23.10.1937
Neðri deild: 9. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (1740)

25. mál, niðursuðuverksmiðjur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann sagði — og eyddi hann til þess mörgum orðum —, að sú aðferð, sem ég viðhafði, er ég gagnrýndi frv. sjálfstæðismanna í heild, væri ósæmandi. Hann kom aldrei inn á, í hverju það væri fólgið. Það skyldi þá helzt vera, að það væri ósæmandi að taka þessi frv. alvarlega í heild, eins og þau liggja fyrir. Ég verð að biðja hv. 6. þm. Reykv. afsökunar á því að hafa gert mig sekan í slíku. Ég taldi ekki með í þeim aðaltölum, sem ég nefndi, stofnkostnað Raufarhafnarverksmiðjunnar samkv. till. sjálfstæðismanna, af því það er ekki rétt að telja hann með á því ári, sem hún er byggð, því stofnkostnaður slíkrar verksmiðju fylgir ekki fjárl. næsta árs, þó bygging hennar verði samþ.

Hv. þm. sagði, að frv. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga færi ekki fram á nýjar álögur, en það er þó á þriðju millj. kr., sem á að renna til bæjarsjóðanna, en fór áður í ríkissjóð. Hv. þm. hefir ekki reynt að skýra, hvernig mæta eigi þessari skerðingu ríkissjóðsins, nema leggja á nýjar álögur í staðinn. Mér skilst, að annaðhvort verði að skera niður á fjárl. móti þessu frv. á 3. millj. kr., eða nýjar álögur yrðu að koma í staðinn.

Það var merkilegt, að þessi hv. þm. komst í slíka varnar-aðstöðu í sinni ræðu út af frv. sjálfstæðismanna, að hann fór að telja frv. um niðursuðuverksmiðju og hraðfrystihús það til gildis, að styrkurinn myndi ekki verða notaður, sem til þeirra er ætlaður. Mér fannst nokkuð langt seilzt til raka þar, þegar hv. 1. flm. frv. um niðursuðuverksmiðjur var búinn að lýsa því sem höfuðnauðsynjamáli sjávarútvegsins, sem mér skildist, að myndi snúa óáran upp í góðæri. Svo aðþrengdur um rök var hv. 6. þm. Reykv., að hann reyndi að gera að engu það, sem hv. 1. flm. hafði talið frv. til gildis.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það væri einkennilegt, að ég skyldi ekki vita, að Alþ. væri fyrst og fremst kallað saman til þess að sjá fjármálum ríkisins borgið. Já, það er einkennilegt, en finnst þessum hv. þm., að till. Sjálfstfl. hér á þingi beri vott um það, að Sjálfstfl. sé það ljóst, að þingið er kallað saman ekki sízt til þess að sjá fjármálum þjóðarinnar borgið?

Ég ætla ekki að fara út í fleiri einstök atriði í ræðu hv. þm., sem væri þó hægt að hrekja, en snúa mér að tveim aðalatriðum, sem annars komu fram í ræðum beggja þeirra hv. þm., sem töluðu gegn ræðu minni. Þeir halda dauðahaldi í þá fullyrðingu, sem minnzt er á í grg. frv., að núv. stjórnarflokkar og núv. ríkisstj. hafi reynt að lækna meinin í fjármálunum og atvinnulífi þjóðarinnar með atvinnubótavinnu og innflutningshöftum. Ég mótmælti því í fyrri ræði minni, og ég mótmæli því enn. Það er athugandi, að hvorugur þessara hv. þm. reyndi að færa rök fyrir þessari fullyrðingu. En þau rök, sem ég færi fyrir því, að þessi fullyrðing sé röng, eru þessi: Í frv. því til fjárl. fyrir árið 1938, sem liggur nú fyrir Alþ., og fjárl. á árinu, sem nú stendur yfir, og eins 1936 og 1935, er meira fé veitt til styrktar atvinnuvegunum, bæði til lands og sjávar, ekki sízt sjávarins, heldur en nokkru sinni fyrr á síðari árum, að undanskildum árunum 1929 og 1930 og ef til vill 1934. Til sjávarútvegsins hefir meira fé verið veitt beint á þessum árum heldur en nokkru sinni fyrr. Stefna stj.flokkanna er m. ó. o. sú, að fyrsta úrræðið sé að styðja atvinnuvegina, en meðan verið sé að framkvæma þann stuðning og verið er að rétta þá við, þá verði ekki hjá því komizt að hafa innflutningshöft og veita fé til atvinnubóta. Það kemur úr hörðustu átt, að það skuli koma frá fulltrúa kaupstaðar, eins og hv. 6. þm. Reykv. er, að talið sé eftir, að atvinnubótaféð hækki um 200 þús. kr. á tímabili, sem sá atvinnuvegur, sem framfærsla fólksins í kaupstöðunum byggist aðallega á, en það er sjávarútvegur, hefir orðið fyrir slíkum hnekki, að útflutningurinn hefir lækkað um 9 millj. kr. á árinu. Þegar þessa er gætt, þá má það teljast undarlegt af fulltrúa kaupstaðar að telja eftir 200 þús. kr. hækkun á atvinnubótafé og segja, að aðalúrræði stjórnarflokkanna felist í því, þó það sé vitað, að meira fé hefir verið veitt til að styrkja atvinnuvegina heldur en áður var.

Það var auðheyrt á hv. þm. G.-K., að hann treysti ekki meira en svo á þær röksemdir, sem hann hefir áður komið fram með. Hann fór að minnast á til viðbótar því, að ekki væri nægilega stutt að atvinnuvegunum af ríkissjóði, að þeim hefði verið íþyngt óbeint með ráðstöfunum framkvæmdarvaldsins á þessu tímabili, þar sem hver einstakur hlutur, sem þyrfti að kaupa til sjávarútvegsins, væri dýrari en áður var. Nú veit hv. þm. G.-K. það mjög vel, að flestar vörur hafa hækkað, ekki fyrir aðgerðir löggjafans, heldur vegna þess, að verðlagið hefir hækkað á erlendum markaði. Hv. þm, veit, að við tollaálagningar hefir verið reynt að sneiða hjá því að tolla vörur, sem færu beint til þess að halda uppi atvinnuvegunum, jafnframt því sem þeir hafa verið studdir með auknu framlagi af hálfu þess opinbera. Þetta miðar ef til vill að því, að smærri vörutegundir, sem tollur fellur á, hafa hækkað í verði, en hinar stærri vörutegundir til þessa atvinnuvegar hafa gersamlega sloppið við tollahækkanir og útflutningsgjaldið af síldarafurðum hefir verið lækkað á þessu tímabili.

Hvað það snertir, að vörur til útgerðar hafa hækkað vegna gjaldeyrishaftanna, þá er það fyrst að segja, að gjaldeyrishömlurnar hafa verið viðurkennd nauðsyn af öllum, þó það sé vond nauðsyn. Það hefir heldur ekki verið borið á móti því, að gjaldeyrishömlurnar hafi verið framkvæmdar þannig, að vörur til útgerðarinnar hafi verið látnar sitja fyrir þeim gjaldeyri, sem fyrir hendi hefir verið. Það er engin ástæða til að rengja skýrslur, sem bankarnir hafa gefið í þessu efni.

Það er sama, hvernig þessir hv. þm. reyna að klóra í bakkann. Það stendur sem staðreynd, að þessi frv., sem þeir flytja, eru viðurkenning á því, að sú pólitík, sem rekin hefir verið af núv. stjórnarflokkum um hækkun ríkisútgjalda vegna aukins stuðnings við atvinnuvegina, er rétt. Þessi frv. Sjálfstfl. eru viðurkenning á því, að sú stefna hafi verið rétt, hvernig svo sem þeir reyna að draga úr því, sem liggur augljóst fyrir.

Þá kem ég að hinu aðalatriðinu, eða því ábyrgðarleysi, sem lýsir sér í þeim till., sem Sjálfstfl. hefir borið fram á Alþ., þegar þær eru teknar sem heild, og ég álít, að ég hafi heimild til þess að gera, hvað svo sem hv. 6. þm. Reykv. telur sæmilegt af mér eða öðrum. Hver flokkur verður að standa ábyrgur sem heild gagnvart þeim till., sem hann gerir. Það er ekki hægt að slíta eitt atriði út úr samhengi. Hver flokkur hlýtur að leggja fram till., sem í heild verða að skoðast sem stefna flokksins, Ef þessar till. verða samþ., sem nú hafa komið fram — og vitanlega er von á mörgum fleirum —, þá myndi fjárl.frv. hækka um 3½ millj. kr., þó hv. 6. þm. Reykv. segi, að þessar tölur séu gripnar úr lausu lofti. Mér er kunnugt um, að langt frá þessari upphæð verður það ekki, sem fjárl.frv. hækkar um, ef till. sjálfstæðismanna verða samþ. Ég hefi hlýtt á andsvör þessara tveggja hv. þm. úr Sjálfstfl., og ég verð að segja, að ég er nákvæmlega jafnnær, eða þó öllu heldur fjær því að skilja, hvernig þeir ætla að vega upp þennan halla eða koma með till. sem gera þessi frv. frambærileg eins og þau liggja nú fyrir.

Ég ætla að fara um þetta nokkrum orðum. Hv. þm. G.-K. sagði, að ekki mætti gleyma því, að miklir möguleikar væru til þess að gera þrennt, að hækka greiðslur fjárl. til nauðsynlegra mála, t. d. þeirra mála, sem Sjálfstfl. vill hækka útgjöldin til, að lækka skatta, eða a. m. k. hækka þá ekki, og að skila hallalausum fjárl. Ég verð að segja, að ef hv. þm. tækist að sanna þetta eða gera þetta líklegt, þá er hér um mjög merkilega uppgötvun að ræða. Röksemdir þær, sem hann færði fyrir þessu, voru þær, að þótt hér væri um að ræða útgjaldaupphæðir fyrir ríkissjóðinn, þá væru þær þannig, að þær fjörguðu atvinnulífið, svo að tekjur ríkissjóðs af þeim sköttum og tollum, sem nú þegar eru í 1., hlytu að aukast við það, að þessir styrkir væru veittir. Þessi er hugsanagangurinn hjá hv. þm. í þessu máli. Nú veit hv. þm., að langmest af þeim greiðslum, sem færu í þessar 3½ millj. kr., eru ekki þannig vaxnar, að þær auki atvinnureksturinn á næstu árum, svo að þær auki tekjur ríkissjóðs. Hvernig ætti það t. d. að auka tekjur ríkissjóðs af eldri sköttum og tollum, þó kaupstaðirnir og bæjarfélögin fengju rúmar 2 millj. kr. af því fé, sem ríkissjóður fær nú? Það er ekkert, sem bendir til þess, að atvinnulífið myndi fjörgast svo við það, að vænta mætti aukinna tolltekna á næstu árum. Og þó nauðsynlegt sé að verja landhelgina, þá myndu þær 100 þús. kr., sem samkv. frv. sjálfstæðismanna á að verja til aukinnar landhelgisgæzlu, ekki skapa aukna tolla eða skatta á næsta ári, þó það yrði ef til vill óbeint á næstu árum. Jafnvel þó við tökum frv. um hraðfrystihús og niðursuðuverksmiðjur, þá eru þau svo smáfelld og seinvirk, að það eru engar líkur til, að í skjóli þeirra sé óhætt að hækka tekjuáætlanir fjárl. af eldri tollum. Hv. þm. hlýtur að skilja, að þessi útgjöld eru ekki þannig vaxin, að þegar á næsta ári sé hægt að vænta stórkostlegra tekna af þeim sköttum og tollum, sem nú eru í l. Við vitum það vel, að það er ekkert vit í þeirri afgreiðslu fjárl., að hækka útgjöldin á þennan hátt, eða hækka tekjuáætlanir fjárl. að óbreyttum sköttum og tollum, og gera ráð fyrir, að það verði bætt upp í auknum sköttum og tollum af eldri l. þegar á næsta ári. Við vitum vel, að sú aðferð, að hækka útgjöldin til styrktar atvinnuvegunum, hefir verið farin hér, en hún hefir verið farin með því að leggja á tolla á móti, til þess að jöfnuður haldist. Sumstaðar hefir verið farin sú leið, að auka greiðslur án þess að hækka tolla eða skatta á móti. Það hefir alstaðar haft í för með sér, að ríkisbúskapurinn hefir verið rekinn með halla í nokkur ár. Bein afleiðing af röksemdum hv. þm. er sú, að ef við ætlum að láta gömlu skattana halda sér, en auka útgjöldin til stuðnings atvinnuvegunum, þá verðum við að vera búnir við því, að ríkissjóður verði rekinn með verulegum halla fyrstu árin, eða þangað til stuðningurinn við atvinnuvegina er farinn að koma fram í auknum tollum og sköttum. Ef hv. þm. vill hugsa þetta til enda, þá hlýtur hann að komast að þeirri niðurstöðu, að afgr. eigi tekjuhallafjárl. í þeirri von, að síðar verði hægt að jafna hallann.

Þá kem ég að því atriði, að hér er ekki hægt að fara þessa leið, þó það sé hægt í einstökum löndum, þar sem hægt er að fá innlend lán. Fyrir okkur er ekki hægt að fara þá leið, að hafa nokkur ár tekjuhalla á fjárl., vegna þess, að það er ekki möguleiki á því að drífa upp það lánsfé innanlands, sem til þess þarf. Ef við ætlum að reka þessa pólitík í skjóli þess að fara til útlanda og fá þar lán til að greiða tekjuhalla á fjárl., þá mun það verða erfitt, nema við sækjum um leið um lán til nýrra framkvæmda. Það er þess vegna ekki hægt að reikna með því, að hægt sé að reka ríkisbúskapinn hér um verulegan tíma án þess að skapa jöfnuð á tekjum og gjöldum. Það er fyrirsjáanlegt, að ef við hækkum útgjöldin, þá verðum við að horfast í augu við þá köldu staðreynd, að við verðum að hækka tollana og skattana. Að lækka áætlanir á tekjulið fjárl. í því trausti, að útgjöldin myndu síðar skapa auknar tekjur, myndi hafa í för með sér áframhaldandi tekjuhallarekstur um ófyrirsjáanlegan tíma, a. m. k. þau ár, sem verið væri að koma hinum nýja atvinnurekstri af stað.

Auk þessa ber að benda á það, sem hv. þm. G.-K. hlýtur að vita, að jafnvel þó við gætum aukið útflutninginn með niðursoðnum fiski og frystum fiski, þá eru meiri en nóg not fyrir það til þess að greiða þann vöruinnflutning, sem nú er, og þær greiðslur, sem við verðum að borga, því það eru engar líkur til, að við gætum lækkað á vöruinnflutningnum á næstu árum, þó það tækist að skapa útflutning með slíkum styrkjum.

Mér virtist hv. þm. G.-K. vera mér sammála um það, að við þyrftum að afgr. greiðsluhallalaus fjárl. Það, sem okkur greinir á um, er, að hann vill treysta á auknar tolltekjur vegna aukinna framkvæmda, og án þess að hækka tollana og skattana. En ég segi, að það sé ekki hægt, jafnvel þó niðursuðuverksmiðja og frystihús væru styrkt, og við yrðum því að hækka tollana og skattana til þess að vega upp á móti nýjum greiðslum, sem samþ. væru á þessu þingi. Það á sér að mínum dómi enga stoð í veruleikanum, að kasta trausti sínu á slíka tolla- og skattaaukningu í náinni framtíð, jafnvel þó þessar till. sjálfstæðismanna, sem hafa í för með sér 3½ millj. kr. aukinn halla á fjárl., væru samþ.

Ég skal svo ekki tefja þessa umr. miklu meira. Ég ætla að segja það að lokum, að mér finnst hv. 1. flm. málsins ekki enn hafa svarað þeim fyrirspurnum til neinnar hlítar, sem ég beindi til hans í fyrri ræðu minni, og ég ætla þess vegna að minnast á þær að nýju. Það, sem ég þarf að fá úr skorið, er það, hvort beri að líta á þau frv., sem hér eru flutt af einstökum sjálfstæðismönnum, sem markleysu, sem í raun og veru er ekki gert ráð fyrir, að verði samþ., eða hvort Sjálfstfl. ætlar sér að vera með nýjum tekjum til handa ríkissjóði til þess að mæta útgjöldum af þessum frv., ef þau yrðu samþ., eða hvort Sjálfstfl. ætlar aðeins að treysta á, að auka megi áætlanir fjárl. í von um, að þessi útgjöld gefi af sér auknar tekjur í ríkissjóð í framtíðinni, og afgreiða þá fjárl. með tekjuhalla. Eða ætlar Sjálfstfl. sér að leggja til, að skorið verði niður á fjárl. til þess að mæta útgjöldum, sem nú þegar nema um 3½ millj. kr.?

Af því að hv. þm. G.-K. byrjaði undir umr. þessa máls að tala almennt um stefnu Sjálfstfl. í atvinnu- og fjármálum, þá taldi ég rétt að taka þátt í þessum umr. á þennan hátt, þó það megi segja, að efni þessa frv. gefi ekki tilefni til að fara svo almennt út í málið. En þar sem hv. þm. hélt hér yfirlitsræðu um stefnu Sjálfstfl. í þessum efnum, þá taldi ég sjálfsagt að koma inn á þessi mál, til þess að fá fram vilja Sjálfstfl. í þessum efnum.

Hv. þm. G.-K. sagði, að það sæti ekki á mér að lýsa eftir skoðun sjálfstæðismanna um það, hvernig þeir ætli að mæta þessum 3½ millj. kr., sem halli fjárl. eykst, ef þessi frv. yrðu samþ., þar sem ég hefði ekki enn lagt fram neinar till. um það, hvernig ég ætli að jafna þann halla, sem nú er á fjárl. Ég svara hv. þm. G.-K. því, að eins og hann veit, þá standa yfir samningaumleitanir milli Framsfl. og Alþfl., svo þess vegna er ekki við því að búast, að einstakir menn úr þeim flokkum sjái ástæðu til að leggja fram slíkar till., sem myndu marka stefnu, fyrr en þær samningaumleitanir eru til lykta leiddar eða strandaðar. Mér finnst ekki gegna sama máli um afstöðu Sjálfstfl. í þessum efnum, þar sem mér er ekki kunnugt um, að hann standi í slíkum samningum, og þar sem hann skilar hiklaust sínum till. um aukin útgjöld og skerðingu ríkissjóðsteknanna. En Framsóknarfl. og Alþfl., sem eru að reyna samninga, hafa enn ekki lagt fram sínar till. um hækkun ríkisútgjalda. Á sínum tíma munu verða gerðar till. um þetta af þeim, sem að fjárlagafrv. standa, sameiginlega af flokkunum, ef. samkomulag næst, en annars sérstakar till. frá hvorum flokki fyrir sig.

Ég get fallizt á það, að hv. þm. G.-K. eigi sjáifur rétt á að fá einhvern frest til að svara þessum beinu spurningum, en þess verður að krefjast, að hann svari þeim, áður en þessu þingi lýkur. (ÓTh: Ég er nú búinn að svara þessu tvisvar í dag). Það eru engin svör, og er ómögulegt að fá neinn botn í það, hvað hv. þm. meinar.