16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

26. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Þetta mál hefir samkv. minni beiðni verið látið biða hér í hv. d., vegna þess að það þótti líklegt, að við afgreiðslu fjárl. í fjvn. kæmu fram till. um að lækka einhverja liði þar, og vegna þess, hvað margir liðir eru lögbundnir í fjárl., gat farið svo, að einhverju þyrfti að breyta í þessu frv.

Þær brtt., sem hér eru fluttar af mér, eru þrjár talsins, og ein í 2 stafl. Þær eru fluttar í samráði við fjvn., og ég held, að það sé óhætt að segja, að allir nm. standi að baki mér í flutningi þeirra.

Fyrsta brtt. er um það, að hámarkið til greiðslu úr ríkissjóði á kostnaði samkv. búfjárræktarlögunum verði fært úr 56000 kr. upp í 62000 kr., og er þetta gert til þess, að hægt verði að styrkja þau fóðurbirgðafélög, sem bætzt hafa við síðan hámarkið var sett.

Önnur brtt. er um það, að lækka framlag úr ríkissjóði til móts við sýsluvegasjóðsframlagið, þannig að það sé aðeins lagt á móti 4½0/00 í stað 5 0/00 sem átti að standa í frv. Þetta mundi þýða um 30000 kr. sparnað fyrir ríkissjóð, og er þessi till. fram komin vegna þess, að í frv., sem þegar liggur fyrir Nd. vegna mæðiveikinnar, er gert ráð fyrir stórkostlegum framlögum til þeirra svæða, þar sem veikin hefir geisað og þótti eðlilegt, að sá sparnaður, sem þessar ráðstafanir yrðu að hafa í för með sér á öðrum sviðum, kæmu niður á þeim sýslum, þar sem veikinnar hefir ekki gætt.

Um 3. brtt., a- og b-lið, er það að segja, að niðurfelling þeirra hefir einnig verið rædd í landbn. þingsins sameinuðum og fjvn., og hefir orðið samkomulag um að leggja til, að þessir liðir verði ýmist lækkaðir eða felldir niður, til þess að mæta að nokkru þeim kostnaði, sem verður vegna sauðfjárpestarinnar. Fyrri liðurinn er um það, að ríkið leggi fram 60000 kr. til verkfærakaupasjóðs, í stað 80000 kr. Ég skal taka það fram, að þrátt fyrir þessa breyt. fær sjóðurinn eins mikið fé og undanfarin ár.

Um b-liðinn er það að segja, að gert er ráð fyrir, að niður falli styrkur til greiðslu vaxta af fasteignaveðslánum bænda, stofnlánum til frystihúsa, mjólkurbúa o. fl., og er það gert til þess að vega upp á móti þeim vaxtastyrk, sem gert er ráð fyrir í frv. um stuðning til handa bændum á mæðiveikisvæðinu. Þótti ekki nema eðlilegt, þegar svo stórfelldar ráðstafanir þurfti að gera til stuðnings bændum á vissu svæði, að það yrði að láta falla niður vaxtagreiðslur almennt. Þar að auki er þess að gæta, að þetta ákvæði var sett þegar verðlag á landbúnaðarafurðum var allt annað en nú. Það hefir því orðið að samkomulagi, að þessi liður yrði lagður niður, og má af því vænta 80000 kr. sparnaðar. Þannig ættu að sparast samkv. 3. lið um 100000 kr. og samkv. 2. lið um 30000 kr.

Ég vænti þess, að þetta sé nóg til þess að skýra þessar brtt., og ég vænti þess einnig, að þessi hv. d. verði fjvn. og landbn., að svo miklu leyti sem þetta kom til þeirra kasta, sammála um nauðsyn þessa sparnaðar. Ég skal taka það fram, þótt það sé reyndar óþarfi, að vitanlega hefði verið bezt að þurfa ekkert niður að fella til þess að mæta þeim kostnaði, sem verður vegna mæðiveikinnar. En það er sennilegt, að þessi kostnaður verði allt að 400 þús. kr., svo allir sjá, að nauðsynlegt er að færa til eitthvað þar á móti.