21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (2331)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Jóhann Jósefsson:

Þessi till. er fyrir allskömmu fram komin og í sjálfu sér dálítið erfitt að átta sig á henni. Mér hefir sýnzt hún þurfa athugunar í nefnd, einkum þar sem rökstuddar raddir hafa komið fram um það, að framkvæmd málsins ætti að heyra undir nýbýlalögin, og í öðru lagi að grg. till. og till. sjálf gangi ekki alveg í sömu átt. Hvorutveggja mótmælir að vísu hv. flm. — Ég vil taka undir það með honum, að málið er sannarlega þess vert að sinna því. Það þarf að hjálpa fólkinu í kaupstöðunum, eins og hægt er, til að skapa sér sjálfstæða atvinnu, eins og hann orðaði það. Það gladdi mig að heyra hann nú í fyrsta sinn leggja áherzlu á slíka lausn atvinnuleysisvandræðanna. því að ég vænti þess. að þetta sé full meining hans, að fækka ósjálfstæða fólkinu í kaupstöðunum og láta það skapa sér sjálfstæðan atvinnurekstur. En það er ekki hægt hjá því að komast að játa, að annað hefir oftar verið uppi á teningnum hjá sósíalistum og viðleitni þeirra beinzt í þveröfuga átt við þessa skoðun. Hv. flm. komst einnig svo að orði, að hann væri ekki meðmæltur atvinnubótafé og atvinnuleysistryggingum nema sem illri nauðsyn. Þetta eru óvanaleg ummæli úr munni sósialista. (JBald: Hefi oft sagt það áður). Ég hefi aldrei tekið eftir, að hv. þm legði áherzlu á það fyrr en nú, og vildi vekja afhygli á því; mér þykir þetta góð sinnaskipti. — Raunar var líklegt, að jafngreindur maður og hv. flm. mundi komast að þessu líkri niðurstöðu. En hitt er oftar, að menn kinoka sér við að láta sinnaskipti sín í ljós í heyranda hljóði. — En þessi skoðun er einmitt sú, sem við sjálfstæðismenn höfum barizt fyrir og höfum oftast mætt litlum skilningi hjá þeim flokki, sem báðir hv. flm. till. tilheyra. Einmitt af því, að víð höfum haldið því fram, að fyrsta og veglegasta starf löggjafans væri þetta, að styðja einstaklingsframtakið, að hjálpa fólkinu til að skapa sér sjálfstæða afkomumöguleika, verð ég að gleðjast af yfirlýsing hv. 9. landsk. (JBald) sem sigri fyrir stefnu Sjálfstfl. Það gleður mig á þessum síðustu og verstu dögum, að heyra þessa játningu frá jafnmiklum manni og greindum eins og flm. er.

Ræða hæstv. forsrh. var með einkennilegum hætti, að mér þótti, og ekki að öllu leyti sanngjörn. Það mun vera rétt, að upp úr aldamótunum síðustu, í sambandi við það feiknaframtak á sviði fiskiveiðanna, urðu menn líka til sveita gripnir af þeirri hugsun, að togaraútgerð væri gróðavegur. Og ég efast ekki um, að það sé rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að margir efnamenn í sveitunum hafi lagt fram stórfé á þeim árum til togaraútgerðarinnar. Sumir af þessum mönnum munn hafa á vissu tímabili a. m. k. fengið góða vexti af sínu fé, þó vel megi vera, að aðrir hafi tapað. Þeir, sem nutu gróðans þessi ár, urðu svo að rísa undir tapinu, þegar fór að halla undan fæti hjá þessum atvinnuvegi. En þegar svo á að ræða um það, sem hv. 1. þm. Reykv. réttilega segir, að ekki sé tími til að fara nokkuð verulega út í á d.fundinum núna, hverjum sé að kenna flótti fólksins úr sveitunum, þá kynni nú svo að fara að ekki yrði ástæðan einvörðungu fundin í spilltum hugsunarhætti kaupstaðabúanna, eða vegna spilltra áhrifa frá kaupstöðunum, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Ég verð að segja það, að mér fannst satt að segja að sá dómur ráðh. vera nokkuð ósanngjarn í garð kaupstaðanna. Hann orðaði það líka þannig, að atvinnuvegirnir við sjóinn hefðu haft gyllingar í frammi við fólkið, og þær hafi svo dregið það úr sveitunum. Ja, hvað er að hafa gyllingar í frammi við fólkið? Það er ekki víst, að allir hafi sama skilning á þessu. Mér finnst, að atvinnurekandi, jafnvel þótt hann eigi heima í kaupstað, sem þarf á fólki að halda, og geldur því sitt kaup „heiðarlega og ríktuglega“, eins og stundum var sagt í gamla daga, hann hafi ekki neinar gyllingar í frammi við það fólk, sem kemur til hans í atvinnuleit, á meðan hann stendur við orð sín og eiða. Það væri hægt að benda á aðra, sem með meiri sanni mætti segja, að hefðu gyllingar í frammi við fólkið en atvinnuvegirnir og atvinnurekendurnir. Ég er fæddur og uppalinn í sjávarþorpi, þar sem þannig hefir verið um tugi ára, að fólkið úr nærsveitunum hefir sótt í minn fæðingarbæ í hundraðatali, unnið þar hluta ársins og sótt þannig mikla björg í sitt bú, á þeim tíma, sem minnst þörf hefir verið fyrir vinnu þeirra heima fyrir. Ég held, að sú búbót, sem Rangárvalla-, Skaftafells- og Árnessýsla fyrr á tímum og fjöldamargir úr sýslum landsins sækja nú til Vestmannaeyja á vertíðinni, hafi verið mörgum. að minnsta kosti mörgum smábóndanum drjúgur styrkur við sinn búskap. Ég vil ekki kannast við það, að atvinnuvegur við sjóinn, sem á vissum tímum ársins krefst aukins fjölda sjómanna og verkamanna, sé stimplaður með því heiti, að hafa í frammi gyllingar við fólkið, eða að hann stuðli að spilltum hugsunarhætti, sem breiðist svo mikið út um sveitirnar. Þá segir hæstv. ráðh. ennfremur, að flóttinn úr sveitunum hafi verið mikill, en væri nú að minnka. Það getur vel verið, að svo sé; ég hefi ekki kynnt mér neinar tölur um þau efni síðustu tíma, og má vel vera, að ráðh. viti það betur, og skal ég ekki deila um það við hann. En ég hefði nú haldið, að það væri langt frá því, að hann væri stöðvaður, því miður. Og svona almennt skoðað og litið á málið, þá tel ég að hin síðustu ár sé það alveg óhjákvæmileg afleiðing af ýmsum þeim nýmælum og breytingum, sem gerðar hafa verið í íslenzki löggjöf, að fólkið dragist meir og meir úr sveitinni í kaupstaðina. Hv. 1. þm. Reykv. drap á þetta stuttlega í sinni ræðu og benti á hin afarmörgu lagaákvæði. sem sett hafa verið nú síðustu 10 árin eða svo, sem ganga í þá átt, að skapa skyldur og aftur skyldur fyrir þá menn, sem reka atvinnufyrirtæki, en búa til réttindi. a. m. k. á pappírnum, fyrir þá, sem leita atvinnunnar. Skyldi ekki slík löggjöf ýta undir fólkið úr sveitunum, sem vissulega á mörgum sviðum býr ekki við of glæsilega kosti? Því skyldi það ekki sækja þangað, sem eldurinn brennur hefur? Mér finnst það algerlega eðlileg afleiðing. Og skemmst er að minna á þá breytingu á framfærslulögunum, sem gerð hefir verið síðustu árin, og þá einkum á sjúkratryggingalögunum, þá höfuðbreytingu, sem gerð var á siðusta og næstsiðasta þingi á framfærslulögunum, sem veitir fólkinu, sem í kaupstöðunum býr, svo eðlilegan og sjálfsagðan aðgang að fátækrastyrknum miklu auðveldari heldur en áður var. Þetta hlýtur að verða þess valdandi, að menn. sem standa í harðri lífsbaráttu upp til sveita landsins og verðu að neita sér og sínum um margar nauðsynjar, svo ég ekki tali um það, sem við köllum óþarfa hér við sjóinn, freistist til að kveðja sveitirnar og flytja í þessi Gósenlönd, sem Alþingi er búið að búa til handa þessu fólki í kaupstöðunum. og þá einkum í Reykjavík. Ef verið er að tala um gyllingar. þá held ég, að þetta sé í raun og veru rétt, að með þessu sé verið að hafa gyllingar í frammi við fólkið. Og má nefna eitt atriði, sem ég fyrir mitt leyti cr sannfærður um. að hefir gert sitt til þess að ýta undir flutninginn úr sveitunum eða losa um hann. Það eru skólarnir. Ég veit vel, að þeir, sem berjast fyrir skólunum, þessum glæsilegu samkomuhúsum í sveitunum og menntastofnunum, sem eiga að vera, hafa haft gott eitt í huga, þegar þeir hafa barizt fyrir að koma þessum skólum á fót. En hitt geta allir skilið, að ungu fólki úr fámennum, afskekktum og dreifðum byggðum, sem dvelur einn eða tvo vetur í stórum og kátínufullum skóla, bregður mikið við. Þetta sama unga fólk verður sjálfsagt ekki neitt ánægt, þegar það skilur við þetta glæsilega samkvæmislíf, sem tíðkast í héraðsskólunum. Það er ekki mikil ánægja í því að hverfa til sinna dreifðu byggða og halda áfram að lifa þar í fámenninu á eftir. Sem sagt, ástæðurnar fyrir þessum mikla flótta og tæmingu úr sveitum landsins er sannarlega ekki að finna á neinum einum stað. Og það er mjög óréttlátt, ef því er haldið fram, að þeirra sé að leita frá spilltum hugsunarhætti kaupstaðarbúanna. Það er nú einu sinni svo, og það er bezt að segja það í eitt skipti fyrir öll, að ég held, að fólkið í kaupstöðunum sé ekkert spilltara í hugsunarhætti heldur en eins og gerist. Eftir þau kynni, sem ég hefi haft af því virðist mér þar ekki vera svo mikil spilling ríkjandi, að sé þannig orð á gerandi, að hún beinlínis smiti og sýki sveitirnar út frá sér. Vilji maður taka dæmi um óheilbrigt hugarfar, þá má nefna áfengislöggjöfina og öll þessi bruggmál á síðustu árum, því það er svo að sjá, sem slíkt stingi sér niður í sveitunum eins og við sjóinn. Um þetta mál mætti miklu meira ræða; ég hefi hvergi nærri farið inn á öll þau atriði, sem hér koma til greina. Ég vil að lokum segja það, að ef á að benda á einhverja sérstaka orsök til þess, að fólkið hefir undanfarinn áratug horfið svo mjög — og allt of mikið — úr sveitunum í kaupstaðina, þá mun það vera þessi misskilda löggjöf, sem er undirrótin, — löggjöf, sem í mörgu falli verkar alveg öfugt við það, sem henni er ætlað að gera. Það hefir skort á alla festu og markvissa baráttu hjá þeim, sem hafa ráðið þessu landi, til þess að koma í veg fyrir það, að fólkið flykktist of mikið úr sveitunum, og til þess að bægja frá þeim atriðum úr löggjöfinni, sem sannarlega geta talizt gyllingar til þess að fólkið flýi úr sveitunum.