11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Jóhann Jósefsson:

Ég tók eftir því í ræðu hv. 9. landsk. eins og hæstv. forsrh., að þeir töldu að einn landsfjórðungur væri afskiptur um framlög til vega. Ég skal ekki hafa á móti því, að svo geti verið, og ekki skal ég heldur mæla því í gegn, að þeir fái hluta af benzínskatti. Það er einmitt samkv. þeirri stefnu, sem ég hefi haldið hér fram, að hann eigi að koma þar til nota, sem hann er greiddur í réttum hlutföllum. En mér virðist það koma fram hjá hv. þm., að Vestmannaeyjar gætu vel misst þetta í bili. Þetta er náttúrlega svo stór upphæð, að ef til vill mætti eitthvað endurskoða af þeim tölum. Ég segi það eins og það er, að þó að ég hafi farið fram á 5 þús. kr. af benzínskatti til handa Vestm., þá er ég fús til að ganga inn á eitthvað lægri upphæð, með það fyrir augum, að sá partur landsins, sem sérstaklega er talinn afskiptur, fái eitthvað rétt sinn hlut. Ég vil, af því að hv. 9. landsk. (JBald) viðurkenndi samt sem áður, að það sé rétt að Vestmannaeyjar eigi þarna tilkall til, beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort hann og hans flokkur vilji styðja að því við skiptingu á þessu fé í Sþ., að Vestmannaeyjar fái einhvern hluta af því, þó minni verði en það, sem ég hér hefi farið fram á. Ef hv. 9. landsk. lýsir því yfir, þá mun ég verða fúsari til að taka mína till. aftur heldur en ég hefi verið að þessu, þar sem hæstv. fjmrh. hefir verið svo ærið ósanngjarn í garð Vestmannaeyja í þessu máli, og þar hefir ekki verið um neitt annað að ræða en að varpa öllum sínum áhyggjum á fjvn. og eiga allt undir hennar náð og miskunn, samtímis því, sem hæstv. ráðh. situr á henni og passar hana og heldur því fram, að Vestmannaeyjar geti verið ánægðar með 6 þús. kr. af því fé, sem látið er til vega. (Forseti: Þetta var aðeins aths.). Ég var satt að segja búinn að gleyma því, að þetta var aðeins aths., og bið ég hæstv. forseta afsökunar á því. Hér er í sjálfu sér um mjög þýðingarmikið atriði að ræða fyrir mitt byggðarlag, og ég vil leita allra löglegra bragða til þess að hlutur minna kjósenda sé ekki fyrir borð borinn.

Ég hefi ekki tíma til að koma inn á ræðu hæstv. fjmrh. nema með örfáum orðum. Hann fór að tala um kostnaðinn við að lifa í Reykjavík og verð á vörum. Hann hélt því fram, að eftirgjöf á tolli á ávöxtum yrði bara til þess að fylla vasa kaupmannanna. Ég held, að hæstv. ráðh. segi þetta nokkuð mikið út í bláinn; a. m. k. vili hann tæplega halda því fram, að eftirgjöf á tolli af ávöxtum til kaupfélaga yrði til þess að fylla vasa kaupmannana.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, sem er útúrsnúningur á okkar orðum, að hann hefði orðið fyrir árásum af hendi okkar sjálfstæðismanna fyrir, að kaupfélögunum væri veitt innflutningsleyfi. Þetta er ekki rétt með farið. En hæstv. ráðh. og blað hans hér í bænum, hefir ávallt snúið öllum aðfinnslum í þessu efni vísvitandi inn á þessa braut, og hygg ég það sé gert til þess að villa fólki sýn. Sú gagnrýni, sem við höfum komið með, og þá sérstaklega verzlunarstétt landsins, á gerðum hæstv. ráðh. í þessu sambandi eða að því, er snertir innflutningsleyfi, hefir farið í þá átt að við höfum sagt, að við teldum kaupmenn og kaupfélög eiga að hafa jafnrétti. Við höfum aldrei sagt, að við teldum, að kaupfélögin ættu engan innflutning að fá, en hinu höfum við haldið fram, að þessir aðiljar ættu að vera jafnréttháir. Sú regla, sem hæstv. ráðh. hefir innleitt við veitingu innflutningsleyfa, höfðatölureglan, gerir upp á milli kaupfélaga eða neytendafélaga annarsvegar og kaupmanna hinsvegar, þar sem annar aðilinn hefir eftir þeirri reglu greiðan aðgang að því að auka innflutninginn eftir því, sem viðskiptamönnunum fjölgar, en hinn aðilinn, kaupmennirnir, engan aðgang að því að auka innflutninginn, þó viðskiptin aukist. Það var þetta, sem við vorum að tala um, en ekki það, sem hæstv. ráðh. sagði.