12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Nefndin hefir, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði, ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þessa máls, og hefi ég orðið einn í minni hl. Ég hefi leyft mér að gera grein fyrir mínu áliti á málinu í nál. á þskj. 114. En af því að það er til þess að gera alveg nýlega búið að úthluta nál. í deildinni, og hæpið, að þdm. hafi kynnt sér það enn, ætla ég að leyfa mér að fara örfáum orðum um aðalatriði málsins.

Höfuðágreiningurinn milli mín og meiri hl. — að svo miklu leyti sem hann kemur fram í nál. hvors um sig — liggur í því, að ég fyrir mitt leyti hefi ekki getað sætt mig við þá breyt. á valdsviði ráðh. annarsvegar og bankanna hinsvegar, sem gerð er með ákvæðum 2. gr. frv. Til þessa hefir það verið í lögum, að ráðh. gefur út reglugerð um úthlutun gjaldeyrís, en reglugerðin öðlast ekki gildi í framkvæmd nema því aðeins, að bankarnir, sem hafa gjaldeyrisverzlunina með höndum, samþ. hana. Nú er ætlunin með þessu nýja frv. að breyta þessu þannig, að ráðh. getur algerlega einn ráðið reglum fyrir úthlutun gjaldeyris, og er eingöngu tilskilið, að hann hafi leitað umsagnar bankanna áður en hann gefur út slíka reglugerð. Hinsvegar er ekkert lagafyrirmæli um það, að hann sé skyldur að fara eftir þeim till. í einu eða neinu, sem bankarnir gera.

Nú er það á almanna vitorði, að það er náttúrlega hægt með úthlutun gjaldeyris að svipta heilar stéttir þjóðfélagsins atvinnu, en gefa öðrum þegnum þjóðfélagsins sérréttindi til innflutnings. Það er þess vegna ákaflega mikið einræðisvald, sem ráðh. er selt í hendur með þessu ákvæði frv., ef að lögum verður, þar sem hann einn á að mega ráða þessum úthlutunarreglum. Ég hefi sem sagt á enga lund getað sætt mig við þetta. Og ég held, að ekki sé vonlaust, að hægt sé kannske á síðara stigi þessa máls að ná einhverju samkomulagi bæði við meiri hl. n. og fjmrh. um eitthvað annað fyrirkomulag á þessu, fyrirkomulag, sem ekki gefur ráðh. eins mikið einræðisvald í þessu máli eins og það ákvæði, sem hér er um að ræða í 2. gr. frv. Ég geri mér nokkra von um þetta samkomulag, enda þótt það hafi ekki náðst enn, því að mér hefir skilizt á umr. við meðnm. mína, að þeir séu reiðubúnir að athuga þetta. Mér hefir skilizt, að þeir telji það sérstaklega óviðfeldið ákvæði, að ráðh., sem á að setja reglugerð, getur enga reglugerð sett, ef bankanum þóknast að banna það.

Ég hefi nú gert grein fyrir því í nál., að annarsstaðar, þar sem ég hefi reynt að kynna mér slíka löggjöf, hefi ég hvergi orðið var við, að slíkt einræðisvald væri falið neinum ráðh. Ég hefi kannske átt einna beztan kost að kynna mér danska löggjöf. Þar var gefin út nýlega reglugerð á þriðja hundrað síður um gjaldeyrislöggjöf og framkvæmd hennar. Hefi ég sérstaklega reynt að kynna mér efni hennar í höfuðdráttum. Sýnist mér að vísu, að vald ráðh. sé þar nokkru meira en mér virðist í þeim öðrum löndum, sem ég hefi átt kost á að afla mér gagna frá. En þó er þetta vald mjög takmarkað, þannig að ráðh. verður fyrst að semja við þjóðbankann,sem í raun og veru er ætlazt til hér, að hann geri. En ákvæði dönsku laganna eru þannig, að ef þjóðbankinn loks ekki gengur inn á till. ráðh., þá hefir ráðh. enga aðstöðu til að sveigja þjóðbankann til hlýðni við sinn vilja í þessu efni. Hann hefir engin önnur ráð en þau, að svipta þjóðbankann undanþágu frá innlausnarskyldu seðla. En það er ákaflega örlagaríkt vopn að beita. Auk þess eru gjaldeyrisvöldin í Danmörku bæði hjá gjaldeyrisnefnd og gjaldeyrisráði, en í gjaldeyrisráði eiga höfuðatvinnugreinar þjóðfélagsins sína fulltrúa, sem bæði leggja á ráð og hafa auk þess heimild til að gagnrýna allar gerðir annara valdhafa í þessum málum. Jafnvel í þessu landi, þar sem vald ráðh. er meira en annarsstaðar, þar sem ég hefi rannsakað, þá er valdinu skipt á milli margra aðilja. Og ég held, að þessar reglur nágrannalandanna séu m. a. viðhafðar af því, að það er mjög hætt við, að slíkt einræðisvald í höndum stjórnmálamanna mundi leiða til misbeitingar á valdi Okkur er sjálfsagt öllum stjórnmálamönnum nokkuð hætt við að líta einhliða á málið, og ég hygg, að almennt talað megi ganga út frá því, að svo örlagaríku valdi sem hér er um að ræða sé betur borgið í höndum bankastjórnar, sem er að gera skyldu sína gagnvart atvinnulífi þjóðarinnar og hefir ekki freistingu til að líta á annað en hag almennings og hag bankans, sem má gera ráð fyrir að fari saman. En einstakur stjórnmálamaður getur oft og einatt verið nokkuð einsýnn. Og ég held, að þörf okkar Íslendinga fyrir gætni í þessu efni sé sízt minni en annara þjóða, því að hér er stjórnmálabaráttan heitari en annarsstaðar og persónulegri og misbeiting valdsins sjálfsagt fullt eins tíð — að ég ekki segi meira — eins og í nágrannalöndunum. Þetta er nú sú höfuðbreyt. á núgildandi l., sem ég er langandvígastur af öllum fyrirmælum frv., og sem ég leyfi mér í lengstu lög að vona, að náist samkomulag um á einhvern annan hátt en þennan.

Ég hefi leyft mér í nál. að vekja athygli á því, að á seinni árum hefir verið gengið lengra á þeirri braut að fela einstökum ráðherrum vald, sem á að liggja hjá Alþingi eða dómstólum; og slíkt er náttúrlega frekar fallið til að vekja einræðiskennd hjá mönnum heldur en glæða rétta tilfinningu fyrir lýðræði, og til að draga úr virðingu Alþingis.

Í 1. gr. frv. er bannaður útflutningur og innflutningur á seðlum. Þetta held ég, að hvergi sé gert annarsstaðar. Innflutningur á seðlum er a. m. k. leyfður í þeim löndum, þar sem ég hefi haft aðstöðu til að kynna mér slíka löggjöf nema í Þýzkalandi. Í Danmörku er leyft að flytja inn seðla, jafnvel þó að þeim hafi verið smyglað úr landi. En ég sé ekki ástæðu til að beita mér gegn því, að banna megi útflutning á seðlum. Hinsvegar er annað atriði, sem ég er mjög andvígur. Það er það nýmæli, að enginn megi fara úr landi, nema hann geti sýnt skírteini frá gjaldeyris- og innflutningsnefnd um það, að hann hafi aflað sér gjaldeyris á löglegan hátt. M. ö. o., gjaldeyrisnefnd hefir heimild til þess algerlega að ráða því, hverjir fara úr landi og hverjir ekki. Ég er nú ekki hræddur um það, að af þessu leiði það, að menn, sem þurfa að sigla vegna atvinnu sinnar, verði kyrrsettir. En þetta er ákaflega óviðfeldið, að enginn skuli mega fara út fyrir landsteinana nema með leyfi gjaldeyrisnefndar, og fjarska þýðingarlaust ákvæði. Og ég er sannfærður um það, að gjaldeyrissparnaður af þessu útflutningsbanni á fólki er ekki mikill. Ég er líka sannfærður um, að ekki verður með þessum hætti sett undir þann leka, sem ætlazt er til; en lekinn liggur aðatlega þar í, að menn, sem fá leyfi gjaldeyrisnefndar til utanfarar, afla sér meiri gjaldeyris á ólöglegan hátt og eyða meiru en gjaldeyrisnefnd hefir ætlazt til. En hitt, þó að einstaka ungur maður eða stúlka, sem ætlar að sigla sér til frama heldur en gagns, verði kyrrsett, það leiðir ekki til neins teljandi sparnaðar. Og svona óviðfelldnar þvinganir á alls ekki að lögfesta nema í þjóðarnauðsyn. En hér er engin þjóðarnauðsyn. Miklu fremur gæti orðið þjóðartjón að þessu ákvæði, því að ef við beitum alveg sérstökum reglum,sem meina Íslendingum að sækja önnur lönd heim, má búast við, að önnur lönd beiti okkur samskonar aðferðum að einhverju leyti. Slíkt myndi draga mjög úr þeim auknu tekjum, sem menn gera sér von um af auknum ferðamannastraumi. Ákvæðið er því að mínum dómi gagnslaust, óviðfelldið og getur orðið skaðlegt, og mun ég bera fram brtt. um að fella bað niður.

Ég leyfi mér einnig að bera fram tvær aðrar brtt. Önnur er um það, að meðal þeirra erlendu lána, sem ekki þarf sérstaklega að sækja um gjaldeyrisleyfi til að standa í skilum með (en þau sem sérstaklega er talað um í frv., eru lán ríkissjóðs og sem ríkissjóður ber ábyrgð á), meðal þessara lána verði einnig lán sveitar- og bæjarsjóða, sem ríkissjóður hefir ekki tekið beina ábyrgð á. Ég held það sé rétt hjá mér, að slík lán sé ekki leyfilegt að taka nema með samþykki ríkisins, og þá er svipuð siðferðisskylda að standa í skilum út á við eins og væri á þeim ríkisábyrgð. Mér hefir skilizt á formanni n. og hv. 1. þm. Rang., að þeir væru reiðubúnir til að ganga inn á þetta.

Loks leyfi ég mér að bera fram þá brtt., að útgerðarmenn megi nota þann gjaldeyri, sem þeir fá fyrir útflutningsvörur sinar, að svo miklu leyti sem þeir þurfa á að halda til þess að kaupa til þarfa sinnar eigin útgerðar. Þetta er gamalt og þekkt mál hér í hv. deild. Það lá fyrir í fyrra og hefði þá orðið samþ., ef við flm. hefðum gengið inn á að hnýta aftan í það því, sem við vorum mótfallnir. Frv. dagaði uppi af þeim ástæðum, en hafði meirihluta þingfylgis. Ég vil benda á, að í lögum annara þjóða eru svipuð ákvæði. En í lögum Dana er heimild til þess að undanþiggja frá afhendingarskyldu þann aðilja, sem getur sannað, að hann getur þurft að nota gjaldeyririnn til eigin þarfa áður en langt líður.

Ég sé ekki ástæðu til að láta fleiri skýringar fylgja minni sérstöðu í þessu máli, en leyfi mér að vænta, að brtt., sem ég flyt, geti náð samþykki hv. deildar.