10.12.1937
Efri deild: 46. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Áður en ég vík að hinni mjög svo „söglegu“ ræðu hv. þm. S.-Þ., ætla ég að fara nokkrum orðum um brtt. sjálfar, en þær urðu alveg útundan í ræðu hv. þm.

Út af brtt. hv. sjútvn. á þskj. 309 vil ég segja það, að ég get fellt mig við þá orðun á 6. gr. frv., sem þar er upp tekin. Ég lýsti því við l. umr., hverjum erfiðleikum það er bundið að ákveða í eitt skipti fyrir öll upphæð til árlegra endurbóta og nýbygginga í verksmiðjunum. Ég vil aðeins benda hv. n. á, að í byrjun brtt. stendur „án samþykktar Alþingis“, — „án samþykkis Alþingis“ færi betur. Það er ekki heldur tekið fram í till., hvort ætlazt er til, að þetta sé gert með þál. eða 1. — Á sama þskj. er brtt. við 11. gr., síðustu málsgr. Ég held, að þar sé skýrar og gleggra kveðið á en í frv. sjálfu, og fellst því einnig á þessa brtt. — Við 2. umr. málsins hér í hv. d. var felld brtt. frá hv. 3. landsk. viðvíkjandi stjórn síldarverksmiðjanna. Hv. þm. ber nú fram brtt. að nýju, og fer brtt. fram á að stjórnin skipi 5 menn, 2 kosnir hlutbundinni kosningu á Alþ., 1 skipaður af atvmrh., 1 tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands og 1 tilnefndur af útgerðarmönnum, er við verksmiðjuna skipta, eftir reglum, sem atvmrh. setur. Ég vísa til þess, sem ég hefi áður sagt í umr. um þetta mál, að ég álít það fyrirkomulag hagkvæmast, að í stjórninni ættu þrír menn sæti, og væru þeir allir skipaðir af ráðh. En verði farið að breyta þessu á annað borð, þá finnst mér að rétt sé að fara þá leið, sem felst í brtt., að tekið verði tillit til vilja viðskiptamannanna, sjómanna og útgerðarmanna um val stjórnarinnar. Ég mun því greiða þessari till. atkv.

Hv. þm. Vestm. hefir flutt brtt. um útsvarið, að það verði ½% af brúttóvirði seldra afurða, í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir 1%. — Hv. 3. landsk. leggur til, að þessi grein falli niður, og svo verði áfram sem nú er, að verksmiðjurnar séu ekki útsvarsskyldar. Ef þessi brtt. verður felld, mun ég greiða atkv. með brtt. hv. þm. Vestm., að samþykktri brtt. hv. 2. þm. S-M. á þskj. 302, um að útsvarsupphæðin sé bundin við 25% af útsvörum viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags það ár sem hámark. Þetta ákvæði tryggir það, að lítil sveitarfélög geti ekki velt öllum útsvarsþunga sinum á verksmiðjurnar.

Brtt. þær, sem lágu fyrir þegar við 2. umr., sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um, þar sem ég tók afstöðu til þeirra við þá umr.

Ræða hv. þm. S.-Þ. gæfi mér tilefni til að flytja eigi allstuttan ræðustúf. Ég mun reyna að stytta það eins og ég get, en þó verður ekki hjá því komizt að drepa á meginatriði ræðu hans. Ég vil byrja með því að leiðrétta átakanlegan misskilning, sem mér fannst koma fram í ræðu hv. þm. Hann byrjaði ræðu sína á því, að vegna þess að ég sem atvmrh. hefði ákveðið síldarverðið í sumar 8 kr. málið í bræðslu hjá síldarverksmiðjum ríkisins, hefðu aðrar verksmiðjur, svo sem verksmiðjurnar á Seyðisfirði og Norðfirði, tapað miklu fé í sumar. Rauði þráðurinn í þessum kafla ræðu hv. þm. var sá, að síldarverðið í sumar hefði verið ákveðið of hátt, og bæri ég sem ráðh. ábyrgðina á því, að síldarverksmiðjur ríkisins væru orðnar glæfrafyrirtæki, og því, að aðrar verksmiðjur stórtöpuðu. Þetta eru svo þungar og alvarlegar ásakanir, að viðfelldnara hefði verið, að hv. þm. hefði gert tilraun til að rökstyðja þær eitthvað. Ég lýsti því yfir við 2. umr., að samkv. upplýsingum verksmiðjustjórnarinnar væri talið útlit fyrir, að með 8 króna verðinu verði hagur verksmiðjanna þannig í haust, að hægt verði að greiða öll sjóðgjöld, allar afborganir og öll lögskipuð gjöld, sem nema um 480 þús. krónum á ári, og þó eiga um 60 þús. króna afgang. Nú er komið yfirlit yfir reksturinn, og hefir þetta staðizt. Það er því langt frá, að verðið í sumar hafi sínt sig að vera ógætilega áætlað, ef þess er gætt, að frá árinu sem leið voru yfirfærðar 200 þús. krónur, sem var afgangur af rekstrinum það ár. Ég tel, að það hafi sýnt sig, að gætt hafi verið fullrar varúðar við verðákvörðunina. Þó hafa orðið meiri verðsveiflur á annari framleiðsluvörunni, lýsinu, en tilt er. Verðlagið á lýsi var í fyrravetur 22 pund, en hefir lækkað síðan, og er nú komið niður í 15–16 pund. Verðlækkunin á þessari verðmestu vöru hafði þá orðið fullkomlega um einn þriðja á þessu tímabili. Og ég er ekki viss um, að allar fjárhagsáætlanir þessa hv. þm. séu svo traust undirbyggðar, að þær standist svo mikið áfall sem þetta. Ég vildi mega spyrja hann, af því hann læzt vera eini sannkristni maðurinn í samvinnu hér á landi og hafa jafnvel búið samvinnufélagsskapinn til, hvort áætlunarverð á vörum hjá kaupfélögum og samvinnufélögum er svo varlega eða varlegar áætlað yfirleitt. Ég hygg, að það sé sízt varlegar áætlað heldur en verðið á síldinni síðastl. ár, og er þó auðveldara að gizka á í þeim efnum, því að verð á síld var áætlað talsvert fyrir síldveiðitímann, eins og verður að gera, en verð á gærum t. d. um leið og farið var að selja þær. Á þessum vörum varð talsvert verðfall. En ég efast um, að það verðfall hafi verið séð fyrir og að í áætlunarverðinu hafi verið trygging fyrir því, að allt gæti staðizt. (PZ: Víðast hefir það staðizt). Það verð ég að draga í efa, samkv. upplýsingum, sem ég hefi fengið um þetta, meðan ég fæ ekki aðrar betri.

Hitt er rétt, sem hv. þm. sagði, að það hefir orðið tap á rekstri verksmiðjanna á Seyðisfirði og Norðfirði. Þær hafa haft sína barnasjúkdóma, en þó veldur sérstaklega, að sú síld, sem veiðist aðallega fyrir Austurlandi, er að 1ýsismagni fullu 1% lægri en síld norðanlands. En það væri býsna öfugt, ef síldarverð á landinu til bræðslu ætti að miða við mögrustu síldina, og að verksmiðjan, sem er minnst og á örðugast með að bera sig, ætti að ákveða síldarverð fyrir allt landið. Það er vissulega ekki heppilegt, að mikið sé byggt af slíkum smáum verksmiðjum. Náttúrlega á að miða verðið við ríkisverksmiðjurnar, sem ætla má, að skili ódýrustum afköstum með þeim tækjum, sem þar eru, og séu færastar að veita sjómönnum og útgerðarmönnum ríflegust kjör. Þess vegna verður að leggja ríka áherzlu á það, að verksmiðjurnar séu alltaf í því allra bezta ástandi, sem unnt er, svo að þær geti unnið sem mest af síld með sem minnstum tilkostnaði og veiti sjómönnum sem hæst verð. Að því er stefnt með ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið undanfarið, eins og endurnýjun á pressum, kaupum á skilvindu og öðru, sem mest hefir kallað að.

Það mun nú hafa verið drengilega gert af hv. þm. S.-Þ. að verja mína frændur, bæði látna og lifandi, fyrir ómaklegum árásum af minni hendi, og fyrir hönd frænda minna votta ég honum mínar beztu þakkir fyrir. En þessi vörn kynni þó að hafa verið óþörf, því að ég mótmæli því að hafa gert nokkra árás á hendur samvinnumönnum eða félögum í landinu eða á hendur frændum mínum, lífs eða liðnum. Ég sagði það eitt, að samvinnuskipulagið hefði ekki megnað að afstýra áföllum, sem bændastétt landsins hefði orðið fyrir, t. d. í Þingeyjarsýslu, þar sem mínir frændur voru og eru flestir og hv. þm. er sérstaklega kunnugur, ættaður þaðan og þm. þess kjördæmis. Og þetta veit hann eins vel og ég. Og ég skal líka segja honum, að ég veit eins vel og hann, — þó að hann telji sig einan hafa rétt til að tala fyrir munn samvinnumanna á þingi og í blöðum og í landinu yfirleitt, — hversu stórkostlegt afrek það er, sem samvinnufélögin hafa unnið, eða réttara sagt íslenzkir bændur með sinum samvinnufélagsskap. Það er ómetanlegt, hversu kjör þeirra bötnuðu stórkostlega efnalega og hversu þeir mönnuðu sig stórkostlega sjálfa gegnum þennan félagsskap. Þetta er mér engu síður ljóst en hv. þm. En hitt er ekki annað en barnaskapur einber, ef ekki annað verra, að hugsa sér, að samvinnufyrirkomulag bænda um þeirra afurðir sé hægt að flytja í einu vetfangi á annan atvinnurekstur, svo sem að reka síldarverksmiðjur og gera út síldveiðiskip. Hann veit, að hér er um mjög ólíkar aðstæður að ræða, og það er barnalegt að trúa skilyrðislaust á heimfærslu eins fyrirkomulags yfir á ólíkt framkvæmdasvið, þó að það geti reynzt vel þar, sem það á við. Prýðilega saumuð flík á hv. þm. S.-Þ. gæti kannske ekki passað á mig — af tilviljun gerði hún það kannske — en gæti orðið háðungarspjör á Pétur eða Pál, því að það er jafnan svo, að sníða verður stakkinn eftir vexti. Og ekki síður í þessum efnum en öðrum.

Hv. þm. sagði, að ég hefði brigzlað bændum út af kreppuhjálpinni. Ekki veit ég, hvaðan þm. kemur þetta; það er kannske blaðamaðurinn, sem hefir hlaupið af stað með þingmanninn. Ég neita því alveg að hafa gert þetta. En ég sagði, að þrátt fyrir þann mikla styrk, sem bændur hefðu haft í sínum samvinnufélagsskap, gætu þeir samt sem áður ekki haldið sínum atvinnurekstri gangandi og jörðum og búum, nema hið opinbera hlypi undir bagga með kreppuláni. Ég hefi aldrei sagt, að þær 11 millj. kr. séu tapaðar. En ég veit ekki betur en að ríkissjóður leggi fram 250 þús. kr. árlega í tillag, sem kemur aldrei aftur, þannig að það verði 2 millj. á 8 árum. Og ég er alveg viss um að lánin koma ekki öll inn, en sem mest, vona ég. Ég sagði ekki, að mennirnir vilji ekki borga. Ég geri ráð fyrir fullkominni skilsemi, eftir því, sem geta leyfir; en það er barnaskapur að hugsa sér, að 100% komi inn af þessum skuldum frekar en öðrum útlánum.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði gert árás á bændastétt landsins. Því fer mjög fjarri. Það eina, sem ég hefi gert, er að segja frá staðreyndum, sem öllum eru kunnar, ekki sízt þeim, sem hafa fjallað um löggjöf síðustu ára og að ákaflega miklu leyti hnígur í beina þjóðnýtingarátt fyrir bændur, eins og ég fæ kannske tækifæri til að sýna þm. fram á síðar, sem hlakkaði yfir því, hversu þjóðnýtingarpostulanum (í gæsalöppum býst ég við) Sveini á Egilsstöðum hefði gengið illa í síðustu kosningum. Hann sagði um þennan mæta mann, að hann vildi þjóðnýta landbúnaðinn og ákveða fast verð á kjöti. Hann sagði þetta vera í samræmi við jafnaðarmenn, en svo hafi flokkurinn sálazt út af! Nú vil ég spyrja hv. þm.: Man hann eftir l., sem heita 1. um kjötverðlag og sölu á kjöti, eða nokkru, sem heitir mjólkursölulög og stundum hafa verið til meðferðar í þinginu? Hver ákvæði eru í þessum lögum? Ég man ekki betur en að ákveðið sé, að innanlands eigi að vera ákveðið verðlag á kjöti. sem ákveðið er af sérstökum nefndum. þar til skipuðum, og óheimilt sé að selja kjötið eða mjólkina fyrir annað verð en hlutaðeigandi nefnd ákveður. Þetta er stórt spor í þjóðnýtingarátt; ég játa það. Það er eins og mig minni, að hv. þm. S: Þ. hafi greitt atkv. með þessari löggjöf. Það er ákveðið í þessum l., að af þessu fasta verði, sem greitt er innanlands, skuli tekinn viss hluti og greiddur sem uppbót á kjöt, sem flutt er úr landinu. Og viss hluti af því verði, sem greitt er fyrir neyzlumjólk, er notaður til að bæta upp bændum, sem búa til osta og smjör úr sinni mjólk, þ. e. a. s., það er tekið frá einum framleiðandanum og lagt til annars með löggjöf. Hvað kallar þessi hv. þm. þetta? Ég kalla það stórt spor í þjóðnýtingarátt. Er þetta samvinnufélagsskapur bænda? Það væri skrítinn samvinnufélagsskapur, að t. d. bændum austanfjalls væri fyrir tilstilli slíks félagsskapar greidd uppbót á sína mjólk af hálfu félagsmanna hér í nánd. Nei, þetta er ekkert annað en það, að ríkisvaldið viðurkennir nauðsyn þess, að til sé nokkurn veginn fastur grundvöllur fyrir atvinnurekendur að byggja á, og tekur sér vald til þess að skakka leikinn, skipta kjörum manna, til þess að tryggja sem bezt afkomu fjöldans. Og það er bein þjóðnýting, ekkert annað. Þm. hristir höfuðið, og hrista má hann höfuðið, þangað til það dettur af, en hann kemst ekki framhjá þessu. Ég játa, að þessi l. eru ekki nema spor í áttina. En það er engir menn komnir lengra í þjóðnýtingu í sinni verzlun og atvinnurekstri. Viðskiptalega er samvinnufélagsskapurinn ekkert annað en þjóðnýting. Stórbændur gætu fengið jafngóð kjör með því að skipta við kaupmenn, ef þeir brytust út úr félagsskapnum og skildu smælingjana eftir, en með því að vera í kaupfélagsskapnum búa þeir við sömu verzlunarkjör og aðrir í þeim félagsskap.

Hv. þm. sagði, að bændur hefðu byggt upp með samtökum kerfi af frystihúsum og kæliskip. Hvar er kæliskipið, sem bændur eiga? Ég er ekki farinn að sjá það enn. Ég man ekki betur en að ríkissjóður hafi lagt verulegan skerf til Eimskipafél. til byggingar þess. Hann sagði og, að þeir hefðu byggt með samvinnufélagsskap frystihús um landið. Þetta er rétt að nokkru. En ég veit ekki betur en að helmingur sé lagður fram af ríkissjóði til þeirra flestra, a. m. k. 23% til þeirra allra. Þetta kalla ég þjóðnýtingu. Í raun og veru á ríkissjóður helminginn í þessum húsum. En það var þjóðarnauðsyn að breyta um framleiðslu, hætta við söltun á kjöti og taka upp frystingu. Þetta hefir verið viðurkennt af ríkinu, og þess vegna hafa stórar upphæðir verið lagðar fram af almannafé. náttúrlega er hægt að kalla, að samvinnufélögin hafi gert þetta, en það er ekki nema hálfur sannleikur. Margir hefðu viljað sæta þeim kjörum að byggja frystihús, með því að fá helming úr ríkissjóði. Hinsvegar eiga samvinnufélögin mikið lof skilið fyrir það, að þau skildu svo snemma þá breytingu, sem var að gerast um sölumöguleika fyrir kjöt, og breyttu strax um verkunarhátt, svo að þau gátu aukið útflutning á frystu kjöti, þegar þrengdist á saltkjötsmarkaðinum, og hafa þannig afstýrt stóru áfalli. Þess vegna er alveg óþarfi að hrúga á samvinnufélagsskapinn ósönnu lofi í þessu efni.

Hv. þm. veik að því hvað eftir annað, hvernig nú er komið hag útgerðarinnar, að það væri sýnt, að togarar töpuðu 110 þús. kr. hver á ári, vélbátar 10 þús. kr., eftir áætlun, sem fyrir lægi. Ég verð að taka mér tíma síðar að víkja að þessum atriðum út af fyrir sig.

Þá veik hv. þm. að því, að maður, sem fyrir 21 ári hafði barizt mjög drengilega fyrir, að sjómenn fengju samvinnugrundvöll, hann gæti nú verið orðinn andstæðingur sjómanna (JJ: Með sömu skoðun). Með sömu skoðun. Margt hefir breytzt á skemmri tíma en 21 ári, og sumir hafa skipt um skoðun á skemmri tíma. Og skoðun, sem fyrir einu ári síðan gat verið alls kostar rétt, getur í meginatriðum verið rétt nú, án þess að vera rétt í hverju einstöku atriði. Ég dreg mjög í efa, að skoðun hans á þessu málefni sé sama nú og fyrir 21 ári, þó að hann máske haldi, að svo sé, sem ég ekki vefengi. Og hitt fullyrði ég, að þótt hann í aðalatriðum kunni að vera sömu skoðunar, þá hefi ég gert grein fyrir þeim breytingum, sem orðið hafa á þessu tuttugu og eina ári, og tel ég þar verr farið. Ég skil vel, að þessum hv. þm. hlýtur að vera það ákaflega viðkvæmt mál, ef hann fær hallmæli frá verkamannastétt, því að það er alveg rétt, að hann hefir þar margt gott til lagt, sem sjálfsagt er að meta og virða. En hann má náttúrlega ekki láta sér detta í hug, að hann hafi með afskiptum af málum sjómanna 1916 eða öðru, sem studdi mál verkamanna, keypt sér allsherjar syndaaflát og kvittun fyrir öll ókomin ár. Hann verður eins og hver annar að taka því, að dæmi sé um gerðir hans og viðhorf til mála og stétta á hverjum einstökum tíma án tillits til þess, sem á undan er gengið.

Hann sagði, að bændur hefðu ekki viljað þær 3 millj., sem Sveinu á Egilsstöðum hampaði framan í þá, af því að það átti að vera ríkisstyrkur. Mig brestur kunnugleika til að koma augu á þessar milljónir, sem Sveinn bauð. En vegna þess tilefnis get ég ekki stillt mig um að segja, að það eru ekki færri milljónir en þrjár, sem nú í fjárlfrv. er ætlað að leggja sem styrk til — ég segi ekki bændum landsins, heldur landbúnaðinum sem atvinnuvegi. — Það er a. m. k. töluvert á þriðju milljón. Ég hefi aldrei orðið var við, að það sætti neinum sérstökum andmælum úr bændastétt, sem ekki er við að búast, að þessi fjárveiting er samþ. á Alþingi. Ég hefi orðið var við, að jafnvel væri hægt að fá leyfi til að koma meira fé fyrir á þennan hátt. Menn skulu á engan hátt halda, ið ég sé að draga úr nauðsyn þessara fjárframlaga, en ég er að sýna fram á, hversu algerlega eru út í loftið þessar fullyrðingar hv. þm. En þar að auki koma þær nú þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Hv. þm. veik enn að því, hvílíkt glæfrafyrirtæki ríkisverksmiðjurnar hafi alla tíð verið — skildist mér — og ekki einungis fyrir verðákvörðunina á síðastl. vori. Ég verð að skjóta því til hans, af því að hann talar hér stundum sem bankaráðsmaður fyrir Landsbankann, að ég held það sé tilefni fyrir hann að hugleiða frekar um hag annara viðskiptamanna Landsbankans en síldarverksmiðjanna, t. d. þeirra, sem skulda svona þrefalt a. m. k. eða kannske fjórfalt á við síldarverksmiðjurnar. Það væri máske vert að verja sinum tíma til að athuga þá reikninga og rekstur. Ég á t. d. við h. f. Kveldúlf og jafnvel fleiri. Ég þykist ekki mæla um of, þó að ég segi, að kröftum hans sem bankaráðsmanns væri alveg nægilegt verkefni að athuga þá reikninga til mergjar og koma þar á traustum og öruggum rekstri. Því að hann segir að „allt verði að hera sig“. Hefir það fyrirtæki borið sig betur í ár en ríkisverksmiðjurnar? Hann veit það sem bankaráðsmaður. Er hann búinn að ganga úr skugga um, að á hverju ári mæti þeir sínum halla í Kveldúlfi? Ég vona að hv. þm. gefi upplýsingar um þetta síðar.

Þá fór hann að tala um skuldir síldarverksmiðjanna. (JJ: Ég sagði, að þær myndu ekki eiga neinar eignir). Ég þori ekki um það að fullyrða; það fer eftir, hvað matið er lágt á eignunum. En við fljóta athugun sé ég það, að kaupverð síldarverksmiðjanna allra fimm mun hafa verið eitthvað nálægt þrem millj. 600 þús. kr. Það, sem ógreitt er af þessu, þ. e. a. s. aðalskuldir verksmiðjanna, fyrir utan rekstrarskuldir, sem greiðast um leið og afurðir seljast, eru um 2,6 til 2,7 millj kr. Fyrsta verksmiðjan var byggð 1930, fyrir sjö árum, og allar hinar verksmiðjurnar eru miklu síðar komnar í ríkisins eign. Tvær voru keyptar 1935. Það lætur nærri, að verksmiðjurnar séu búnar að lækka á þessum tíma um 900 þús. kr. til eina milljón. Ég bið hann sem bankaráðsmann að athuga, hvort önnur fyrirtæki, sem skipta við Landsbankann, hafi skrifað meir niður sinn stofnkostnað á þessu tímabili heldur en ríkisverksmiðjurnar. Og svo bið ég hann um leið að hafa til athugunar, að bara nú 2½ síðustu árin, skulum við segja, er búið að leggja til nauðsynlegra endurbóta, en þó að miklu leyti nýtt og til bóta við verksmiðjurnar, eitthvað milli 500 og 700 þús. kr., að ég ætla. Í því er þróin, sem hann var ekki ákaflega hrifin af, 200 þús. kr. En sennilega er það um 700–800 þús., sem búið er að leggja til þessa. En þrátt fyrir þessa viðauka og endurbætur er stofnlán verksmiðjunnar komið niður um 900 þús. kr. Hitt kann að vera alls ekki fjarri, að stofnkostnaður verksmiðjanna sé óeðlilega mikill. Bygging bæði verksmiðjunnar 1930 og þeirrar nýju varð ákaflega dýr. Ég ætla, að önnur kostaði yfir eina millj. og hin eitthvað yfir 1600 þús. kr., þannig að samtals urðu þær um 2,8 millj. Það er miklu meira en hægt er að byggja fyrir nú. En það er ekki hægt að kenna glæfralegum rekstri um það. Það er að kenna þeim nefndum og mönnum og ríkisstj., sem með þessi mál fara. Og ég ætla, að hv. þm. S.-Þ. hafi verið eitthvað nákominn ríkisstj þegar verksmiðjan frá 1930 var byggð og sennilega haft einhver afskipti þar af.

Eitt var það, sem ég er hræddur um, að höfuðföður síldarverksmiðjanna, sem hann kallaði Magnús Kristjánsson, hefði þótt einkennilegt í munni þessa hv. þm. fyrir 21 ári, og þótt skemmra sé leitað. Hann lagði sérstaka áherzlu á það, að bændur í Noregi og Svíþjóð og jafnvel Danmörku væru líka að kvarta undan þeirri gífurlegu samkeppni, sem háð er við bændastéttina af þeim, sem stunda fisk- og síldveiðar. Það er eins og mig minni, að ég hafi heyrt, um það bil sem farið var að reisa síldarverksmiðjurnar — ekki úr hans flokki — að með þessu væri verið að gera bændum landsins mestu bölvun, draga fólkið frá heyskapnum í síldina o. s. frv. En ég átti ekki von á, að þessi hv. þm. tæki undir slíkar raddir. Hann sagði t. d., að bændur gætu ekki borgað kaup, þegar maður fengi á síldveiðum á línuveiðara 1600 kr. á 80 dögum. (JJ: Á þorskveiðum í Faxaflóa ). Ég held, að enginn línuveiðari hafi verið á þorskveiðum á Faxaflóa seinustu árin, — kannske einn síðastl. vetur. (JJ: Ég var ekki að tala um allra síðustu ár). En það er hugsanlegt, — ég þori ekki að segja um það, hvort kaup á afla og premía hafi í einhverju tilfelli komizt upp í 1600 kr. á 80 dögum. En það veit hv. þm. eins vel og ég, að það er þá undantekning, en ekki það almenna. En hitt finnst mér, að hv. þm. ætti frekar að athuga, hvernig landbúnaðinum væri komið, ef ekki væru síldveiðar og fiskveiðar hér við land. Eða heldur hann í raun og veru, að afkoma landbúnaðarins væri þá betur tryggð? Dettur honum það í hug, að betra væri fyrir landbúnaðinn, að síldveiðarnar væru sem minnstar eða engar, því að þá losnaði landbúnaðurinn við samkeppni við verkafólkið um þennan atvinnuveg? Veit þessi hv. þm. það ekki, að 2/3 ef ekki 3/4 af afkomu sveitabændanna byggist einmitt á sölumöguleikum í kaupstöðum og kauptúnum á því að selja afurðir til þeirra manna, sem atvinnu hafa af fiskveiðum yfirleitt? Og heldur hann, að það sé því greiðari og betri markaður fyrir afurðir bænda, sem atvinnureksturinn við sjóinn er minni og lægri tekjur þeirra manna, sem þann atvinnurekstur stunda? Ég veit, að hv. þm. er það fyllilega ljóst. að tryggasta undirstaðan fyrir landbúnaðinn er sæmileg afkoma þeirra, sem í kaupstöðunum búa. Ég verð að segja, að mér finnst það alleinkennilegt af samvinnumanni, ef hann telur, að þjóðfélagið eigi að byggjast á samkeppni milli þeirra, sem búa í sveitum og kaupstöðum. Ég álít, að þar riði hvað mest á samvinnu og gagnkvæmum stuðningi. Og ég hefi verið svo barnalegur að trúa því, að samvinnan milli Framsfl. og Alþfl. byggist einmitt á þeim skilningi, að nauðsynleg væri samvinna milli þeirra meginstétta þjóðfélagsins, bændanna, sem fylla Framsfl., annarsvegar og sjómanna og verkafólks, sem fylla Alþfl., hinsvegar. Ég hefi meira að segja verið svo barnalegur að trúa því, að þessi hv. þm. væri mér sammála um þetta, en hann virðist allt annarar skoðunar, og sú skoðun er áreiðanlega breytt frá því fyrir 21 ári, svo að ég víki aftur að því merkilega ári 1916.

Vegna þess að hv. þm. hefir margsinnis verið að ræða við mig á þann hátt eins og ég ætti síldarverksmiðjuna á Seyðisfirði, eða a. m. k. stjórnaði þar einn og öllu, þá get ég ekki stillt mig um að minna hann á, að það er til maður, sem heitir Karl Finnbogason og stjórnar þessu ágæta fyrirtæki. Ég er að vísu meðeigandi — á þarna nokkur hundruð króna hlut en á engan þátt í stjórn þessa fyrirtækis, og það er áreiðanlegt, að við jafnaðarmenn eigum þar ekki meira en 2 menn af 5, svo að það er „hægra brosið“, sem þar er ráðandi, því að sameiginlega hafa framsóknarmenn og sjálfstæðismenn meiri hl. Ég verð því að biðja hv. þm. að hafa mig afsakaðan, þó að einhver mistök kunni að hafa orðið á rekstri verksmiðjunnar nú í sumar, sem ekki væri óeðlilegt, þar sem þetta er fyrsta árið, sem hún er rekin. En mér finnst það nokkuð langt gengið af hv. þm. að heimta það af mér, úr því að ég á að heita atvmrh. og vera búsettur hér í Reykjavík, að ég geti litið eftir vinnubrögðum og smurningu véla á Seyðisfirði. Það er svo að heyra á hv. þm., að ég sé allt í öllu á Seyðisfirði, ekki aðeins ákveði allt, heldur og geri allt. En þetta er hinn mesti misskilningur. Ég gæti alveg á sama hátt, ef ég kærði mig um að taka upp samskonar orðaleik, kennt hv. þm. S.-Þ. um margt, sem aflaga kann að fara norður í Þingeyjarsýslu. Ég gæti kennt honum um það, að kaupfélagið hefði lánað út og ekki fengið borgað hjá skuldunautum sínum, og að bændur hefðu þurft að fá kreppuhjálp. Ég gæti minnt hv. þm. á það, sem nú er á allra vitorði, að mikil samkeppni er um það milli sýslumannsins í Þingeyjarsýslu, Júlíusar Havsteins, og hans sjálfs um það, hverjir hafi átt mestan þátt í því að koma upp hinni nýju verksmiðju á Húsavík, — og skal ég ekki skera úr því máli, en ég vil alveg fyrirfram afsaka hv. þm. S.-Þ., þó að einhver mistök kunni að vera á rekstri þessarar verksmiðju á næsta ári. það er ekki von til þess, að hann geti neitt við það ráðið, þó að einhver mistök verði þar norður frá, vélarnar stoppi einn dag eða svo; og væri það ósanngirni að kenna honum um það, alveg á sama hátt og ósanngjarnt er að kenna mér um þau mistök, sem orðið hafa á rekstri verksmiðjunnar austur frá síðastl. sumar.

Hv. þm. sagði, að sú spurning, sem upp hlyti að koma í sambandi við síldarverksmiðjurnar, væri fyrst og fremst sú, hvort þær ættu að borga hærra en síldin gefur. Ég tel óeðlilegt og ómögulegt, að verksmiðjurnar borgi hærra en það, sem síldin gefur yfirleitt, ef það er gert ár eftir ár. Og það hlyti að leiða til þess, að hætta yrði að reka verksmiðjurnar á sama hátt og áður. Það segir sig sjálft. En það er ómögulegt að segja nákvæmlega um það fyrirfram, hvaða verð sé óhætt að greiða; verðsveiflur geta orðið svo stórkostlegar á stuttum tíma, og mismunandi er, hvað mikla síld verksmiðjurnar fá til vinnslu. Ég sem ráðh. hefi haft yfirstjórn þessara mála í 3 ár, og er mér því einkar vel um þau kunnugt. Árið 1935 töpuðu verksmiðjurnar, ekki af því, að verðið væri svo ógætilega áætlað, — ég held, að það hafi verið 4–5 kr., — heldur vegna þess, að aflamagn það, sem þær fengu til vinnslu, var svo lítið, að sama og ekkert var að gera nema part af síldveiðitímanum. 1936 var verðið aftur á móti stórum mun hærra, en samt mun hafa orðið í kringum 200 þús. kr. rekstrarafgangur, enda hækkaði verðið frá því áætlunarverðið var ákveðið og þangað til sala fór fram. Frá síðastl. sumri eru enn þá ekki til tölur um niðurstöðuna. En ég vil minna á það, að síðan kaupverðið var ákveðið, hefir verðlag lýsis farið lækkandi, og mun lækkunin nema 1/3 af því verði, sem sett var í vetur. Hvort á þessu verði breyting og verðlagið hækki, þori ég ekki að segja, en það segir sig sjálft, að ómögulegt er að hnitmiða slíkar áætlanir, svo að ekki geti skeikað. Ég get t. d. bent á vöru, sem ég veit, að hv. þm. er vel kunnugt um, þ. e. a. s. gærur, sem sýna, að ekki skeikar síður um áætlunarverð á landbúnaðarafurðum, og er þar þó um skemmri tíma að ræða frá því varan er komin á markaðinn og þangað til hún er seld. — En ég er hv. þm. alveg sammála um það, að svona eigi að reka verksmiðjurnar, þó að náttúrlega geti þar orðið mistök á, eins og hjá öllum mannlegum verum. — En eftir að hv. þm. hafði fengið þessa niðurstöðu, þá skildist mér hann hafa slegið því föstu, að ég gæti ekki ætlað mér þetta, því að þá væri ég kominn inn á stefnu samvinnumanna. Ég skal fallast á það, því að ég er samvinnumaður. En þar með get ég ekki fallizt á það, að á hverju ári borgi ríkisverksmiðjurnar aðeins 85% af áætlunarverði, vegna þess að mér er það ljóst, að þegar aðrar verksmiðjur borga út l00%, þá spillir það fyrir aðstöðu ríkisverksmiðjanna til þess að fá síld til vinnslu. Sjómenn vita það, að ef vangoldið er í ár, þá kemur það fram í hærra verði næsta ár, en það verður erfitt að fá samninga við þá upp á það, að þeir eigi eftir að fá sína uppbót, án þess að rita. hver hún verður.

Þá sagði hv. þm. það, að hvað sem Alþ. samþ. í þessum efnum, þá væri það ráðið, hvað Landsbankinn gerði. Hann sagði, að það lægju þar fyrir till. um þetta efni og að þær mundu verða samþ. Að því er mér skildist, þá er efni þessara till. það, að bankinn muni ekki lána verksmiðjunum til vinnslu síldar, nema eitthvað visst út á síldina, og skildist mér hann meina, að aldrei kæmi til mála, hvort sem það væru ríkisverksmiðjurnar eða einkaverksmiðjur, sem í hlut ættu, að þær fengju meira en 85% út á síldina. Nú vil ég skjóta því til hv. þm., að þá verði Landsbankinn að búa til eitthvert áætlunarverð á síldina og reikna prósenturnar af því. En ég vil spyrja hv. þm. að því sem bankaráðsmann, hvernig hann hugsi sér að framkvæma þetta. Það væri afarþýðingarmikið fyrir Alþ. að vita það, vegna þess, að ef þetta er föst regla, sem bankinn ætlar að taka upp, þá er nauðsynlegt að vita, hvernig á að beita henni, því að annars getur það haft sérstakar afleiðingar, sem þingið getur ekki komizt hjá að mæta. Við skulum þarna t. d. taka h. f. Kveldúlf, sem á tvær verksmiðjur, og við skulum hugsa okkur, að ákveðið verð fyrir verksmiðjurnar sé 6 kr. á málið, og að bankinn telji, að til síldveiða sé útilokað að lána meira en 5 kr. Nú verða verksmiðjur ríkisins og verksmiðjur Kveldúlfs nátturlega að kaupa sér kol, salt og poka og ýmislegt fleira fyrir veiðitímann, til þess að geta tekið á móti síldinni. Hugsar nú hv. þm. sér þetta þannig, að bankinn neiti að lána þetta þangað til síldin er til, eða láni fyrirfram upp á það, að svo komi síldin á eftir? Nú skulum við segja, að síldveiðarnar gangi treglega og að litið berist að af síldinni, en verksmiðjurnar þurfa náttúrlega að borga sinu fólki í landi og borga þeim út, sem síldina selja, og ef lítið aflast, þá komast fæst skip af nema með því að fá fullt verð fyrir síldina. Og hvað á að gera, ef þessar 5 kr. á mál hrökkva ekki, og ef verksmiðjurnar skyldu þurfa peninga í vinnulaun og fyrir þeim víxlum, sem orðið hefir að taka til þess að borga kol og salt?Við skulum nú hugsa okkur, að það sýni sig t. d. hjá h.f. Kveldúlfi, að einhver af togurunum hans geti ekki komizt af með þetta og geti ekki borgað kol, vistir og kaup til manna með því að fá ekki nema á kr. á hvert mál. Hvað á þá að gera við þennan togara? Er það meiningin, að hann eigi að stoppa? Og ef ríkisverksmiðjurnar t. d. í júní — júlí skulda 200–300 þús. kr. fyrir kolum og salti og 100–200 þús. kr. í vinnulaun, en eru ekki búnar að fá nema 50 þús. mál síldar, hvað á þá að gera? Eiga verksmiðjurnar að stoppa? „Allt verður að bera sig á hverjum tíma, segir hv. þm., og er því sennilegt, að verksmiðjurnar yrðu undir þessum kringumstæðum að hætta.

Ég verð að segja það í fullri alvöru við hv. þm., að ef það er meiningin, að Landsbankinn ætli að samþ. einhverja till. um svipaða reglu og þessa og að henni verði beitt, þá sé nauðsynlegt, að þinginu sé gerð gleggri grein fyrir henni heldur en hv. þm. hefir gert, svo að hægt sé að athuga, hverjar afleiðingar þetta getur haft. — Nú segi ég það frá mínu brjósti, því að ég þykist þekkja það mikið til starfsemi Landsbankans, að ég er viss um, að enda þótt hann samþ. svona till., þá yrði henni aldrei beitt neitt svipað því, sem fólst í orðum hv. þm. Ég er viss um það, að ef bankinn afræður að hjálpa einhverju fyrirtæki til þess að gera út á síldveiðar, þá láti hann það reyna út alla vertíðina. Alveg það sama mundi verða um síldarverksmiðjurnar. Ef Landsbankinn leggur þeim fé til þess að kaupa síld í sumar, þá sér hann um það, að þær geti haldið út allan tímann. Annað væri líka hið mesta óvit, eins og ég veit, að hv. þm. líka sér.

Þá skal ég víkja að því, sem hv. þm. margsinnis kom að í sinni ræðu, sem sé, að nú væri svo komið hag útgerðarinnar, að fyrirsjáanlegt væri, að hún væri að þrotum komin, og að það væri vegna þeirrar dæmalausu heimsku og skammsýni útgerðarmanna og sjómanna, að þeir pössuðu ekki upp á það að láta hvert einstakt ár bera sig. Þeir vildu græða þessi lifandis ósköp og verkamenn vildu fá einhver kynstur í kaup; og svo væri slegizt, því að allir vildu græða, en enginn passa upp á það, að neinn hlutur bæri sig. Togararnir myndu tapa 110 þús. kr. hver á næsta ári, eftir áætlun einhvers aðalmanns togaraútgerðarinnar, og vélbátarnir 10 þús. kr. Þeir hafa tapað stórkostlega síðastl. ár, eða eftir útreikningi þessa sama manns um 50 þús. kr. hver togari. — Út af þessum hugleiðingum hv. þm. vil ég spyrja hann, hvort hann áliti, að togararnir hefðu tapað minna, ef síldarverðið hefði verið lægra. Heldur hann, að útkoman hefði orðið betri fyrir togara, sem t. d. hefði veitt 20 þús. mál síldar, ef hann hefði fengið 7 kr. fyrir málið í staðinn fyrir 8 kr.? Nei, ég tel engan vafa á því, að hið háa síldarverð hafi bætt fyrir útgerðarmönnum, enda man ég ekki betur en að á þessum lið hafi orðið á skip 8–9 þús. kr. hagnaður á síðastl. sumri. En ef 7 kr. hefðu verið borgaðar fyrir málið, sem mér skildist á hv. þm., að sé það hæsta, sem til greina geti komið, þá hefði í staðinn fyrir 8–9 þús. kr. hagnað orðið 6–7 þús. kr. tap á hvert skip síðastl. vertíð. — Hinsvegar verð ég að draga það í efa. að ekki hafi urðið nema sem svarar 8–9 þús. kr. hagnaður á togara síðastl. sumar, en það gefst nú tækifæri til þess að ræða það síðar.

Hv. þm. vildi sem sagt meina, að hið ömurlega ástand sjávarútvegsins væri sprottið af hlífðarlausum kaupkröfum verkamanna og sjómanna annarsvegar og svo lönguninni til að græða og flotta sig og eyða um efni fram hjá útgerðarmönnum hinsvegar. Ég veit ekki, hvort hann hefir athugað það, að í þessari áætlun fyrir 1938, sem hann sjálfur var að vísa til, er gert ráð fyrir því — að mig minnir — að kaupgreiðsla sjómanna nemi eitthvað í kringum 160 þús. kr. alls á árinu, þar með talið kaup allra yfirmanna og premíur. En í þessari sömu áætlun er hallinn falinn muni verða 110 þús. kr. Þetta segir, að ef allt kaupgjaldið er fellt niður, þá er kannske einhver möguleiki fyrir því, að hagnaður verði á þessum rekstri, eða 40–50 þús. kr. Í þessu er þó reiknað með 26 þús. kr. kauphækkun frá því, sem var síðastl. ár. — Ég held, að hv. þm. hljóti því að sjá, að hér er a. m. k. fleiru til að dreifa en þessum lið einum saman. Hv. þm. hlýtur að vera það ljóst, að það eru sérstakar ástæður, sem valda því, hvernig hag sjávarútvegsins er nú komið; og ætti hann að hafa einhvern pata af því sem íslenzkur borgari, þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, að fleira hafi verkað á afkomumöguleika sjávarútvegsins en kaupgreiðsla fólksins. Það er eins og mig minni, að í þeirri nefnd hafi oft verið rætt um slæma sölumöguleika fisksins, þar sem Spánn er nú lokaður, og Ítalíu-markaðurinn mjög takmarkaður. Ég er ekki í vafa um, að hv. þm. veit það, ef hann bara vill viðurkenna það, að meginástæðan til þessa eru hin miklu markaðstöp, sem við höfum orðið fyrir, samfara óvenju miklum aflabresti. Hv. þm. veit það líka vel, að meginhluti af störfum seinustu þinga hefir beinzt í þá átt að gera ýmsar ráðstafanir til þess að mæta þeim hörmungum, sem útvegurinn hefir orðið fyrir. Heldur þessi hv. þm. ef til vill, að landbúnaðurinn hafi alltaf borið sig? Heldur hann, að landbúnaðurinn hafi borið sig þegar bændurnir fengu 8 kr. fyrir dilkinn og 11–12 aura fyrir mjólkurlítrann? Nei, hann hefir áreiðanlega ekki borið sig. Það er hinsvegar svo, að það má telja, að það sé komið á sæmilegan grundvöll. En að láta sér detta það í hug, að landbúnaðurinn hafi borið sig, það er ekkert nema vitleysa. Hvers vegna heldur hv. þm., að safnazt hafi skuldir í kaupfélögin? Það er vitaskuld af því, að þau hafa ekki borið sig. Til þess að hægt sé að tryggja, að einhver hlutur beri sig, þá þarf náttúrlega að taka tillit til meira en eins árs, því að það geta komið fyrir heil ár, sem sölumöguleikar okkar bregðast. svo að við náum ekki einu sinni að láta árið bera sig. Og það er eins og mig minni, að það hafi komið fyrir jafnvel þegar þessi hv. þm. var í stjórn, að það hafi þurft að taka stórlán erlendis til ýmissa framkvæmda, sem svo síðar verður að greiða vexti af. Ég er sízt að lasta þetta, en það sýnir bara, að það hafði ekki safnazt upp fé til þess að gera þetta.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, enda munu ekki hafa verið fleiri atriði, sem ég þurfti að svara í ræðu hv. þm.