11.12.1937
Neðri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

124. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Eins og hv. þm. N.-Ísf. tók fram, hefir allshn, ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Þó hefir verið góð samvinna í n. um rannsókn málsins, en tími hefir verið svo naumur, að málið var ekki hægt að ræða nema á 4 eða 5 stuttum fundum. Það hefir ekki heldur verið vant að leita umsagnar ýmsra aðilja um málið, eins og við hv. 8. landsk. töldum nauðsynlegt. Það hefði t. d. verið æskilegt, að bæjarstjórnir og sjúkrasamlög í kaupstöðum hefðu getað fjallað nokkuð um það. En til þess hefir tími verið of naumur. Málið kemur ekki fyrir hv. d. fyrr en 2. des., en þá er orðið alláliðið þingtímans. Ég vil þó geta þess, sem hv. þm. N.-Ísf. minntist raunar í, að í allshn. stóðum við með hv. meiri hl. að brtt. á þskj. 304. Eru þær allar til bóta og sumar fram komnar fyrir okkar tilstilli. En vegna þess, hve rannsókn málsins er ábótavat, getum við ekki borið ábyrgð á því, að þetta frv. rekist ekki einhverstaðar á sjálfa löggjöfina. Við höfum því borið fram rökst. dagskrá á þskj. 205 um að skipa 3 manna n., þar sem einn sé skipaður af hverjum stærstu þingflokkanna, til þess að framkvæma alhliða athugun á málinu og leggja fram till. fyrir næsta þing.

Um málið má segja, að það hafi í fyrstu ekki sætt þeim undirbúningi, sem hæfði slíku stórmáli. En á þingi 1934 bárum við sjálfstæðismenn fram till. hér. í d. um að skipa n. allra þingflokkanna til að undirbúa þetta mál fyrir næsta þing. Till. náði ekki fram að ganga, og með því höfnuðu stjórnarflokkarnir samvinnu við okkur um þetta mál. Þeir skipuðu n., þar sem áttu sæti aðeins þeirra flokksmenn, en hún varð þó að leita út fyrir þessa flokka til að afla sérþekkingar. En á þinginu 1935 var málið svo seint fram borið, að það gat ekki fengið rækilegan undirbúning. Var þá reynt í Nd. að fá málinu frestað, til þess að hægt væri að fá umsögn sveitarstjórnanna. Það hefði ekki þarft að tefja málið mikið, þar sem þing átti að koma saman aftur í febrúar 1936. En það mátti ekki verða, og þegar málið kemur til Ed., er eftir um vika af þingtímanum, og allshn. þar gat aðeins haldið einn fund um það. Fulltrúar Sjálfstfl. sáu, að þýðingarlaust myndi að bera fram brtt., því að sýnilegt var, að málinu var ætlað að ná framgangi í þeirri mynd, sem það hafði, er það kom til Ed. Var þó á það bent af Magnúsi heitnum Guðmundssyni, að nokkur atriði rækjust þar á og gætu ekki staðizt. Og þessi mæti þm., sem skilaði sérstöku nál., segir í ræðu um málið:

„Ég er þess fullviss, að bráðlega verður að taka þennan bálk til endurskoðunar, þótt hann verði að lögum nú“.

Og ennfremur segir hann:

„Þá er ekki hæt annað en að benda á þessa einkennilegu aðferð, að semja um frágang máls, sem ekki er búið að setja svo í letur, að víst sé, að það muni verða frambærilegt sem lög“.

Það hefir nú komið á daginn, hve réttmæt þessi ummæli voru, því að ekki var liðin meira en ein vika, þegar grípa varð til þess að breyta l. Svo var þeim aftur breytt með bráðabirgðal. að 8 mánuðum liðnum. Enn var þeim breytt með l. frá 1. apríl 1937, er löggjöfin var ársgömul. Síðan hafa á hverju þingi komið fram till. um breytingar, enda hafa víða heyrzt óánægjuraddir út af þessum l. Nú liggja hér fyrir þinginu þrjú frv. um breyt. á l. og ein þáltill., en það hefir verið lagzt á málið í n. og beðið eftir hinu spámannlega orði frá hæstv. stj. Um þetta átti að semja milli stjórnarflokkanna, en það varð ekki fyrr en svo seint, að sagan virðist ætla að endurtaka sig um óvandaðan undirbúning málsins.

Ég ætla ekki nú, eins og hæfir við 2. umr., að rekja nokkuð einstakar gr. frv., þó að ég muni leggja aðaláherzluna á, að okkar rökst. dagskrá verði samþ.

Við 1. gr. frv., sem lýtur að I. kafla l., er brtt. á þskj. 304, sem öll allshn. stendur að. Hún er til þess ætluð að tryggja það, að tryggingarráð sé skipað á lýðræðisgrundvelli, að þingflokkarnir eigi þar fulltrúa, en þurfi ekki að eiga allt undir stj. Alþfl. eins, sem þykist vera hinn sanni lýðræðisflokkur hér á landi. Það má vera, að hæstv. atvmrh. hafi ekki athugað, að allir þeir menn, sem hann hefir skipað í ráðið, eru úr sama flokki, en það er ekki til þess fallið að auka vinsældir þess eða bægja burtu tortryggni gagnvart því: Þessu er nauðsynlegt að breyta, og höfum við hv. 8. landsk. áður borið fram í n, till. um slíkar breyt., og að lokum hafa nú andstæðingar okkar í n. getað átt samleið með okkur um þetta. (BJ: Við urðum löngu á undan ykkur með þetta). Það stóð að vísu í blaði Framsfl., að þetta stæði til, en fyrir því höfðum við enga tryggingu, að það kæmi til framkvæmda.

Við II. kafla l. eru nokkrar brtt., sem fólgnar eru í 2. og 8. gr. frv. Það eru ekki veigamikil ákvæði, enda hygg ég, að ákvæðin um slysatryggingar séu þau bezt undirbúnu í löggjöfinni.

Við III. kafla l., sjúkratryggingarnar, eru nokkrar brtt., sem felast í 9.–25. gr. frv. Hv. frsm. meiri hl. hefir tekið það fram, að ekki sé rétt, að hlutur gamals fólks, sem komið er yfir 67 ára aldur, sé gerður verri en verið hefir. Þarna öðlast það rétt til að losa sig frá tryggingunum, ef það æskir þess, og margt gamalt fólk hefir einmitt óskað þessa.

10. gr. frv. fjallar um atriði, sem mikið hefir verið um deilt, sem sé það, að þeir, sem hafa tekjur yfir ákveðnu lágmarki, gjaldi til trygginganna, en hafi þó ekki réttindi. Hvað sem annars má um málið segja, er augljóst, að hér er um atriði að ræða, sem er óskylt tryggingum. Þetta er skattálag á vissa menn, sem ég tel, að ekki eigi heima í löggjöf um tryggingar. Það er lagt til, að þessir menn fái rétt til að tryggja sig, ef þeir greiða 100% hærri gjöld en aðrir. Með þessu getur skapazt áberandi ranglæti, eins og t. d. ef maður hefir 4500 kr. skattskyldar tekjur, greiðir hann venjulegt gjald, en hafi hann hundrað krónum meira í tekjur, verður hann að greiða helmingi hærra gjald til að tryggja sér sömu hlunnindi. Skal ég svo ekki fara lengra út í þennan lið að sinni; ég geri ráð fyrir, að tækifæri gefist til að ræða það aftur við 3. umr. En ekki er hægt að segja annað en það sé sanngjarnt, að þessir menn eigi kost á að njóta hlunninda l., þar sem þeir standa sjálfir undir sinni eigin tryggingu, þannig, að þeir greiða helmingi meira en aðrir, en það er sama upphæð og ríki og bæjar- og sveitarfélög leggja til sjúkratrygginganna.

Hv. 8. landsk. og ég viljum algerlega mótmæla þeim ákvæðum, sem koma fram í 11.–13. gr. frv., um að svipta sveitar- og bæjarstjórnir yfirráðunum yfir sjúkrasamlögunum. Hv. frsm. meiri hl. n. gat þess í ræðu sinni, að hann teldi þarna ekki vera bæjarmálefni um að ræða, en ég verð að halda því fram, að hér sé fyrst og fremst um bæjarmálefni að ræða, þar sem bæjarfélögin leggja að mestu leyti fram fé til þessara mála, og þar að auki eru sjúkrasamlögin mikilsvarðandi mál fyrir bæjarfélögin að því er við kemur fátækraframfærinu. Ég þykist vita, að það hafi vakað fyrir stjórnarflokkunum þegar þeir gengu frá l., að það væri rétt, að bæjarstjórnirnar hefðu að öðru leyti með framkvæmd þessara mála að gera, og þurfa þar ekki að koma neinir sérstakir flokkshagsmunir til greina, þar sem stjórn samlaganna skal kjósa með hlutfallskosningu af bæjarstjórn. Ég álít það mjög til óhagræðis framgangi málsins, ef bæjarfélögin hafa ekki sérstaka skyldu til að sjá um farsælar framkvæmdir trygginganna. Það verður aldrei til góðs, að meiri hl. bæjarstjórnar sé í beinni andstöðu við stjórn sjúkrasamlags, það getur skapað ósamkomulag, sem verður málinu einungis til tjóns. Vona ég, að mér gefist tækifæri til að ræða þetta atriði frekar við meðnm. mína, ef okkar rökst. dagskrá verður felld.

Því hefir verið haldið fram, að ákvæði 15. gr. væru mjög til hagsbóta fyrir hina tryggðu, þar sem fellt er niður, að hinir tryggðu greiði læknum smáþóknun fyrir aðgerðir og viðtöl. Ég veit, að það hefir þótt hvimleitt að þurfa að greiða þetta gjald, en ég álít samt vafamál, hvort það komi ekki þyngra niður á þeim tryggðu, ef samlögin eiga að taka það að sér. Þá má búast við, að læknar segi upp þeim samningum, sem nú hafa verið gerðir við þá af sjúkrasamlögunum. Munu þeir þá heimta hækkun frá því, sem sjúkrasamlögin greiða nú fyrir hvern mann, þ. e. a. s. 16 kr. á ári fyrir mann, í staðinn fyrir 12 kr., sem er núv. gjald. Þessi hækkun mundi koma niður á samlaginu í heild, og gæti fyrr eða síðar orðið til að draga úr hlunnindum þeirra tryggðu á einn eða annan hátt. Næðist ekki samkomulag við læknana, yrði farið með þetta mál eins og segir í 16. gr. l. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Náist ekki samkomulag, eða að svo miklu leyti, sem ósamið verður, er stjórn sjúkrasamlags heimilt að greiða læknishjálp, lyf og annan sjúkrakostnað meðlima samlagsins eftir reglum, sem Tryggingarstofnun ríkisins setur, jafnvel þótt slík greiðsla nægi ekki til að standa straum af öllum kostnaði, er annars leiðir af ákvæðum 30. gr.“. M. ö. o., tryggingarstofnunin getur ákveðið að greiða læknum sem svarar vissum hluta af því, sem læknarnir setja upp; mismuninn verða hinir tryggðu þá að greiða samkv. núgildandi l., og sé ég ekki að svo stöddu, að þetta sé þeim tryggðu til nokkurra hagsbóta. Enda ber að athuga, hvort ekki er rétt að hafa í löggjöfinni einhver ákvæði, sem hamli því, að þeir tryggðu misnoti aðstoð læknanna, því það er engum til góðs, en leiðir aðeins til þess, að læknar verða að krefjast hærri greiðslu fyrir vinnu sína. Ef máli þessu væri frestað til næsta þings, mætti m. a. leita nýrra samninga við læknana, sem tryggðu, að hlutur þeirra tryggðu versnaði ekki frá því, sem nú er, jafnvel þótt framlög þeirra lækkuðu eitthvað.

Í 17. gr. frv. geta falizt nokkrar réttarbætur, þar sem gert er ráð fyrir vægri innheimtu iðgjalda unglinga á aldrinum 16–21 árs, sem dvelja á heimili efnalítilla foreldra og hafa engar sjálfstæðar tekjur, en þetta ákvæði má að líkindum framkvæma með ákvæði í gömlu l., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Börn samlagsmanna, yngri en 16 ára, sem eru á framfæri þeirra, fá sömu hjálp í veikindum og foreldri á rétt til, að dagpeningum undanteknum.

Nú eru börn eldri en 16 ára og yngri en 21 árs á heimili fátækra foreldra sinna án þess að hafa sjálfstæðar tekjur, og er þá heimilt að ákveða í samþykkt sjúkrasamlags, að stjórn þess hafi helmild til að gefa eftir iðgjöld barnanna að nokkru eða öllu leyti, án skerðingar á rétti barnsins til sjúkrahjálpar, annara en dagpeninga“.

Þarna segir, að framkvæma megi þetta atriði með ákvæði í samþykkt sjúkrasamlags. Þar að auki veit ég, að hjá sjúkrasamlagi Reykjavíkur a. m. k. er ekki gengið hart eftir þessum iðgjöldum. Hygg ég því, að vegna þessarar réttarbótar geti afgreiðsla málsins beðið til næsta þings.

Sama er að segja um 24. gr., þar sem atvinnurekendum er ekki heimilað að halda eftir nema 10% af launum til greiðslu iðgjalda. Einnig þetta gæti beðið næsta þings, þar sem þetta er aðeins til hagsbóta fyrir fáeina efnalitla menn.

Þá eru nokkrar breyt. víð 4. kafla l., elli- og örorkutryggingar, sem felast í 46–63. gr. l., í frv. í 26.–31. gr. Um þær get ég verið fáorður, og geri ég ráð fyrir, að við 26. gr. frv. komi brtt. við 3. umr. Gr. er um ýmsar stofnanir, sem hafa sérstaka ellitryggingarsjóði fyrir starfsfólk sitt og óska eftir að fá að starfa áfram; a m. k. gera sumir sjóðir það, sem stofnaðir eru samkv. ákvæðum löggjafarinnar. Um 31. gr., sem er við 62. gr. l., geta verið skiptar skoðanir; ýmsir, sem eru tryggðir í sérstökum sjóðum, óska eftir að fá iðgjöld sín endurgreidd og leggja sjóðina niður, eins og leyft hefir verið einstöku stéttum, eins og t. d. póstmönnum hér í Reykjavík. Aðrir vilja mega velja um, hvort þeir skipta við sérstaka tryggingarsjóði einstakra stétta eða hvort þeir tryggja sig í lífeyrissjóði Íslands.

Um 5. kafla l., atvinnuleysistryggingar, get ég verið fáorður. Sjálfstfl. hefir skýra afstöðu til þessa kafla, þar sem hann vill afnema hann með öllu og að þessum málum verði hagað á allt annan hátt. Við þennan kafla l. er fram komin Í brtt. Við athugun á þingtíðindum sé ég, að þetta ákvæði, sem nú á að afnema, var komið inn í l. fyrir harðfylgi Framsfl., þar sem þetta er eitt af stefnumálum hans.

Við 6. kaflann eru margar brtt. Er hann um ellilaun og örorkubætur, og eru brtt. í 32.–40. gr. frv. Ég tel það vera til mikilla bóta að leiðrétta ranglæti það, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa orðið fyrir í þessu efni, þar sem þau framvegis eiga að fá vextina af ellistyrktarsjóðum sínum, enda hafa komið margar umsóknir um það víðsvegar af landinu. En þar sem svo ákveðinn þingvilji er fyrir þessu, tel ég, að lögfesting mætti bíða næsta þings, þar eð haga mætti framkvæmdum í samræmi við vilja Alþ. Væri vilji fyrir hendi hjá tryggingarstofnuninni til að haga því svo, mætti a. m. k. veita þetta nú sem bráðabirgðálán, sem yrði svo gefið eftir. Ég er því sammála, að rétt sé að fyrirbyggja, að ellistyrkurinn verði notaður til að létta fátækraframfæri eins og kvað hafa borið á, að gert væri, þar sem ellilaun eru fyrst og fremst hugsuð til að gera hlut gamla fólksins í landinu betri en verið hefir.

Ég hefi rakið innihald þessa frv. til að sýna, að þær réttarbætur, sem í því felast, eru ekki svo stórar eða aðkallandi, að þær þoli ekki bið til næsta þings. Till. okkar sjálfstæðismanna í n. eru á því byggðar, að málið sé ekki nægilega rannsakað og geti ekki fengið þá þinglegu meðferð á þessu þingi, sem við álitum, að það þurfi, sökum þess, svo að sagan endurtaki sig ekki um flausturslegan frágang þessa máls, sem hefir orðið til að vekja vantraust á því.

Ég vil mega vænta þess, að hv. andstæðingar mínir athugi, að það getur aðeins orðið málinu til góðs, að það sé rannsakað svo, að afgreiðsla þess megi verða til frambúðar, og það er það, sem við höfum farið fram á með okkar rökst. dagskrá.