21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég veit ekki, hvort það hefir nokkra þýðingu að rökræða þetta frv. úr því sem komið er, en ég ætla samt að gera það, í þeirri trú, að það geti haft einhverja þýðingu. Því hefir verið haldið fram af Alþýðuflokksmönnum, að á bak við þetta frv. sé leynisamningur milli Framsfl. og Sjálfstfl., en ég á erfitt með að trúa því, að svo sé. Að vísu lýsti hv. þm. G.-K. því yfir í eldhúsumr., að hann og formaður Framsfl., hv. þm. S.-Þ., hefðu komið sér saman um ákveðið atriði í þessu máli, sem sé að bola Finni Jónssyni frá starfanum sem formaður verksmiðjustj. En þó að formenn flokkanna hafi komið sér saman um eitthvað, þá þarf það ekki að þýða, að flokkarnir sem heild hafi skrifað undir samkomulagið. Það hefir komið fyrir áður á þessu þingi, að form. Framsfl. hefir verið innilegal sammála við íhaldsöflin um ýmislegt, er gera skyldi, og ekki fengið því framgengt. Í þeirri trú, að enn þýði að rökræða við hv. þm. Framsfl. hér í hv. d. ætla ég að taka til meðferðar tvö atriði.

Raunverulegt innihald yfirlýsingar þeirrar, sem hv. þm. G.-K. gaf á eldhúsdaginn, er það, að áhrif verkamanna og sjómanna á stjórn verksmiðjanna skuli minnka. Ég vil benda hv. þm. Framsfl. á, hvernig viðhorfið er fyrir síldarverksmiðjurnar og hvernig útlitið er fyrir stjórn þeirra, ef þeir félagarnir, hv. þm. G.-K. og hv. þm. S-Þ., fá vilja sínum framgengt. Það eru framsóknarmenn, sem mest hafa talað um; að friður þurfi að ríkja í verksmiðjunum og um stjórn þeirra. En hvernig hugsa þessir sömu menn, að gangi að stjórna verksmiðjunum í ófriði við verkalýðinn í landinn? Það er nær óhugsandi, að hægt sé að stjórna þessum fyrirtækjum í andstöðu við verkamenn og sjómenn. Það eru varla nokkur önnur fyrirtæki ríkisrekin, sem eins eru háð vilja sjómanna og verkamanna og einmitt síldarverksmiðjurnar. Og engum fyrirtækjum á ríkið eins mikið undir fjárhagslega, atvinnulega, gjaldeyrislega. Við engin fyrirtæki önnur ríður eins mikið á því, að gott samkomulag sé milli atvinnurekenda og verkalýðsins. Og það veit hver maður, að með því ofurkappi, sem Landsbankinn og bankaráðsmennirnir hér á Alþ. sækja þetta mál, er stofnað til misklíðar við verkalýðinn. Það hafa áður komið fram hótanir, sem gengu í svipaða átt, frá hv. þm. S.-Þ. Hann hefir hótað því að stöðva rekstur síldarverksmiðjanna í heilt ár, ef verkamenn létu ekki að vilja verksmiðjustj. Það er vitanlegt, að form. Sjálfstfl. og aðrir íhaldsmenn voru fullkomlega ásáttir um það, að síldarverksmiðjurnar væru stöðvaðar í heilt ár. Það er vitanlegt, ef á að sækja þetta mál af ofurkappi af báðum formönnum flokkanna, er verið að stofna velferð verksmiðjanna í tvísýnu. Ég skal vekja eftirtekt á því, að verkalýðurinn á Siglufirði stendur saman í einu félagi, einu sterkasta verkalýðsfélagi landsins. Samtök sjómanna á síldveiðiflotanum hafa farið mjög batnandi upp á siðkastið. Ég álít það mjög óviturlegt að stofna til harðvitugrar deilu við þessa aðilja. Ég vil vekja eftirtekt á því, sem ég hefi áður bent á, að nú fer kreppa í hönd. Hv. þm. vilja ef til vill ekki trúa mér til þess, a. m. k. reyndi hv. þm. G.-K. að gera grín að þessari vísbendingu nú í þingbyrjun. En samvinnumennirnir trúa því ef til vill, ef þeim er bent á ummæli forseta Alþjóðasambands samvinnumanna, Tanner, og það, að ríkisstjórnirnar úti um alla Evrópu gera nú ráðstafanir sínar út frá því, að ný kreppa sé að byrja. Meira að segja er hér á Íslandi farið að taka tillit til þessarar staðreyndar. Ég þarf ekki annað en að rifja upp útlitið með verksmiðjurnar árin 1931 og 1932. Hvernig fór? Það risu upp harðvítugar deilur, og alvarlegir atburðir urðu í sambandi við þær. Og ég vil skjóta því að hv. þm. Framsfl., hvort þeim finnist það glæsileg tilhugsun að taka stjórn verksmiðjanna ásamt íhaldinu, verða ef til vill að lækka verðið niður í 3 kr. og standa jafnframt í harðvítugri kaupdeilu við verkalýðinn í landinu, og í harðvítugri andstöðu bæði við Kommfl. og Alþfl. Það er vitanlegt, að meginhluti útfluttra íslenzkra afurða eru nú síldarafurðir. Ég mundi í sporum framsóknarmanna athuga þetta atriði gaumgæfilega. Það er erfitt að stjórna á krepputímum í harðvítugri andstöðu við verkalýðshreyfinguna í landinu. Á slíkum tímum reyna stjórnarvöldin hvar sem er að komast að samkomulagi við verkalýðinn og flokka hans. Halda framsóknarþm., að íhaldið verði þeim tryggur bandamaður? Þeir hafa átt í höggi við íhaldið í síldarverksmiðjumálunum áður fyrr, ekki sízt í sambandi við ákvörðun síldarverðsins. Og vitanlegt er það, að þótt hv. þm. G.-K. berjist trútt fyrir hagsmunum Kveldúlfs og Alliance, þá hafa útgerðarmenn, sem engar síldarverksmiðjur eiga, þau ítök í Sjálfstfl., að hann getur orðið að taka tillit til þeirra. Það er ekki treystandi á hv. þm. G.-K. í þessu máli og það þarf ekki mikið til þess að fá sjómenn og útgerðarmenn upp á móti verksmiðjunum. Það gæti jafnvel skeð, að hv. þm. G.-K. kæmi til með að standa einn uppi í flokki sinum sem bandamaður Framsfl. í þessum málum. Það er hættulegt spor stigið með því að stofna til harðvítugra átaka milli ríkisvaldsins og verkalýðshreyfingarinnar, og stofna jafnframt í hættu samstarfi Framsfl. og Alþfl. Ég vona, að hv. þm. Framsfl. láti svo litið að íhuga þessi orð mín, og láti ekki binda sig til að fylgja þessu máli fram, hversu óviturlegt og óvarlegt sem þeim kann að þykja það sjálfum.

Hitt atriðið var viðvíkjandi 7. gr., og mun ég flytja brtt. um, að sú grein falli niður. Hún er á þá leið, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á þeim skuldum, sem síldarverksmiðjur ríkisins stofna til eftir 31. des. 1937, nema heimild sé veitt til þess af Alþ. Ég vil vekja eftirtekt á afleiðingum þeim, er samþykkt þessa ákvæðis hefði. Afleiðingin yrði sú, að verksmiðjurnar yrðu algerlega háðar Landsbankanum. Og ég vil spyrja hv. þm. í einlægni, hvort þm finnist, að stjórn Landsbankans á bankamálum og fjármálum þjóðarinnar hafi verið svo farsæl, að ráðlegt sé að leggja þýðingarmestu fyrirtæki ríkisins beint undir vald hans. Ég held að stjórn Landsbankans eigi nóg með að stjórna sínu eigin fyrirtæki og sjá um, að það sé ekki notað til að eyðileggja lánstraust Íslendinga erlendis, en að því hefir mjög stefnt nú á seinni tímum. Síðastl. ár keyptu síldarverksmiðjurnar um hálfa millj. mál síldar á 8 krónur málið. Þær hafa því borgað út 4 millj. króna til útgerðarmanna og sjómanna. Þegar verksmiðjurnar eru búnar að vinna úr þessu, eru þarna orðnar til útflutningsvörur fyrir 7½ millj. króna, en það er nálægt því að vera sjötti hlutinn af öllum útflutningi landsmanna á yfirstandandi ári. Hér er því um eitt af veigamestu málum þjóðarinnar að ræða hvað fjárhagslega afkomu snertir, og það nær ekki nokkurri átt að steypa þessu fyrirtæki út í slíka tvísýnu. sem hér er gert. Ég vil vekja eftirtekt á því, að vafasamt er, að ákvæði 7. gr. frv. standist fyrir nokkrum dómstóli, þó að lögum yrði. Þar er ákveðið, að ríkið skuli ekki bera ábyrgð á skuldum fyrirtækisins eftir vissan tíma. Ríkið á fyrirtækið, og ég er hræddur um, að ríkið yrði dæmt til að bera ábyrgð á skuldum þess, ef verksmiðjurnar yrðu gjaldþrota. Kæmi til þess, að ríkið yrði gjaldþrota, þá verði auðvitað gengið að verksmiðjunum. Gagnvart erlendum lánardrottnum gæti engin ríkisstjórn á Íslandi staðið sig við annað en að greiða skuldir verksmiðjanna. Hver erlendur lánardrottinn reiknar auðvitað með því, þegar hann veitir verksmiðjunnm lán, að ríkið standi á bak við. Þetta atriði er því að öllu leyti óhafandi, það mundi skaða ríkisverksmiðjurnar, en gæti ekki hjálpað ríkinu hið minnsta, þessa 7. gr. á því að fella í burtu.

Í sambandi við 4. gr. frv., er fjallar um stjórn ríkisverksmiðjanna, vil ég geta þess, að nái brtt. hv. þm. Ísaf. ekki fram að ganga, mun ég flytja till. við 3. umr., sem yrði miðlunartillaga. — Viðvíkjandi 9. gr. vil ég segja það, að ég álít nauðsynlegt, að þeirri grein verði breytt svo, að það sé tryggt, að verksmiðjurnar geti keypt síldina föstu, verði, ef þær vilja.

Við 14. gr. er brtt. um hækkun gjaldsins upp í 1%. og er ég fylgjandi þeirri brtt., enda haldist áfram ákvæðið um 25%.

Viðvíkjandi ákvæðinu til bráðabirgða verð ég að segja, að það voru mjög fróðlegar upplýsingar, sem hv. þm. Ísaf. gaf um það atriði. Ég furða mig á því, að þetta skuli hafa komizt óathugað gegnum hv. Ed., og ég tel, að ekki komi í mál að samþ. þetta ákvæði, eftir að upplýsingar hv. þm. Ísaf. eru komnar fram. En þetta ákvæði sýnir það, að meir hefir verið fylgt á eftir málinu með kappi en forsjá. Ég vil óska þess, að í sambandi við umr. um frv. þetta hér í Nd. komist á samkomulag milli stjórnarflokkanna um þetta mál, því að ég tel það mjög hættulegt að afgr. svo þýðingarmikið mál með samkomulagi flokka, sem annars eru andstæðir.