22.12.1937
Sameinað þing: 19. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2349)

69. mál, hafrannsóknir

*Frsm. minni hl. (Bjarni Bjarnason):

Hér er nokkur vandi á höndum í þessu máli, þar sem samþykkt þessarar till. hefir í för með sér allveruleg fjárútlát, 10 þús. kr. strax og svo kostnað vegna utanfara og fundarhalda, sem er áætlaður í grg. 2 þús. kr. Hinsvegar hefir þessi fjárhæð ekki verið tekin upp í fjárl.frv. fyrir næsta ár, og þykir mér það nokkuð miður.

Um það var rætt í fjvn., hvort þessi till. gæti ekki beðið, en n. varð þar mjög ósammála. Og til þess að ekki væri skilað nál., sem væri litað pólitískt, taldi ég rétt, að ég væri hér með tveimur sjálfstæðismönnum, þar sem líka málið var aldrei skoðað sem pólitískt mál, heldur varð ágreiningurinn aðeins vegna þess, að menn töldu sig ekki hafa athugað till. nægilega og að ekki lægi á henni. Ég get því, að athuguðum þeim rökum, sem fram hafa verið færð, ekki annað en mælt með því, að Íslendingar sæki um upptöku í alþjóðahafrannsóknaráðið, einkum þar sem það getur haft sérstaka þýðingu fyrir friðun Faxaflóa.