03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2049)

114. mál, Háskóli Íslands

*Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Út af þeim ummælum, sem hér hafa fallið hjá hæstv. atvmrh., þá vil ég taka það fram, að ég tel tvímælalaust, að þegar svo stendur á sem hér, að leitað hefir verið álits sérfræðinga, þá eigi tillögur þeirra að ráða. Og ég trúi því ekki fyrr en ég heyri það af vörum hæstv. ráðh., að hann þori að fullyrða, að um meiri sérfræði í þessum efnum sé að ræða hjá próf. Nygren einum en hinum 5, sem að sjálfsögðu eru allir vel að sér á þessu sviði.

Út af þeim ummælum, sem féllu í ræðu hv. þm. V.-Sk., hvort það bæri að skoða frv. sem vantraust á ráðh., vil ég taka það fram f. h. okkar flm., að við flytjum það ekki sem vantraust á núv. kennslumálaráðh. Þetta hefir og líka verið tekið fram af form. Framsfl. í grein, er hann skrifaði nýlega um þessa embættisveitingu, sem við teljum í fyllsta máta ámælisverða.

Annars er það svo með samstarfsflokka, að þá greinir oft á og þeir gera oft ýmislegt, svona sitt á hvað, sem hinn ekki fellir sig sem bezt við, og einmitt um einn slíkan ágreining er hér að ræða, — ágreining, sem við framsóknarflokksmennirnir erum að reyna að bæta úr með frv. þessu, og við miðum tillögur okkar ekki aðeins við úrlausn á því ágreiningsatriði sem nú er deilt um, heldur og fullt eins við skipun þessara mála í framtíðinni. M. ö. o., við hugsum meira um framtíðina en hina liðandi stund.

Að endingu skal ég svo taka það fram, að við munum ekki skilja við þetta mál fyrr en sú bezta lausn á því er fengin, sem fáanleg er, ekki aðeins fyrir nútíðina, heldur og líka fyrir framtíðina.