26.10.1937
Neðri deild: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (1889)

44. mál, sumarvinnuskóli alþýðu

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er í sjálfu sér enginn vafi á því, að þetta er stórmál, sem þarf að gera skil, enda var Alþ. sammála um það í vor, er það skipaði milliþinganefnd til þess að rannsaka það. En þó að menn hafi vakandi auga fyrir þessu, þá verður samt að gæta hins, að ekki sé svo langt gengið í þeim ráðstöfunum, sem gerðar yrðu, að unga fólkið yfirleitt dragist frá því að vinna að framleiðslustörfum eða atvinnuvegum landsmanna og hylltist meira að þeirri vinnu, sem hér er verið að tala um. Mér finnst sem sagt, að allir þeir möguleikar, sem standa í sambandi við atvinnurekstur landsmanna, verði fyrst og fremst að notast, og að þær ráðstafanir, sem síðar eru gerðar, séu miðaðar við það, að þeir möguleikar séu notaðir til fulls. Ég hefi ekki heyrt á það minnzt hér við þessar umr., hvernig unga fólkinu hafi gengið í sumar sem leið að komast í vinnu. Og ég hefi ekki heldur heyrt frá hv. flm., sem kannske er ekki von, þar sem um þetta mál hefir ekki verið svo mikið rætt ennþá, á hverju það er byggt, að 500 unglingar skuli eiga kost á þessari skólavist, þegar þetta mál kemur til framkvæmda.

Það hefir heldur ekkert verið á það minnzt hvort vinnumiðlunarskrifstofan í Reykjavík hafi orðið þess vör, að ekki væri hægt að útvega þeim unglingum vinnu, sem um það sæktu. En það finnst mér vera aðalatriðið í þessu máli, því að ég skil ekki, að það kapphlaup um að greiða fyrir ungu fólki eigi að ganga svo langt, að ekki sé gert ráð fyrir því, að það starfi eftir því sem mögulegt er að framleiðslustörfunum. Og mér skilst, að það geti ekki verið æskilegast, að allir unglingar fari á þá stofnun, sem hér er um að ræða, heldur hljóti það frekar að kallast neyðarúrræði, og er ég þó ekki að gera lítið úr nauðsyn þessa máls.

Mér er kunnugt um það, að sá maður, sem mest hefir sett sig inn í þessi mál, Lúðvík Guðmundsson skólastjóri, er þeirrar skoðunar, að eins og sakir standa sé ekki tímabært að setja um þetta framtíðarlöggjöf, því að málið sé enn það mikið á tilraunastigi. Og leikur mér grunnur á, að hann hafi haft samband við milliþinganefndina, sem um þetta mál hefir fjallað, og mætti ef til vill rekja til þess orsökina, að n. hefir ekki ennþá séð ástæðu til að skila áliti. Þetta eru að vísu bara getgátur einar hjá mér. Þessi maður hefir nú í hyggju að sigla til þess að kynna sér frekar framkvæmd þessara mála erlendis, og hefir ríkisstj. fyrir sitt leyti heitið honum nokkrum stuðningi til þess. Og ég hefi lagt það til, að ekki sé einungis haft samráð við milliþinganefndina, heldur sé beinlínis beðið eftir till. frá þeirri n. um þetta mál, áður en þingið lætur nokkuð frá sér fara um það, því að mér finnst það varla sæmandi, að Alþ. skipi milliþinganefnd, en bíði svo ekki eftir áliti hennar, þar sem hún hefir ekki setið lengur á rökstólum en síðan í vor. Ég vil sem sagt hvetja til þess, að beðið sé eftir till. mþn., og helzt einnig eftir till. þess manns, sem mest hefir kynnt sér þessi mál, Lúðvíks Guðmundssonar.