20.10.1937
Neðri deild: 6. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (1766)

15. mál, hraðfrystihús fyrir fisk

*Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Snæf. hefir talað á við og dreif um þetta mál og nokkuð uppi í skýjunum, en ég mun halda mig við jörðina.

Það er þá fyrst af þessum málum að segja. að það voru auðvitað núv. stjórnarfl., sem komu krafti á þau. Áður en fiskimálanefnd kom til, hafði tiltölulega litið verið gert á þessu sviði. Var þá eingöngu sænska frystihúsinu til að dreifa.

En nú er þetta mál komið á góðan rekspöl og hefir víða verið komið upp frystihúsum. Það má segja, að markaðurinn sé aðallega takmarkaður við tvö útflutningsfyrirtæki, sænska frystihúsið og fiskimáianefnd. Að vísu hefir lítið eitt verið flutt út til Skotlands frá tveimur öðrum fyrirtækjum. Annað þessara fyrirtækja, sem er á Ísafirði, hefir aðallega flutt út stærsta fiskinn, en það hefir reynzt heldur óheppilegt.

Nú, þegar verið er að athuga framtíð frystihúsanna, þá verðum við fyrst og fremst að aðgæta markaðinn og hvað hægt sé að selja. Það er ekki nóg, eins og hv. þm. Snæf. hugsar sér, að breyta saltfiskinum í hraðfrystan fisk, heldur verður einnig að finna kaupendur að honum. Bretland er nú aðalkaupandinn að hraðfrystum fiski, en ennþá hefir ekki fengizt fastur markaður á öðru en flatfiski. Fyrir þær fisktegundir, sem mest er af, hefir ekki fengizt markaður. Og þegar um það er að ræða að koma upp frystihúsum, verður að hafa það í huga, hvort markaðurinn geti þolað þau, og því hefir ekki verið svarað á þann hátt, sem maður gæti búizt við eftir ræðu hv. þm. Snæf.

Það er að vísu vonandi, bæði að markaðurinn vaxi í Englandi og eins að hægt verði að ná markaði í öðrum löndum, en þetta þarf að hafa sinn tíma. Það er ekki hægt að gera allt í einu. En það virðist af þessu frv., að ekki sé nægilegt tillit tekið til þessa, og sama má segja um ræðu hv. þm.

Fiskimálan. hefir farið þá leið, sem virðist eðlilegust, sem sé að athuga þau frystihús, sem til eru. Hún hefir fengið mann, sem á að þessu leyti að vera sérfræðingur, — þó við getum kannske ekki talað um neinn fullkominn sérfræðing í þessum efnum, — til þess að fara um landið og athuga þau frystihús, sem fyrir eru, og gera till. um það, hvernig megi bæta þau. Síðar kemur svo til álita um það, hvort reisa beri ný.

Viðvíkjandi Ólafsvík vil ég taka það fram, að fiskimálanefnd bauð útgerðarmönnum þar að kaupa af þeim afla þeirra til hraðfrystingar og sækja hann þangað, en útgerðarmenn urðu ekki við þessu.

Hv. þm. minntist á, að það þyrfti að fara að byggja sérstakt skip, til þess að flytja frystu fiskinn til útlanda. Ég hygg, að það sé ekki komið að því, þótt það verði síðar. Ég hygg, að það sé nægilegt í bráð, sem fiskimálanefnd lagði til við Eimskipafélagið, að Brúarfoss yrði látinn ganga í staðinn fyrir Dettifoss. Einnig má geta þess, að fiskimálanefnd styrkti Eimskipafélagið með 25 þús. kr. til að koma upp kælirúmum í Dettifossi, og má því segja, að þetta mál sé leyst í bráð.

Við alþýðuflokksmenn höfum borið fram till. áður viðvíkjandi hraðfrystihúsum og munum gera það bráðlega á þessu þingi. En ég lít svo á, að verði farið að setja sérstök lög um þetta, þá ætti að setja frekari takmarkanir en hér er um að ræða. Fyrst og fremst get ég ekki séð, að neina nauðsyn beri til þess að styrkja byggingu frystihúsa undir öllum kringumstæðum; ef fyrirtækið ber sig vel, ætti að nægja lán. Og um einstakra manna fyrirtæki er það að segja, að það er engin ástæða til að geta mönnum stórfé úr ríkissjóði.

Þá er bráðnauðsynlegt að setja ákvæði um það, að verði slík frystihús seld aftur, þá sé ekki hægt að selja styrkinn. Einnig þarf að setja ákvæði um það, að menn hafi aðgang að þessum frystihúsum og fyrir hvaða verð. Sé hinsvegar um félagsskap, t. d. samvinnufélagsskap að ræða, er allt öðru máli að gegna.

Sem sagt, við Alþfl.menn erum mjög fúsir til að afgr. þetta mái á einhvern hátt á þessu þingi, og við væntum þess, að það geti orðið samkomulag um það.