21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Auðvitað verður þetta ákvæði að gilda jafnt fyrir alla. Hjá því verður ekki komizt. Það er ekki hægt að láta rannsókn fara fram í hverju tilfelli á ástæðum fyrir því, að vörurnar hafa ekki verið teknar fyrir 1. jan., og það getur verið, að einhver lendi undir þessu ákvæði, sem ekki hefir getað tekið vörurnar fyrr af óviðráðanlegum ástæðum, en það er ekki hægt að girða fyrir það. Það er miklu minni hætta á, að menn svíkist undan því að greiða toll með því að hafa þetta ákvæði heldur en eins og þetta var áður. Ég tel því, að þetta ákvæði sé til bóta og engin ástæða sé til að breyta því.