20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki halda langa ræðu til að svara því, sem hv. þm. Vestm. sagði áðan, en víkja að nokkrum höfuðatriðum. Hann sagði, að það væri að vísu rétt hjá mér, að skattar og tollar hefðu hækkað 1924, en það hefði bara verið vegna þess, að fjmrh. Framsfl. hefði verið búinn að safna svo miklum lausaskuldum. Ég hefi nú ekki yfirlit yfir þetta, en þetta út af fyrir sig má vera rétt, en ekki getur þetta verið orsökin, það sýnir landsreikningurinn 1926–27. Því að þau ár, sem þó urðu að teljast allsæmileg ár, var ekki lengur að ræða um afgang til að greiða lausaskuldir, heldur var bæði þau ár þannig háttað afkomu ríkissjóðs, að ekki hrukku tekjur fyrir öllum greiðslum hans, þar með taldar afborganir af föstum lánum, það varð m. ö. o. nokkur greiðsluhalli og farinn mesti glansinn af þeirri byrjun. sem hófst 1924 og 1925 í góðærinu.

Aðalatriðið í minni ræðu áðan var nú fyrirspurn til hv. þm. Vestm. um það, hvernig ætti að samræma þær útgjaldatillögur, sem fram eru bornar af sjálfstæðismönnum, og till. um það, að ríkissjóður sleppi tekjum, og hinsvegar gagnrýni frá sömu hv. þm. á hendur núverandi þingmeirihluta fyrir hækkandi ríkisútgjöld og slæma afkomu ríkissjóðs. Þetta var meginatriðið í minni ræðu og það, sem ég óskaði eftir að fá skýrt fram. En þegar að því kom, að hv. þm. tæki þessa meginfyrirspurn mína til afgreiðslu í sinni ræðu, þá sagði hann: Áður en ég svara, langar mig að spyrja líka einnar spurningar. Hann setti fram þá spurningu, en svarið við minni spurningu kom ekki í einu orði. En þessi litla spurning, sem þm. kom með, var um það, hvernig á því stæði, að 1935 hefði núv. stjórnarflokkar komið með stórfelldar till. um aukin ríkisútgjöld, eftir að samkomulag var búið að fá í fjvn. um niðurfærslu nokkurra ríkisútgjalda. Hélt hann fram, að með þessu móti hefði Framsfl. alveg sérstaklega farið á bak við Sjálfstfl., sem hefði staðið að þessum niðurfærslum á fjárlögunum. Og þetta átti að vera svar við þessari spurningu frá minni hálfu um það, hvernig ætti að leysa fjármálin nú eftir till. Sjálfstfl. annars vegar og ummælum hans hins vegar.

Sannleikurinn frá 1935 er sá, að í fjvn. var unnið að niðurfærslu útgjalda, og um það var enginn ágreiningur milli flokka. Og það er sannast að segja hart, að gefið skuli vera í skyn af hálfu hv. þm. Vestm., að það hafi þurft að toga sjálfstæðismenn til að gera þær niðurfærslur, sem þá urðu, og til ámælis á þeirra menn í nefndinni. En það var að skilja á hv. þm., að þetta hefði verið einhver sérstakur greiði við Framsfl. En það var sem sé sameiginlegt áhugamál flokkanna að lækka ýmsa liði á fjárl., og mér vitanlega var enginn til þess togaður.

Og þá kem ég að því, að hv. þm. Vestm. sagði, að farið hefði verið á bak við Sjálfstfl. og útgjöldin hækkuð um 2 millj. kr., og þess vegna hefði orðið að engu það verk, sem fulltrúar hans lánuðu samþykki sitt til í fjhn. Jafnvel þó að útgjöldin hefðu hækkað um 2 millj., sem þau ekki gerðu, þá hafði verk sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og jafnaðarmanna, sem voru allir sammála í fjvn., sitt gildi fyrir því, en hitt er rétt, að fluttar voru till. um aukin útgjöld á því ári, en alls ekki farið neitt á bak við neinn í því sambandi. (JJós: Jú). Nei, það er ekki réttur skilningur, því að þá lá fyrir frá hálfu stjórnarflokkanna málefnasamningur, sem allir þingmenn vissu, að þurfti að leysa. Það, sem efir var af honum. þurfti að leysa á þinginu 1935. Ennfremur var þm. Sjálfstfl. kunnugt um ýmsar till., sem fyrir þinginu lágu í lagaformi og allir flokkar voru sammála um, að þyrfti að afgreiða, og þær voru afgr. sem l. Starf fjvn. kom því að fullu liði, og um þessi mál var samkomulag milli allra flokka, það ég bezt veit.

Nú er ótalið það, sem í raun og veru er aðalatriðið. Hv. þm. Vestm. sagði, að farið hefði verið skemmilega á bak við Sjálfstfl. og fulltrúa hans í fjvn. að þessu leyti, og hefi ég svarað því. En hverjar voru þær greiðslur, sem var aðallega bætt við á fjárlögin með sérstökum l. og ekki voru beint til meðferðar í n? Ég hefi hérna fyrir framan mig frv. það, sem við fluttum um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs, og gert er ráð fyrir einni milljón. Ég fullyrði hiklaust, að Sjálfstfl. á þingi var með því að setja flestar þessar upphæðir á fjárl., m. ö. o. að samþ. þau l., sem hefðu þessi útgjöld í för með sér. Þessir liðir voru:

Til alþýðutrygginga um .......... 300.000 kr.

— fóðurtrygginga um ............ 25.000 —

— nýbýlamyndunar um .......... 200.000 —

— kartöfluverðlauna um ........ 30.000 —

— skuldaskilasjóðs útgerðarm. um 160.000 —

— mjólkurbúa um .............. 55.000 —

— greiðslu vaxtahl. af fasteignaveð-

lánum bænda um ............ 75.000 —

— iðnlánasjóðs um .............. 25.000 -

— greiðslu ofviðristjóns á Norðurlandi um .................. 60.000 -

— frystihúsa um ................ 20.000 —

Af þessum 300 þús. kr. til alþýðutrygginga eru um 150 þús. til ellitrygginga, og Sjálfstfl. var ekki myrkur í máli um það, að þeim kafla tryggingarl. var hann meðmæltur. Og Sjálfstfl. var í raun og veru með meiri hl. af þessum útgjöldum, þó að hv. þm. segi nú, að farið hafi verið skemmilega á bak víð flokkinn. — En setjum nú svo, að svikizt hafi nú verið aftan að mönnum með þessar tvær millj. 1935, mundi það nokkuð leysa hv. þm. Vestm. frá þeirri skyldu, að svara fyrirspurnum um það, hvernig Sjálfstfl. á því herrans ári 1938 ætlar að samrýma till. þær, sem fyrir liggja, þeim ummælum, sem hann hafði um eyðslu núv. stjórnarflokka og ákafa eftir nýjum skatttekjum. Ég held ekki. Því að það ætti að vera áhugamál sjálfstæðismanna að gera sem fyllsta grein fyrir sinni stefnu að þessu leyti, ef þeir hafa trú á henni í framkvæmd. Þess vegna er það svo, að hv. þm. Vestm. hefir ekki í neinu svarað meginatriðum í ræðu minni, og við erum ekkert nær um það, hvernig Sjálfstæðisfl. ætlar að vega upp á móti þessum 4 millj., sem þessar till. hafa í för með sér, ýmist sem útgjöld eða tekjumissi. Hv. þm. nefndi nú reyndar tvö atriði, ef telja skal slíkt með, og var annað skipulagsnefnd atvinnumála. Ekki veit ég, hvort hv. þm. er svo ókunnugur, að hann viti ekki, að nefndin hefir þegar hætt störfum. Þetta eru svona álíka bollaleggingar hjá hv. þm. eins og ef bóndi væri að bollaleggja að létta af fóðrum grip, sem búið væri að slátra. (JJós: Hvenær var Rauðka slegin af?) Hún var slegin af á því herrans ári 1937, þannig að þm. kemst ekki langt þessa leið til að vega á móti þessum 4 millj., sem hann þarf að jafna. Hitt var ferðaskrifstofa ríkisins. Á þessu ári mun hafa verið halli um 13 þús. kr. Hann var verulega meiri í fyrra. Og miðað við vaxandi tekjuvon ríkisins af þessari stofnun með auknu starfi, þá býst ég við, að sú stofnun þurfi innan skamms ekki að sækja neitt fé úr ríkissjóði til þess að standast sínar greiðslur. Að benda á það sem sparnaðarlið að leggja þessa stofnun niður, er því álíka og ef sami bóndi tæki þann kost að létta af fóðrum gripa, sem hann væri viss um, að gæti gengið úti. Svona óheppinn hefir þessi hv. þm. verið í vall þeirra liða, sem hann hefir bent á, að mætti spara á fjárl.

Þá hefir sami hv. þm. alllangar umræður um það, að framkvæmdir fiskimálanefndar væru með þeim hætti, að þó að henni væri ætlað fé á fjárl. til styrktar sjávarútveginum, þá mundi það að litlu gagni verða. Það er nú ekki tækifæri að fara út í einstök atriði í störfum fiskimálanefndar við þessar umr. En ég fullyrði, þó að ýms mistök hafi orðið hjá þeirri nefnd, eins og hlýtur að verða hjá öllum, sem hafa með höndum alger nýmæli, þá hefir orðið mjög verulegt gagn að þeirri upphæð, sem varið hefir verið um hendur þessarar nefndar, og verður áreiðanlega til meira gagns hlutfallslega í framtíðinni víð þá reynslu, sem þegar er fengin. Eða vill hv. þm. ekki gera neitt úr þýðingu nýrra hraðfrystihúsa fyrir sjávarútveginn eða að tekin hefir verið upp herzla á fiski og karfaveiðar, sem hafa haft stórfellda þýðingu fyrir sjávarútveg landsmanna. Þannig held ég, að hv. þm. hafi verið heldur en ekki óheppinn þegar hann tók sýnishorn af því, sem átti að fella niður til þess að vega á móti þessum margumtöluðu 4 millj. kr.

Það er ekki vettvangur hér til að ræða um síldarsölu landsmanna, enda skortir mig kunnugleik á þeim málum. En það veit ég í stórum dráttum, að komið hefir greinilega fram — jafnvel háværar raddir — meðal þjóða, sem voru keppinautar um síldarsöluna, að fyrirkomulag á þeim málum hér væri miklu skynsamlegra en þær hafa, sem er mjög líkt því sem hv. þm. Vestm. mundi vilja láta sér lynda — það sem var, áður en var farið að sinna þessum málum.

Í raun og veru er ekki margt fleira, sem ég þarf að svara í ræðu hv. þm. Hann sagði, að stefna okkar væri röng, síhækkandi tollar og gjöld. En þó flytur hann einlægt till. um meiri útgjöld og um að fella niður tekjur ríkissjóðs, sem óhjákvæmilega hefir í för með sér hækkun tolla. En jafnframt er hann að bendla tollahækkun við stefnu sósíalista. Er hann þá ekki minni sósíalisti en hver annar, því að hann er manna óragastur að fara fram á útgjöld úr ríkissjóði. Og á þessu þingi er hann flm. að því að útfæra enn meir en gert hefir verið áður þá einu reglulegu þjóðnýtingu, sem nú hefir verið sett á stofn nýlega, sem sé rekstur síldarbræðslu ríkisins.

Þá sagði hv. þm., að ef kjör bænda og þeirra, sem við sjávarsíðuna búa, hefðu batnað, þá væri stefna stj. áreiðanlega rétt, en ef afkomunni hefði hnignað, þá væri hún röng. Á þessu endaði hv. þm. og taldi sig víst gera málinu góð skil. En ég held, að ekki sé hægt að taka þetta mál svo einfalt. Ég held, að það verði að bæta við: ef ástæður bænda og hagur landsfólksins hefir batnað á þessu tímabili, að óbreyttum öllum öðrum aðstæðum og óbreyttu árferði, þá hefir það sýnt sig, að stefna stj. er rétt. En ef hagur landsfólksins hefir versnað á þeim tíma, að óbreyttu árferði, þá er það þungur áfellisdómur á stj. Ég held það geti meira að segja komið fyrir, að hagur einstakra manna og jafnvel þjóðarinnar í heild út á við gæti batnað, þó að stjórnarstefnan væri ekki sú heppilegasta, sem hægt væri að hafa, ef árferði væri sérlega gott. Það er vitanlega alls ekki hægt að dæma eftir þessu einu, almennum hag fólksins, hvort hann versnar eitthvað eða batnar. Hitt vil ég taka fram sem mína skoðun, að margar þær ráðstafanir, sem núverandi ríkisstj. og þingmeirihl. hefir gert undanfarin ár, hafa verkað stórlega í þá átt að draga úr þeim erfiðleikum, sem atvinnuvegunum hlaut að stafa af hinum breyttu ástæðum í öðrum löndum, þar sem við höfum selt okkar markaðsvörur. Þetta er mín skoðun. En hv: þm. hefir rétt til að hafa þá skoðun, sem honum sýnist. Hann getur bara ekki dæmt eftir þeirri reglu, sem hann setti fram áðan, því að það er ómögulegt.