12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (1973)

80. mál, jarðræktarlög

Steingrímur Steinþórsson:

Hv. flm., þm. V.Sk., gerði mikið úr því, að þetta frv. mundi hafa farið í taugarnar á mér, en sjálfur hefir hv. þm. viðhaft þvílíkt orðbragð í sinni ræðu, að einsdæmi mun vera í sölum Alþingis, þar sem hann talar um, að ég hafi farið um sem ræningi. Ég hygg, að þau orð, sem ég sagði í fyrstu ræðu minni, hafi farið svo í taugarnar á hv. þm., að hann hafi ekki vitað, hvað hann sagði, því að ég geri ráð fyrir, að samkv. þeirri menntun, sem hann hefir fengið á yfirborðinu, kunni hann þá mannasiði, að hann viti, hvernig menn eigi að haga orðum sínum hér á þingi.

Ég skal ekki fara frekar út í þá hluti, því að mér er hjartanlega sama, hvaða álit hv. þm. V.-Sk. hefir á mér og mínu starfi, og ég tek ekkert mark á því, hvort hann kallar mig ræningja eða þjóf og öðrum slíkum nöfnum.

Ég ætla fyrst að segja örfá orð viðvíkjandi því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði. Hann hélt því fram, og hv. þm. V.-Sk. líka, að það væri mjög rangt, sem ég hafði sagt, að meiri hl. búnaðarfélaga landsins hefði talið sig samþykkan jarðræktarl. í höfuðatriðum. Þessir hv. þm. sneru báðir við mínum orðum. Ég nefndi í þessu sambandi. ekki sérstaklega 17. gr. jarðræktarl., heldur höfuðatriðin, sem falizt hefðu í nýju jarðræktarlögunum. Ég verð að taka það fram aftur, að þetta er rétt, og þessir hv. þm. geta ekki mótmælt því. Hv. þm. V.-Sk. var að tala um einhverja skýrslu, sem gefin hefði verið út um þessa atkvgr., og þar hefði sýnt sig, að mikill meiri hl. hafi verið á móti 17. gr. laganna. Þetta er alrangt. Það var mjög lítill hluti við atkvgr. á móti 17. gr., ekki yfir 25%. Það voru ekki greidd atkv. um 17. gr. sérstaklega nema í einstaka tilfelli, en það er rétt, að þegar greidd voru atkv. um 17. gr. sérstaklega, þá voru heldur fleiri á móti en með, en í flestum samþykktunum var komizt þannig að orði t. d., að fundurinn telji sig fylgjandi jarðræktarl. í meginatriðunum og telur þau til bóta frá því, sem áður var. Þetta tel ég fylgi við 17. gr., og ég hygg, að þessir hv. þm. geti ekki neitað því. Þess vegna var skýrslan um 17. gr. alröng, því að hún segir rangt til um niðurstöðu málsins. Ég held því ákveðið fram, að af því atkvæðamagni, sem fram kom í hreppabúnaðarfélögunum, hafi verið innan við 1/3 hluta andvígur 17. gr. Þess vegna vísa ég algerlega á bug þeim svigurmælum, sem báðir þessir hv. þm. höfðu í frammi, að ég hafi farið með rangt mál í þessu efni.

Þá var það ekki rétt haft eftir hjá hv. þm. A.-Húnv., að ég hefði sagt, að það væri samskonar ákvæði í frv. hans um byggingarsjóð sveita eins og í 17. gr. jarðræktarl. Ég sagði aldrei, að það væri samskonar ákvæði, heldur ákvæði, sem stefndi að því sama, að því að hindra, að fé, sem ríkið leggur til umbóta sem styrk eða vaxtalaust framlag, væri hægt að nota til þess að braska með, þannig að hægt væri að gera það að lánsfé aftur. Þetta sagði ég. Það er sorgleg saga, að fé, sem veitt hefir verið til umbóta í sveitum, hefir flutzt aftur til kaupstaðanna. Fjármagnið streymir úr sveitunum gegnum jarðasöluna; bændur selja jarðir sínar og fara með fjármagnið í kaupstaðina og byggja sér þar hús. Það er þessi fjárflótti úr sveitunum til kaupstaðanna, sem hefir verið mesta bölvun og mein fyrir íslenzkan landbúnað á undanförnum áratugum. Þangað til menn eru búnir að fá augun nægilega opin fyrir þessu og vinna að því, að þessi fjárstraumur verði stíflaður, er ekki um verulega viðreisn að ræða fyrir sveitirnar. 17. gr. jarðræktarl. stefnir einmitt að þessu ásamt ýmsum öðrum ákvæðum í lögum, sem sett hafa verið á síðustu árum. Það eru jafnvel ýmsir menn í Sjálfstfl., eins og t. d. hv. þm. A.- Húnv., farnir að sjá þetta, og þess vegna hefir hann borið fram ákvæði í frv. sínu eins og það, sem hér um ræðir. Ég ætti ef til vill að vísa til þeirra umr., sem urðu á sinum tíma um byggingar- og landnámssjóð. Það hefði sjálfsagt þótt saga, ef það hefði verið sagt, að þm. úr Íhaldsfl., eins og hann hét þá, mundi 8–9 árum síðar flytja alveg samskonar till. eins og var í þessari frægu 9. gr. byggingar- og landnámssjóðslaganna, sem mest var skammazt út af á sínum tíma. En svo langt er komið, að Framsfl. hefir tekizt að ala upp réttan skilning á þessu máli hjá andstöðuflokki okkar, Sjálfstfl.

Þá verð ég að segja dálítið út af ræðu hv. þm. V.-Sk., sem var að vísu ekkert annað en fullyrðingar og sleggjudómar, án þess að nokkursstaðar væri reynt að koma nálægt kjarna málsins, kryddað með persónulegum svívirðingum. Það, sem hann sagði, var rangt. Hann sagði t. d., að þessu jarðræktarfrv. hefði verið ungað út í skipulagsnefnd, eða Rauðku, sem ekki hefði fengið góða grafskrift. Petta er alrangt hjá hv. þm., og ég vil segja honum, að það hefði verið miklu betra fyrir hann að afla sér réttra upplýsinga um málið áður en hann stendur upp hér á Alþingi til þess að segja hluti, sem hægt er að sanna strax á eftir, að eru algerlega rangir. Skipulagsnefnd hafði aldrei með málið að gera. Frv. var samið af nefnd, sem skipuð var af forsrh., og í henni voru Jörundur Brynjólfsson, Gunnar Þórðarson, bóndi í Grænumýrartungu, og Jón Hannesson, bóndi í Deildartungu. Það er rétt, að ég var beðinn um að aðstoða n. við að athuga frv. Þessi n. undirbjó frv., og engin önnur. Þetta veit hv. þm., en svo stendur hann upp og heldur ræðu um það, að þessu frv. hafi verið ungað út í skipulagsnefnd. Hv. þm. V.-Sk. fullyrti, að 17. gr. hefði verið felld, ef hún hefði verið borin undir atkv. bænda landsins áður en lögin voru sett, og einnig gekk ræða hans mikið út á það, að bændur landsins hefðu ekki þorað að segja skoðun sína á lögunum, af því að þingið hefði verið búið að setja þau. Þeir hefðu samþ. þau, hvort sem þeir voru þeim samþykkir eða ekki. Meiri lítilsvirðing á bændum landsins en þetta hefir aldrei heyrzt hér á þingi, að bera það á bændur, að þeir séu svo miklar höfðingjasleikjur, eða hvað maður á nú að segja, að þeir þori ekki að segja sína skoðun á gerðum alþingis. Ég er hissa á því, að þessi hv. þm., sem er þm. fyrir bændakjördæmi, skuli leyfa sér að koma með slíka aðdróttun í garð bændastéttarinnar eins og þessi ummæli eru.

Þá var það rangt, eins og annað, að ég hefði haldið því fram, að það hefðu aðeins nokkrir menn í landinn verið óánægðir með jarðræktarlögin nýju. Það hefir mér aldrei dottið í hug að segja, en hv. þm. hefir fundizt rétt að hagræða orðum mínum, svo að hann gæti búið til endileysu úr þeim. Ég tók það fram, að meiri hl. hreppabúnaðarfélaganna hefði talið sig samþykkan meginstefnu jarðræktarl. Þetta voru mín orð. Ég veit vel, að það var allmikill minni hl., sem var andvígur jarðræktarl.

Hv. þm. talaði um, að ég hefði vísvitandi farið einhverja ránsferð um landið í sambandi við þessi jarðræktarlög. Ég skil ekki þennan hugsanagang hjá hv. þm., og verður ef til vill að virða mér það til vorkunnar. Ég veit ekki, hvað hann meinar með þessu, en ég hefi alltaf heyrt, að með ránsferðum væri átt við það, að menn stælu, líkt eins og ég hefði farið um landið, rekið saman kvikfénað bænda, stolið peningum eða öðru slíku, og ef þetta hefði ekki verið sagt hér á þingi, geri ég ráð fyrir, að ég hefði látið hv. þm. staðfesta orð sín annarsstaðar, en ég legg ekki svo mikið upp úr ummælum hans, að ég vilji biðja þingið um að leyfa mér að leita réttar míns utan þings, þrátt fyrir þetta.

Þá skoraði þessi hv. þm. á mig að koma með skýrslu um það, hvernig hugur bænda hefði verið gagnvart jarðræktarlögunum áður en þau voru samþ. Þetta er einkennileg spurning og sýnir, í hvilikt öngþveiti hv. þm. er kominn, svo að hann veit ekki, hvað hann segir. Hvernig á nokkur maður að koma með skýrslu um það, hvernig bændur hafi verið „stemmdir“ gagnvart þessum lögum áður en þau voru samþ.?

Svo var hv. þm. með ráðleggingu í minn garð í lok sinnar ræðu. Í sambandi við það vil ég segja það, að ég held, að þessi hv. þm. hefði fulla þörf fyrir að glöggva sig betur á því máli, sem hér liggur fyrir, því að ég er sannfærður um það, eftir því sem hann talaði hér, að hann hefir ekki glöggvað sig á höfuðatriðum þeim, sem liggja til grundvallar 17. gr. jarðræktarl. Hann lætur einungis pólitískt ofurkapp hafa sig út í það að viðhafa önnur eins ummæli og hann hefir gert hér. Hann var að tala um, að mér væri skylt vegna stöðu minnar að vinna fyrir bændastéttina. Ég held, að sú skylda sé fyrst og fremst í því fólgin að fylgja fram þeim málum, sem maður álítur rétt, og ég er eftir 20 ára athugun á ýmsu, sem landbúnað snertir, kominn að þeirri niðurstöðu, að það, sem fyrst og fremst þarf að gera íslenzkum landbúnaði til viðreisnar, er að hindra það, að fé streymi gegnum fasteignasölu úr sveitunum til kaupstaðanna, eins og milljónir hafa streymt á síðustu áratugum. Ákvæði 17. gr. eru lítill liður í þeirri viðleitni, að stífla þann fjárflótta. Mér virtist óþarft af hv. þm. V.-Sk. að vera með svona mikil svigurmæli í sinni ræðu. Mín ræða gaf alls ekki tilefni til þess, og það var siður en svo, að ég kæmi inn á nokkuð persónulegt. Ég tók það fram, að ég væri því fylgjandi, að málið færi til n. til athugunar. Ég veit, að það kemur ekki til mála, að ég fylgi till. hv. flm. um að fella niður 17. gr. jarðræktarl., en hitt skal ég geta um, að á flokksþingi Framsfl. í fyrravetur, þar sem þetta mál var tekið til umr. og á annað hundrað bændur úr öllum héruðum landsins sátu, taldi flokksþingið sig einróma fylgjandi nýju jarðræktarl. og höfuðbreytingunum, sem á þeim gömlu höfðu verið gerðar. Var þó um leið samþ. að taka til athugunar og endurskoðunar öll atriði, sem eru hliðstæð ákvæðum 17. gr. l., eins og ákvæðin í lögunum um byggingar- og landnámssjóð, nýbýlalögunum og annað, sem stefnir að sama marki. Það er því alls ekki svo, að ég telji, að 17. gr. l. þurfi endilega að vera áfram í því formi, sem hún er nú í. Það má vel vera, að það megi finna annað form, en það á þá að stefna í þá átt, að þessi ákvæði nái enn betur tilgangi sinum, eins og flokksþing Framsfl. orðaði það í fyrra, þeim tilgangi að hindra, að það fé, sem veitt er sem vaxtalaust framlag til landbúnaðarins, sé gert að lánsfé aftur, sem þeir, sem nota eiga fasteignirnar, verða að borga fulla vexti af um aldur og æfi, og kemur ekki að notum öðrum en þeim, sem fyrst hafa hlotið það af einhverri tilviljun. Mér er það ljóst, að það er þýðingarlaust fyrir mig að samþ., að málið fari til n., af því að ég sé því fylgjandi, að þetta ákvæði verði numið burt, en ég get haft samvinnu við menn um það að finna annað form, ef tilganginum verður að einhverju leyti betur náð með því.

Hv. þm. V.-Sk. tók það óstinnt upp fyrir mér, að ég skyldi leyfa mér að segja þau orð, sem ég sagði í fyrra skiptið, en ég verð að segja, að ég hygg, að það sé þingmannsréttur minn, eins og annara, án tillits til þess, hvort það er hv. þm. V.-Sk. eða einhver annar, sem flytur mál, að segja um það mína skoðun, og þess vegna þykir mér undarlegt, að hv. þm. skuli vera með ónot, þó að ég á kurteisan hátt segði skoðun mína um mál, sem hann flytur.

Fyrst ég er staðinn upp, er bezt að reka allt niður í hv. þm., sem hann sagði. Hann tók það fram, að þegar atkvgr. fór fram í hreppabúnaðarfélögunum um jarðræktarlögin, þá hafi aðeins verið greidd atkv. um I. kaflann. Hvaðan hefir hv. þm. þessa vizku? Þarna er hann aftur að tala um hlut, sem hann veit ekki um. Það voru gerðar fjölmargar samþykktir, og ég skal ekki segja nema einhverjar af samþykktum hreppabúnaðarfélaganna hafi eingöngu fjallað um I. kaflann, en langsamlega meiri hlutinn fjallaði um jarðræktarlögin í heild, og lögunum var einmitt vísað út í sveitirnar til atkvgr. sem heild. Þess vegna er það ekki annað en tilbúningur hjá hv. þm., að það, sem greidd voru atkv. um, hafi verið staða mín í búnaðarfélaginu. Það er einn af þeim tilbúningum, sem þessi hv. þm. hefir gert sig sekan um í þessum umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa orð mín fleiri að sinni, en af því að hv. þm. V.-Sk. tók það svo óstinnt upp, að ég leyfði mér að segja nokkur orð út af frumræðu hans, áleit ég rétt að svara því dálítið rækilega.