26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (1885)

44. mál, sumarvinnuskóli alþýðu

Thor Thors:

Hugmyndin, sem liggur á bak við þetta frv., hefir oft verið rædd hér áður, þar sem bornar hafa verið fram af ýmsum flokkum till. um að reyna að draga úr atvinnuleysi unglinga. Eins og flm. sagði, þá er varla alvarlegra böl til í okkar þjóðfélagi en atvinnuleysið, en þó er atvinnuleysi unglinga e. t. v. hættulegast af öllu, þar sem það getur haft svo mikil áhrif á framtíð þeirra ungu manna, sem við það búa. Á síðasta Alþ. var borið fram frv. af hálfu sjálfstæðismanna um allsherjarframkvæmd á slíkri vinnu, sem framkvæmd hefir verið undanfarin ár. Það frv. dagaði uppi, sem og frv. Sigurðar Einarssonar, en var afgr. með þáltill. í Nd., sem var byggð á till. hv. 2. þm. Árn., en Gunnar Thoroddsen bar fram brtt. við hana, sem var samþ. og var um það, að stofna nefnd, þar sem hver stjórnmálaflokkur ætti einn fulltrúa, og átti hún að rannsaka þetta mál og gera till. um, hvaða ráð mundu vera bezt til að ráða fram úr atvinnuleysi ungra manna. Í till. þessari segir, með leyfi hæstv. forseta: „Skal nefndin meðal annars miða till. sínar við það, að unglingar hljóti verklega og bóklega kennslu og verði fyrir hollum uppeldisáhrifum, að stofnað verði til sjálfboðavinnu við þjóðnytjaverk, og að ráðstafanir vegna atvinnulausra unglinga dragi sem minnst úr atvinnumöguleikum fullorðinna manna.“

Þessi nefnd var skipuð, og það er einn fulltrúi frá hverjum stærsta stjórnmálaflokkinum í henni. Nefndin hefir enn ekki skilað áliti sínu, enda er þess ekki að vænta; það er úr miklu að vinna og nefndin mun hafa haft takmarkaðan lima, en ég hefi heyrt, að hún hafi skrifað mörgum hreppstjórum og skólastjórum landsins og spurt, hvort atvinnuleysi meðal unglinga ætti sér stað þar, sem þeir þekktu til, og beðið um till. þeirra til að ráða bót á því.

N. mun ætla að leggja till. sínar og álit fyrir næsta Alþ., sem mun koma saman í febrúar næstkomandi. Áður hefir komið fram mikill áhugi fyrir þessu máli og fullt samkomulag hefir náðst um tilraunir til þess að ráða fram úr þessu vandamáli. Tel ég því athugandi, hvort afgreiðsla þessa máls atti ekki að bíða eftir till. n. á næsta Alþ. Það ætti ekki að gera þessu frv. neitt til, þar sem þar er aðeins um sumaratvinnu að ræða og næsta Alþ. gæti því afgr. það nægilega tímanlega.

Það er ekki heldur þörf nú bráðrar lausnar þessa máls vegna samskonar vinnu og þeirrar, sem Reykjavíkurbær hefir látið framkvæma undanfarið í þessu skyni. Því að einmitt þessa dagana er verið að safna skýrslum í bænum um atvinnulausa unglinga, og það er meiningin, að vinnuskóli þeirra taki til starfa nú eftir mánaðamótin. Ég get annars sagt það, að mér líkar vel sú hugmynd, sem fram er komin í þessu frv., þar sem rík áherzla er lögð á það, að þau áhrif, sem unglingarnir verði fyrir í þessari vinnu, verði sem heillavænlegust, og keppt er eftir að glæða áhuga þeirra á félagslífi og samtökum og kenna þeim að bera virðingu fyrir vinnunni, frelsi þjóðarinnar og lýðræðinu. En það er svo um þetta talað í 6. gr. þessa frv. En ég kemst ekki hjá því að geta þess, að þessi hugmynd um frjálsa vinnu unglinganna er nokkuð svipuð því, sem tíðkast í Þýzkalandi. Þar er að vísu um vinnuskyldu unglinga að ræða, „Arbeitsdienst“, en upphaflega var þetta á frjálsum grundvelli. Og það hefir einmitt verið lögð sérstaklega rík áherzla á að glæða ættjarðarást þessara unglinga og virðingu fyrir því ríki, í hvers þágu þeir vinna, alveg eins og ætlazt er til í þessu frv., að virðing unglinganna sé glædd fyrir okkar stjórnarháttum og lýðræði. Þessi vinna unglinganna í Þýzkalandi hafir gefizt mjög vel, að því er talið er. Og við þurfum ekki að fyrirverða okkur fyrir að sækja fyrirmyndina þangað, enda þótt mér komi nokkuð einkennilega fyrir, að hv. flm. skuli sækja hugmyndir þangað. En það er að sjálfsögðu rétt að taka góða hluti, hvaðan sem þeir koma. Það má t. d. geta þess, að hinn frjálslyndi stjórnmálajöfur Lloyd George, sem ferðaðist um Þýzkaland fyrir tveimur árum, dáðist sérstaklega mikið að því, hvað þessi vinna unglinganna væri þroskarík fyrir þá og hefði góð uppeldisáhrif, jafnframt því sem þeir ynnu fjölmörg þjóðnytjastörf, sem að öðrum kosti yrðu að bíða.

En það fer ekki hjá því, að af framkvæmd þessarar hugmyndar leiðir verulegan kostnað fyrir ríkissjóð. Hv. l. flm. talaði um 250 þús. kr. Ég hafði verið að leggja þetta niður fyrir mér og fannst ekki, að um minna gæti verið að ræða en 200 þús. Ef um 500 unglingar stunda þessa vinnu, er kaupgjald þeirra samtals 67500 kr. Fatnaður til þeirra verður aldrei minna en 50 kr. á hvern einstakling, eða 25 þús. kr. samtals, því að það er ætlazt til, að þeim sé lagður til skófatnaður, verkamannaföt og hlífðarföt. Ennfremur eiga þeir að fá ókeypis fæði, en það verður varla reiknað lægra en 75 kr. á mánuði, eða 37500 kr. á mánuði samtals, en á þriggja mánaða námskeiði samtals 112500 kr. Þetta allt er samtals yfir 200 þús. kr., og þá er eftir að reikna kennslu, ferðir vinnuflokka og ýmislegt annað, svo að sennilega er það varlega reiknað hjá vegamálastjóra að telja kostnaðinn af þessu verða um 250 þús. kr.

En nú höfum við fengið að heyra það, þingmenn sem borið höfum fram frv., sem fela í sér einhver útgjöld fyrir ríkissjóð, að við séum að fremja þar skrípaleik nema við samtímis bendum á einhverja tekjuaukning fyrir ríkissjóð. Ég verð þess ekki var, að í þessu frv. sé bent í neinar nýjar tekjur til að rísl undir þessum útgjöldum. Við sjálfstæðismenn höfum líka fengið það framan í okkur, að okkur þýði ekki að bera fram frv., af því að öll mál væru í samningum milli stjórnarflokkanna. Nú vil ég spyrja, hvort um þetta mál sé þegar samið milli stjórnarflokkanna, eða hvort flm. eru að fremja samskonar atferli og okkur sjálfstæðismönnum er borið á brýn, þegar við berum fram frv. um atvinnufyrirtæki, sem þarfnast nokkurs styrks úr ríkissjóði.

Annars er um þetta frv. að segja, að það leysir ekki nema að nokkru leyti úr þessu vandamáli. Því að hér er eingöngu miðað við sumaratvinnu unglinga. En nú hagar svo til í okkar þjóðfélagi, að það er kannske einna auðveldast fyrir unglinga að fá atvinnu yfir sumartímann, einkum þegar síldveiði er mikið stunduð, og ennfremur munn margir þeirra eiga kost á vinnu í sveit. Atvinnuleysi unglinga verður einna tilfinnanlegast að haustinu og yfir veturinn. Og þetta frv. bendir ekki á neina lausn á því ófremdarástandi, sem verið hefir á þessu sviði um þetta leyti árs. Ég tel þessa hugmynd vera góða, það sem hún nær, og til heilla horfa. En ég tel eðlilegt, að menntmn., sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, setji sig í samband við milliþn. þá, sem síðasta Alþingi skipaði til að rannsaka þessi mál. Og ég tel það einnig eðlilegt, að Alþingi reyni að leysa þessi mál í heild. Ég er flm. algerlega sammála um það, að miklu böli verði aflétt, ef hægt værri að bæta úr því ástandi, sem verið hefir í þessum málum. Og ég tel fyrir mitt leyti fyllilega þess vert, að ríkissjóður kosti nokkru til þess. En mér finnst, að ríkið gæti tryggt sér meira á móti heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það mætti láta þessa unglinga vinna að nytjastörfum, sem meira eru aðkallandi og fyrr koma í hag heldur en ýms þau atriði, sem tilgreind eru í 4. gr. þessa frv. Við vitum, að það eru ákaflega mörg nytjaverk, sem bíða úrlausnar hér á landi og þarfnast bráðra aðgerða. Mörg þeirra mætti láta unglinga vinna án þess að atvinnumöguleikar fulltíða manna séu nokkuð skertir. Við skulum taka til dæmis vegalagningar í sveitum. Fjölmargar sveitir eru í megnustu vandræðum vegna ónógra samgangna. Nú er árlega á fjárlögum varið smávegis fjárveitingum til vegalagninga hér og hvar, oft svo lítilfjörlegum, að það kemur varla að nokkru gagni. Því mætti ekki láta þessa vinnuflokka vinna eitthvað að því að leggja vegi — jafnvel þjóðvegi — um landið? Það kemur ekki í bága við atvinnumöguleika hinna fulltíða manna. Þessi verk yrðu aðeins óunnin, ef ekki er hægt að láta hina ungu menn sinna þeim. Og ef farið yrði inn á það að leyfa þessum vinnuflokkum að sinna verkefnum, sem fljótlega koma ríkinu og þjóðinni að gagni, þá kæmi meira á móti því fé, sem ríkissjóður leggur fram, og gæti jafnvel nálgazt það, að ríkið fengi fulla greiðslu fyrir þá fjármuni, sem það leggur fram í þessu skyni. Mætti samtímis ná alveg eins þeim tilgangi, sem mjög virðist vaka fyrir flm., að hafa heillavænleg uppeldisáhrif á unglingana. Vinnutíminn er að sjálfsögðu takmarkaður í frv., enda vinnan ekki nema annar þáttur þessa máls. Kennslan og uppeldið, sem hér ber að leggja stund á, er engu siður merkur þáttur. Og ég vil svo enda mál mitt með því að lýsa yfir fylgi mínu við þá hugmynd, sem í frv. felst, en vænti þess, að menntmn. taki málið fyrir á almennari grundvelli.