16.11.1937
Efri deild: 28. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (1723)

50. mál, drykkjumannahæli

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég hefi hugsað mikið um þetta mál og talað fyrir því annarsstaðar. Á því er enginn vafi, að full þörf er fyrir drykkjumannahæli. Það er þegar orðin full nauðsyn, en það verður óhjákvæmilegt, ef haldið verður áfram á sömu braut og þjóðin virðist nú vera á. Ég hefi alltaf verið ákveðinn fylgismaður þessa frv. Mér finnst nú, að hv. allshn. ætti að afgreiða þetta frv. með smávægilegum úrbótum. Hv. nm. telja, að fjárhagurinn leyfi það ekki. að byggt verði drykkjumannahæli, en í þess stað á að leggja fram 25 þús. kr. til einhverra aðgerða á þessu sviði. — Hv. frsm. skýrði frá því, að sumir þessara drykkjumanna eyddu stórfé á örskömmum tíma, færu með allt sumarkaupið sitt á fáum dögum. Ef það er athugað, að þessir menn lenda svo á fátækraframfærslunni, þá er þetta ef til vill vafasöm sparnaðarráðstöfun. Og nú á að bæta úr þessu með að veita í þessu skyni 15–25 þús. kr. Ég vil gera fyrirspurn til hv. frsm., hvort n. hefir nokkuð athugað það, hvort hægt væri að fá stað fyrir þetta fé. Ef meiningin er sú, að koma slíkum mönnum á spítala, þá er það fyrirfram vitað, að það er ekki hægt, vegna þess hve allir spítalar eru yfirfullir. Það er því ekki um annað að gera en að útvega nýjan stað. Og til þess er sú fjárveiting, sem dagskráin gerir ráð fyrir, allt of lág. Ef á að borga starfsfólki og lækni, eru 25 þús. kr. horfnar fyrr en varir. Ég vildi fá upplýsingar um það, hvað n. hugsaði sér fyrir í þessu máli, áður en ég greiði atkv. um það. Ef meiningin er aðeins sú, að afgreiða frv. á kurteislegan hátt, lýsa því yfir, að menn sjái nauðsynina á að gera eitthvað, og haga svo ráðum sínum eins og hómópatar, lækna allt með smáskömmtum, þá er ég á móti rökst. dagskránni.