17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (1987)

80. mál, jarðræktarlög

*Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Dal. var að reyna að snúa sig frá þessum fölsuðu tölum hér áðan, en hann gat það ekki, því að hann hafði tekið þær eftir hv. þm. Snæf., sem hafði líka leyft sér að fara með slíkar tölur, og eins og hv. þdm. tóku eftir, gekk hv. þm. Dal. áðan til hv. þm. Snæf. og spurði hann, hvernig á þessu stæði, og hv. þm. Snæf. hafði ekki önnur svör en þau, að hann tók „Framsókn“, því að sem von var hafði hv. þm. Snæf. trúað „Framsókn“, og hv. þm. Dal. trúði hv. þm. Snæf., en allt bar að sama brunni, að þetta var runnið undan rifjum hv. þm. Dal. Þetta sýnir, hvað mönnum getur orðið hált á því, eins og hv. þm. Snæf., að trúa nokkrum staf í „Framsókn“. Þessu hafa fleiri flaskað á.

Hv. þm. Dal. segir, að þó að bóndi meti á 100 kr. umbætur á hverja dagsláttu síðan síðasta fasteignamat fór fram, þá sé ekkert við það að athuga. Ég hefi ekki talað um slíkt. Hv. þm. verður að laga hlutina í hendi sér til þess að geta farið með fals og blekkingar. Ég sagði, að þessi bóndi vildi ofan á fasteignamatið selja á 100 kr. hverja dagsláttu, sem hann hefir sléttað, og það er dálítið annað. Þetta er ekki nema eðlilegt, því að það getur vel hafa kostað hann svona mikið, en það er gefið mál, að ef engin takmörk eru sett fyrir þessu í framtíðinni, þá stíga jarðirnar meir og meir, og þess vegna eiga þeir menn, sem að þessu standa og vilja halda þessu ákvæði, að mega sprengja verð jarðanna sem mest upp og koma þeim í hendur braskara, að hverfa frá villu síns vegar. Ég veit ekki betur en að ein mest metna jörð á landinu hafi verið boðin banka, ef hann vildi taka hana, og ekki stóðu sósíalistar að henni. Hvað væri sú jörð nú nema þjóðnýtt, ef þessu tilboði hefði verið tekið? Þannig hefir farið um fleiri jarðir, þó að ekki hafi komið slíkt tilboð, og það er gefið, að ef jarðirnar eiga að hækka í verði fyrir allt, sem í þær hefir verið lagt, að meðtöldum jarðræktarstyrk, sem það opinbera leggur fram, þá verða fleiri og fleiri jarðir þjóðnýttar hér á landi, eins og hv. þm. Snæf. vildi láta gera við Korpúlfsstaði síðastl. vor.