12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

80. mál, jarðræktarlög

Jón Pálmason:

Ég get sagt eins og hv. 2. þm. Skagf., að þetta mál fer sennilega til n., sem ég á sæti í. Ég ætla því ekki að ræða málið sjálft, en hinsvegar voru nokkur atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég vildi víkja að, af því að ég fann, að þar var rangt með staðreyndir farið.

Í fyrsta lagi var það rangt, að það hefði komið í ljós, að meiri hl. bænda hér á landi hafi samþ. 17. gr. núgildandi jarðræktarl. Þvert á móti kom í ljós, að mikill meiri hl. var andvígur henni. Atkvgr. í búnaðarfélögunum átti fyrst og fremst við fyrsta kafla jarðræktarl. Og það er rétt, að meiri hl. var með því að láta hann standa. Hvað 17. gr. snertir, er öðru máli að gegna. Og ég furða mig á því, að hv. síðasti ræðumaður, búnaðarmálastjórinn, sem lýtur þó að hafa verið kunnugt um, hvernig atkvgr. fór fram, skuli halda því fram, að meiri hl. hafi verið fylgjandi 17. gr. Hinsvegar verður að játa, að það var ekki í öllum búnaðarfélögunum tekin föst afstaða til 17. gr. og hún ekki tekin fyrir til atkvgr. sérstaklega.

Hitt atriðið, sem ég vildi mótmæla, er það, að í frv. mínu og hv. þm. Borgf. séu samskonar ákvæði og þessi í jarðræktarl. Þar er tekið fram, að meðan skuld hvílir á viðkomandi jörð fyrir byggingu, megi ekki fara með jörðina nema eins og þar er tilskilið, og það sjá allir, að þar er um gerólíka hluti að ræða. Í því sambandi vil ég geta þess, að við töldum ekki ástæðu til að koma með brtt. við þá gr., sem um þetta fjallar, því sannleikurinn er sá, að ekki hefir komið í ljós í starfsemi byggingar- og landnámssjóðs, að hún hafi hindrað menn í því að nota sér þau hlunnindi, sem sjóðurinn hefir að bjóða. Ég vil mótmæla því, að þarna sé um hliðstætt atriði að ræða.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara fleiri orðum um þetta frv., því að mér gefst síðar tækifæri til að ræða þau atriði, sem ég hefi komið hér inn á.