14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 862 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Ég ætla fyrst að byrja á því, að mótmæla því, sem hv. þm. Barð., sá er síðast falaði, hélt fram, að við værum með málþóf hér í sambandi við þetta mál. Það kemur satt að segja úr hörðustu átt að kalla það málþóf, að eitt aðalmál þingsins er rætt 3–4 klst. á kvöldfundi, þegar það kemur fyrir d. svo að segja í þinglok. Ég veit ekki, til hvers er verið að kjósa menn til þings, ef ekki til að ræða alvarlegustu mál þingsins. Náttúrlega er það óþarft fyrir þá herra, sem búnir eru að semja fyrirfram um málin, og þægilegast að málin séu afgr. umræðulaust og að ekki sé minnzt á þá samninga, sem eiga sér stað í þessu máli. Þegar stjórnarflokkarnir deila eins skarplega og átti sér stað í hv. Ed. um daginn, er þetta mál var á dagskrá, þar sem hv. þm. S.-Þ., form. Framsfl., tók höndum saman við hv. þm. Vestm. móti hæstv. atvmrh., þá er ekki furða, þó nokkrar öldur rísi einnig í þessari hv. d. um þetta mál. Nei, meiningin er, að þessum háu herrum er illa við almennar umr. í þinginu um þetta mál.

En svo ég víki nokkuð að ræðu hv. þm., þá þótti mér hann tala nokkuð djarft um það, að of hátt verð hafi verið greitt í sumar til útgerðarmanna og sjómanna fyrir síldina. Hann sagði, að hag almennings væri svo bezt borgið, að fyrst og fremst væri hugsað um hag verksmiðjanna. Hann tæpti meira að segja á því, að verðið á síldarmáli hefði verið 1 kr. of hátt. En hvað hefði það þýtt, ef stefnu þessa hv. þm. hefði verið fylgt í vor og síldarverðið ákveðið 7 kr. í stað 8 kr.? Það hefði hvorki meira né minna en þýtt ½ millj. kr. lægri útborgun fyrir þá síld, er ríkisverksmiðjurnar keyptu í sumar. Og á þeirri síld, sem lögð var inn hjá verksmiðjum einstakra manna og félaga, Kveldúlfsverksmiðjunum, verksmiðjum Alliance, Steindórs Hjaltalíns, Krossanesverksmiðjunni o. fl., hefðu útgerðarmenn, miðað við 1 kr. lækkun, tapað hvorki meira né minna en um 1 millj. kr. Hefði stefna þessa hv. þm. og flokks hans ráðið, mundu útgerðarmenn og sjómenn hafa tapað 1½ millj. kr. af réttmætu fé sinu, nema þeir líti svo á, að Kveldúlfur og almenningur sé það sama. Því þrátt fyrir það, þó borgaðar væru 8 kr. fyrir málið, þá hefir rekstur verksmiðjanna borið sig vel, eftir þeirri skýrslu, sem hv. þm. Ísaf., einn úr stjórn verksmiðjanna, gaf hér áðan.

Þá minntist hv. þm. Barð. á bankavaldið, og talaði um drauga í því sambandi. Ég get vel skilið það, að framsóknarmönnum finnist þeir sjá afturgöngur, þegar þeir heyra kritíkina á Landsbankanum nú, því hún minnir þá óþægilega mikið á þeirra eigin kritík á Íslandsbanka á sínum tíma, og Kveldúlfur verði nú í hugskotum þeirra óþægileg líking af Copland hér á árunum, þegar form. Framsfl. var að skrifa um töp Íslandsbanka á honum. Það er því óþarfi fyrir hv. þm. Barð. að vera að tala um draug í sambandi við það bankavald, sem almenningur á nú í höggi við; til þess er það of lífræn staðreynd. Og ég held, að nær væri fyrir Framsfl. í stað þess að álasa kommúnistum og gera grín að þeim fyrir kritík þeirra á Landsbankanum. að athuga dálítið afstöðu Landsbankans til sjálfrar ríkisstj., athuga það, hvort Landsbankinn setur ekki sjálfa ríkisstj. í nokkuð óþægilega aðstöðu, þrátt fyrir það. þó stjórnin eigi að hafa full ráð yfir bankanum, því bankinn er eign ríkisins og starfar á ábyrgð þess, þó hann liti fremur út fyrir að vera prívateign bankastjóranna. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði um töp bankanna á útlánum til einstakra fyrirtækja, þá var það rétt. Bankarnir hafa á tveim síðustu áratugum tapað þannig 33 millj. kr. á ógætilegri útlánastarfsemi, og þessi töp skella á þjóðinni allri að lokum. Það er þessi stefna bankanna, sem við erum að ráðast á, og við viljum koma í veg fyrir, að hún verði ráðandi í framtíðinni. Og hv. þm. væri nær að skjóta geiri sinum í þessa átt, ef hann ætlar að hreinsa til, heldur en að vera gera ríkisverksmiðjunum erfitt með lánsfé til þess að hjálpa smáútgerðarmönnum og sjómönnum.

Það er ekkert undarlegt, þó umr. verði um þetta mál, þegar beitt er þeim aðferðum, sem flutningsmenn frv. beita og við hv. þm. Ísaf. höfum hér lýst, til þess að hjálpa Kveldúlfi og öðrum stórbröskurum. Hv. þm. virðist ekki skilja það samband. sem er á milli Kveldúlfs og þessa frv. Kveldúlfur skuldar bönkunum um 6 millj. kr. Hann er nýbúinn að byggja stóra verksmiðju. Kveldúlfur hagnast á lágu síldarverði. Og ef Kveldúlfur hagnast, þá geta bankarnir kannske haft eitthvað upp í sínar skuldir.

Það á að nota ríkisverksmiðjurnar til að halda niðri síldarverðinu, til þess að Kveldúlfur geti grætt á kostnað sjómannanna og borgað af skuldum sínum hjá bankanum. Þannig á að velta stórtöpum Kveldúlfs yfir á herðar alþýðunnar; úr því ekki hefir tekizt að velta til fulls töpum á saltfisksútgerðinni yfir á alþýðuna, þá á að reyna þessa leið. Ég held hv. þm. Barð. þurfi ekki að kvarta yfir því, að hann skilji þetta ekki. Annað mál er það, hvað hann vill láta uppi.

Hvað 1. gr. frv. snertir — annars ætlaði ég ekki að fara út í einstök atriði frv., en geri það, úr því hv. þm. hafa farið inn á þá braut —, þá er það lagt til, að stjórn verksmiðjanna skipi 5 menn, kosnir af þinginu. Það hefir lengst af verið svo, að verkamenn og sjómenn hafa haft einhverja hlutdeild í skipun stjórnarinnar. Í byrjun, að mig minnir, valdi bæjarstjórn Siglufjarðar mann í stjórnina, síðan minnir mig, að Alþýðusambandið ætti hlutdeild í skipun stjórnarinnar. Í frv. er stefnt að því að draga valdið sem mest í hendur þingsins og reyna að rýra sem mest vald veiðendanna. Í hv. Ed. kom fram brtt. við þessa gr. um að Alþýðusambandið og útgerðarmenn veldu sinn manninn hvort í stjórnina, en Alþingi þrjá. Þetta fyrirkomulag álit ég miklu heppilegra, þar sem þessir aðiljar hafa þarna mjög mikilla hagsmuna að gæta. Ég held, að hægt sé að draga þessar stofnanir um of inn í stjórnmáladeilurnar, en að því er hreint og beint stefnt með 1 gr. frv. eins og hún er. Ég sé líka, að gert er ráð fyrir því, að endurskoðendur séu þrír, valdir af stærstu þingflokkunum. Það er farið að tíðkast nú í seinni tíð, að stærstu þingflokkarnir tilnefni menn til hins og þessa. Það er þannig farið að skapa sérstakt vald fyrir þingflokkana, sem annars er ekki venjulegt í l. Það vita allir, að eins og nú er, er óeðlilega mikið vald í höndum miðstjórna hinna pólitísku flokka. Þetta stefnir að því að efla það vald og draga úr valdi alþýðunnar í landinu. Ég held þess vegna. að það eigi ekki að stefna í þá átt að auka þetta vald og að öllu leyti draga úr þeim áhrifum; sem fólkið sjálft getur haft í þessum efnum, hvort heldur sem það er með beinum kosningum eða samtökum. — Ég er þess vegna á móti 4. gr. hvað skipun stjórnarinnar snertir.

Þá er hér ein gr. í frv., sem er sérstaklega eftirtektarverð í sambandi við það, sem um hefir verið að ræða, og það er 7. gr., sem hljóðar svo: „Ríkissjóður ber eigi ábyrgð á þeim skuldum, sem síldarverksmiðjur ríkisins stofna til eftir 31. des. 1937, nema heimild sé veitt til þess af Alþ.“ Ég man ekki eftir að hafa heyrt talað um svona ákvæði í sambandi við ríkisstofnanir áður, og þó er hér um að ræða stofnun, sem er sérstaklega fjárfrek, þar sem hún þarf að borga mjög mikið út að sumrinu, en fær ekki greitt fyrir sínar afurðir fyrr en smám saman með haustinu eða vetrinum.

Hver er nú tilgangurinn með því að setja þetta ákvæði inn einmitt núna? Ég sé ekki betur en að þessi gr. sé alveg stíluð upp á það að gera verksmiðjurnar gersamlega háðar Landsbankanum. Með þessari gr. er verið að neita þeim um ábyrgð ríkissjóðs og kippa undan þeim aðallánstraustinu, sem þær fram að þessu hafa haft. Meiningin hlýtur að vera sú, að næst þegar verksmiðjustj. kemur til Landsbankans til þess að biðja um lán til að borga út vinnulaun og annað slíkt, þá standi það svart á hvítu, að ríkissjóður beri enga ábyrgð á skuld- um, sem verksmiðjurnar stofna til. Það er auðséð, að þetta er sett með það sama fyrir augum eins og ákvæðið um, að ekki mætti borga út nema 85% af áætlunarverði síldarinnar. M. ö. o., meiningin er sú, að gera verksmstj. ómögulegt að vinna í hagsmunaskyni við smáútgerðarmenn og sjómenn og gera hana að verkfæri í höndum Landsbankans, sem getur fyrirskipað henni það, sem honum sýnist, og þar með komið ár Kveldúlfs nægilega þægilega fyrir borð. Og þetta skeður eftir að sú stofnun, sem hér er verið að skapa svona mikið vald hjá, Landsbankinn, hefir frá því fyrir 10 árum færzt úr því að vera með takmarkaðri ábyrgð ríkisins yfir í það, að ríkið varð að taka algerða ábyrgð á henni, og eftir að hún sjálf hefir tapað um 18 mill.: kr. af því fé, sem ríkið hefir trúað henni fyrir. Eftir þetta allt á að gera síldarverksmiðjur ríkisins sérstaklega háðar þessu fyrirtæki, sem er einsdæmi í allri sögu seðlabanka í Evrópu, því að slíkt tap, sem Landsbankinn hefir orðið fyrir, þekkist yfirleitt ekki hér í álfu.

Þá kem ég að þeirri einu gr., sem við hv. þm. Ísaf. erum ósammála um, og það er 14. gr., þar sem svo er ákveðið, að verksmiðjurnar skuli greiða ½% af brúttóandvirði seldra afurða til bæjar- eða sveitarsjóðs, þar sem þær eru starfræktar. Ég minnist á þetta sérstaklega vegna þess, að blað Alþfl. gerði það að nokkru umtalsefni, að hv. 1. landsk. í Ed. var með því, að þetta ákvæði var sett inn, og meira að segja að það mætti vera 1%. Við kommúnistar erum með þessu ákvæði vegna þess, að við erum sannfærðir um, að verksmiðjurnar geta borið þetta, enda viljum við líka gjarnan stuðla að því, að þetta gjald yrði lagt á aðrar verksmiðjur í landinu, ef um það væri að ræða. Þetta snertir sjómenn hverfandi lítið, í mesta lagi 3–5 kr., en getur munað Siglufjarðarbæ svo skiptir tugum þúsunda. Og ég veit, að í þessu máli er afstaða okkar kommúnista í samræmi við afstöðu allrar alþýðu á Siglufirði, enda samþ. verkamannafélagið Þróttur einróma á fundi sínum í gær að skora á Alþ. að gera þetta ákvæði að lögum, um leið og það mótmælti harðlega þeirri árás á verkalýðinn, sem felst í þessu frv. eins og það liggur fyrir.

Ég vil svo út frá því, sem hv. þm. Barð. var að tala um málþóf, og með tilliti til auðu stólanna hér í d., aðeins lýsa mínu áliti á því, sem hér á A1þ. er að gerast. Það gekk svo lengi framan af þessu þingi, að fundir stóðu aðeins yfir í 7–15 mín., svo að þm. ofþreyttust ekki á þingsetu þá. Upp á síðkastið hafa ekki heldur verið það miklar umr., að þær hafi átt að þreyta þá mjög. Ég býst sem sagt við, að þetta sé eitthvert umræðuminnsta og lélegasta þing, sem háð hefir verið. En nú í þessi fáu skipti, sem kvöldfundir eru og aðalfrv., sem fyrir þinginu liggja, eru til umr., fær forseti að sitja hér næstum einn. Mestur hluti þm. er hér einhversstaðar í hliðarherbergjum að leika sér að krossgátum. Á meðan eru svo að koma hótanir frá stofnun hinumegin við götuna um það, að ef þingið geri ekki þetta eða hitt, þá skuli þessi stofnun framkvæma það í staðinn. Undir þessu rótast hv. þm. ekki. Þeir sofa á meðan peningavaldið ógnar löggjafarvaldinu. Ég tala nú ekki um, að þeir sofa á meðan fasistarnir eru að flytja inn vopn og annað slíkt. Og þessir sömu menn, sem bezt standa sig í því að vera fjarverandi, segjast vera vökumenn þjóðarinnar, og sérstaklega vökumenn lýðræðisins. Ég er hræddur um, að hið íslenzka lýðræði mundi sofna vært út af, ef ekki væru einhverjir aðrir á verði heldur en þeir.