjá verksmiðjunum. Ég vil undirstrika það, sem fyrsti flm. sagði, að það verður að koma í veg fyrir, að ein verksmiðjustjórn, jafnvel þó hún hafi samþykki ráðh., geti ráðstafað kannske svo millj. kr. skipti án þess að Alþingi veiti samþykki sitt til, á sama tíma sem við erum hér að metast um smáupphæðir.

Þá var hæstv. ráðh. að spyrja að því, hvort ætti að borga þann halla, sem af því gæti leitt að útborga 83%. Ég skal viðurkenna, að það getur vel orðið um halla við ræða, þó ekki sé borgað meir en 85% áætlunarverðs við móttöku. Mér finnst eðlilegast, að tekið væri tillit til þess halla, er áætlun er gerð fyrir næsta ár. (Atvmrh.: Það er ekki gert ráð fyrir því f frv.). Ef svo er, að verksmiðjurnar séu byggðar fyrir sjávarútveginn, en ekki sem ríkisfyrirtæki, þá sýnist þetta mjög eðlilegt. Því falli síldin í verði eftir að áætlun hefir verið gerð, hlýtur það verðfall eins að koma niður á verksmiðjum einstakra manna, sem verða þá að taka tillit til þess næsta ár.

Ég vil aftur á móti spyrja hæstv. ráðh., hvernig rekstrarafkoma verksmiðjanna sé á yfirstandandi ári; ég býst við, að ekki sé hægt að svara því nákvæmlega, en nærri því rétta hlýtur að mega komast. Mér er sagt, að reksturinn hafi gengið illa, og jafnvel orðið halli á honum. Mér gengur sannast að segja illa að skilja þetta, þegar veiðin er svo mikil sem raun er á, og kunnugt er, að mjög miklar birgðir af síldarafurðum voru seldar fyrirfram við mjög háu verði.

Að síðustu vil ég geta þess, að mér virðist 1. og 2. gr. frv. óþarfar. Ég sé ekki, að enn sé ástæða til að setja skorður við því, að verksmiðjur einstakra manna séu stækkaðar eða nýjar byggðar. Reynsla undanfarinna ára hefir sýnt það, ekki sízt síðastl. sumar, að þær eru of fáar. Ég held, að engin ástæða sé til að óttast það, að einstakir menn leggi í að stækka sinar verksmiðjur eða byggja nýjar, nema fjárvænlegt sé á hverjum tíma. Hinsvegar gætu ákvæði 1. gr. hamlað nauðsynlegum framkvæmdum í þessu etni, og þarf ekki annað en vitna til þess, sem gerðist á síðastl. vori, er hæstv. atvmrh. heitti sér gegn því, að ein stór verksmiðja væri þá reist með þeim árangri, að verksmiðjan varð þar fyrir dýrari en ella. Nú býst ég við, að allir sjái, að ekki var vanþörf á, að þessi verksmiðja var reist, því án hennar hefði þó miklu meira orðið ónýtt af síld í sumar en varð, og sömuleiðis miklu minna verið unnið. Ég sé ekki heldur neina ástæðu til að láta ríkið hafa forkaupsrétt að þeim verksmiðjum, sem kynnu að verða seldar, en ég legg ekki svo mikið upp úr þessum greinum, að ég fyrir það ekki gæti verið meðflm. frv.

Nokkrum fleiri gr. frv. gæti ég hugsað til að breyta, þó langt sé frá því, .að ég geti fallizt á allar brtt. hæstv. ráðh. Ég geri ráð fyrir, að hv. l. flm. svari aths. hans. Þó vil ég taka það fram viðvíkjandi 7. gr., að mér finnst það ekki óeðlilegt, þó ríkissjóður leggi verksmiðjurnar til, þá vilji hann ekki bera ábyrgð á rekstri þeirra. Það væri hliðstætt því, að menn leggja fé í hlutafélag, en „risikera“ ekki meira en hlutafénu.

Viðvíkjandi 6. gr., um 75 þús. kr. hámarkið, þá get ég ekki séð, að það sé neitt hættulegt; hafi verksmiðjurnar þörf fyrir meira fé, þá kemur til kasta Alþingis. Og hvað rekstrarféð snertir sé ég ekki. að hætt sé við, að bankarnir verði tregir til að lána ríkisverksmiðjunum. Þær virðast þó standa betur að vígi með tryggingar en verksmiðjur einstakra manna, sem flestar munu veðsettar meira eða minna.

Sá skattur, sem tiltekinn er í 14. gr., virðist ekki ætti að vera þungbær fyrir verksmiðjurnar, samanborið við það, sem verksmiðjur einstakra manna þurfa að borga í sköttum og útsvörum, því þetta 1%, sem ríkisverksmiðjurnar eiga að greiða, er miklu léttara en þær álögur, sem á öðrum verksmiðjum hvíla. Hitt er auðskilið mál, að þeir staðir, þar sem þessi mikli atvinnurekstur fer fram. geta ekki þolað það að fá af honum engar tekjur, og á það sérstaklega við um Siglufjörð, því vitanlegt er, ef ríkið hefði ekki haft þar sínar verksmiðjur, þá hefðu þar risið upp verksmiðjur einstakra manna, sem gefið hefðu bæjarsjóði miklar tekjur.