25.11.1937
Neðri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Hv. síðasti ræðumaður lauk máli sínu með því, að það væri fullkomið hnefahögg í andlit fiskeigenda í landinu að leggja hálfa millj. til ráðstöfunar til viðreisnar sjávarútveginum, ef féð væri látið til fiskimálanefndar. Mér skildist, að hann mundi því greiða atkv. gegn þessu frv. Hv. þm. Snæf. sagði í ræðu sinni í gær ekki alveg það sama, því að hann var miklu gætnari í orðum heldur en hv. 6. þm. Reykv., en hann taldi þó, að megingalli frv. væri sá, að fiskimálan. væri ætlað að fjalla um þær aðgerðir, sem ráðgerðar eru. Hann sýndi enga viðleitni til að finna þeim orðum sínum stað, að n. væri ekki til þess trúandi. Það mun hinsvegar hv. 6. þm. Reykv. talið sig hafa gert í sinni ræðu. Hinsvegar tel ég, að það, sem hann bar þar fram í þessu efni, sýni einmitt, að slíkar mótbárur sem þessar hafi við engin rök að styðjast.

Hv. þm. sagði réttilega, að fiskimálanefnd hefði eytt því fé, sem hún hafði fengið til ráðstöfunar. En ég hygg, að ekki geti verið skiptar skoðanir um, að til þess hafi verið ætlazt, að hún notaði það fé, en legði það ekki í sparisjóðsbók.

Það segir sig líka sjálft, að því aðeins þarf að leggja fram fé af alþjóðar sjóði til tilrauna og nýbreytni, að ekki er fyrirfram vitað um árangurinn, og það er ekki heldur veitt fé í tilraunaskyni til þess, sem fyrirfram er tryggður gróði af, því þá væri óþarft að leggja fram fé úr ríkissjóði eða skipa sérstaka n. til að annast um framkvæmdirnar, því þá væru margir fúsir til að leggja fram fé til þess, ef þeir ættu víst að fá það aftur, sérstaklega ef um gróða væri að ræða.

Verkefni n. hefir verið að gera ýmsar rannsóknir og tilraunir, sem ekki var fyrirfram vitað um, hvern árangur mundu bera, og það hljóta allir menn með heilbrigða skynsemi að sjá, að til slíkra tilrauna og rannsóknarstarfsemi hlýtur að þurfa mikið fé. Að sjálfsögðu má deila um ýmsar aðgerðir n., eins og kvikmyndatökuna, sem hv. þm. kallaði kvikmyndatöku af samkvæmislífinu á Hótel Borg, sem ég hygg, að sé ekki rétt. Það ber að játa, að þetta hefir mistekizt, en til þess voru fengnir menn, sem ég hygg, að af sjálfstæðismönnum hafi verið taldir prýðilega til þess fallnir, t. d. Guðmundur Kamban (SK: prófessor?). Ég held, að hann sé ekki prófessor; a. m. k. hefi ég ekki gert hann það, en ég skal taka till. hv. þm. um það til velviljaðrar athugunar. Þetta ber að játa, en sökin er ekki fiskimálanefndar. Það var leiðinlegt, að svona skyldi fara, enda hefir fiskimálan. lýst því yfir, að mynd þessi hafi misheppnazt. Þó mætti ef til vill nota einstaka kafla úr henni.

Það er rétt, að á sendingum á freðnum fiski til Ameríku og Póllands hefir orðið tap, en a. m. k. sendingarnar til Póllands hafa þó orðið til þess, að síðar var hægt að selja verulegt magn af freðfiski til Póllands án taps. Um Ameríkumarkaðinn er það að segja, að hann var ekki eyðilagður fyrir glópsku fiskimálan., eins og andstæðingar hennar vilja láta í veðri vaka, heldur reyndust upplýsingar um sölumöguleika óáreiðanlegar, veðrátta var óhagstæð, og fleira kom til greina. Sölumöguleikar fara mjög eftir því, hvað mikil þurrð er þar á fiski vetrarmánuðina, þegar vötn eru frosin. En þegar fiskurinn héðan kom vestur, vildi einmitt svo til, að snemma voraði og að mikið var til af fiski frá árinu áður. Hvort þessum sendingum til Ameríku verður haldið áfram, er óráðið, en það yrði þá á annan hátt en hingað til, smærri sendingar.

Það voru fleiri en fiskimálan., sem höfðu von um það síðastl. vetur, að selja mætti frosinn fisk til Ameríku. Ég hygg, að maður nákominn hv. 6. þm. Reykv., Jón Auðunn Jónsson, hafi sótt til fiskimálan. um að mega flytja til Ameríku 400 tonn af freðnum fiski. Fiskimálan. mun hafa veitt leyfið, en sjálf sendi hún þangað ekki nema 100–150 tonn. En hversu mikið Jón Auðunn notaði af leyfinu, veit ég ekki, en held, að honum hafi ekki tekizt salan betur en fiskimálan.

Hv. þm. segir, að n. hafi ekki tekið upp neina nýbreytni, heldur aðeins notað gamlar aðferðir, sem aðrir hafi byrjað á. Þetta er rangmæli hjá hv. þm. Hann veit, að t. d. karfavinnsla, rækjuniðursuða, hraðfrysting á fiski og harðfiskverkun var alls ekki stunduð af útgerðarmönnum fyrr en fiskimálan. kom til sögunnar, en þessir útflutningsliðir hafa aflað landsmönnum verðmæta, sem svarar um 3 millj. kr. hvort árið tvö síðastl. ár.

Þá vísaði hv. þm. til vitnisburðar fiskeigenda í till, sem hann bar fram á fundi S. Í. F. og þar var samþ., þess efnis, að útvegsmenn lýstu vantrausti á fiskimálan. Ég vil bara segja það eitt, að allan þann tíma, sem fiskimálan. hefir starfað, hefir verið haldið við látlausri pólitískri ofsókn á hendur henni. Þess hefir ekki verið svifizt að reyna að spilla árangrinum af starfi hennar. En enginn getur neitað því, að verkefni fiskimálan. eru mikilsverð fyrir framtíðarmögnleika sjávarútvegsins íslenzka og þess vegna er óverjandi sú látlausa rógburðarherferð, sem farin hefir verið á hendur henni og hefir torveldað henni störfin. Og þrátt fyrir þetta hefir verið gott samstarf með n. og miklum hluta útgerðarmanna.

Hv. þm. Snæf. sagði í gær, að óþarft væri að ætla fiskimálan. fé til ráðstöfunar til niðursuðufyrirtækja, þar sem S. Í. F. hefði samþ. að lána varasjóð sinn í sama skyni. Hv. þm. benti á, að ástæða væri til að fara varlega í þessu efni, og að hæpið væri, hvort rétt væri að byggja fleiri niðursuðuverksmiðjur en þegar eru til. Fyrst væri að tryggja, að þær gömlu hefðu nóg verkefni. Ég get verið hv. þm. sammála um þetta. Það er órétt, sem blöð sjálfstæðismanna gera, að telja fólki trú um, að svo og svo miklum hluta af fiski landsmanna sé hægt að breyta í niðursuðuvörur og selja þannig. Slíkt verður ekki gert nema á löngum tíma. Hinsvegar er það mikilsvert atriði að fá sem fjölbreyttastar vörur til útflutnings og viðskipti við þá, sem kjósa niðursoðinn fisk.

Veð tilliti til þeirrar varfærni, sem hv. þm. Snæf. talaði svo mikið um, verð ég að segja, að mér finnst, að ýms verkefni hefðu legið nær sölusambandinu en að byggja niðursuðuverksmiðju, þar sem fyrirsjáanlegt var, að á þinginu yrðu gerðar ráðstafanir til að efla þann iðnað. S. Í. F. stæði nær að reyna að taka upp meiri fjölbreytni í sölu á söltuðum fiski. Ég veit ekki, hvort sölusambandið hefir reynt að athuga sölumöguleika fyrir beinlausum fiski beint til neytenda. Mér er sagt, að vestanhafs sé mikið af saltfiski selt þannig. Fiskinum er pakkað í litla trékassa með ákveðinni vigt, og neytendum líkar hann ágætlega og borga meira verð fyrir hann en venjulegan saltfisk. Danir og Færeyingar eru nú að gera slíkar tilraunir með færeyskan fisk. Einnig mætti reyna að selja fiskinn í flögum, en taka burt ugga og þunnildi. Það mundi líka spara flutningsgjöld að senda fiskinn út á þann hátt. En mér er ekki kunnugt um, að S. Í. F. hafi nokkuð um þetta hugsað, og er það þó nær þeim en að gangast fyrir byggingu niðursuðuverksm., sem — eins og ég sagði áðan — var vitanlegt, að fram kæmu um till. á Alþ. Mér er jafnvel ekki grunlaust um, að ástæðan til þessarar áhugasemi S. Í. F. hafi ekki verið sú, að þetta verkefni væri svo mjög aðkallandi, heldur hin, að S. Í. F. hafi viljuð komast fram fyrir fiskimálan. í þessu máli, ekki sízt eftir að ég heyrði ræðu hv. þm. um þá miklu varfærni, sem hér þyrfti að sýna.

Þá kom hv. þm. að því atriði frv., sem lýtur að styrk til að kaupa nýtízku togara. Hv. þm. taldi, að Alþfl. hefði allmjög lækkað seglin. Fyrst hefði hann viljað ríkis- og bæjarútgerð með 10 togurum, síðan hefðu þeir viljað 6 togara, en nú væru togararnir komnir niður í 2. Hv. þm. þótti ég vera furðu „mjögsitjandi“, að geta setið undir þessu öllu. En ef ég léti af mínum „mjögsitjanda“, væru þá líkur til, að við fengjum fleiri togara? Annars vil ég segja um þessa 6 togara, að hv. þm. á þar að tala við meiri hl. bæjarstj. Rvíkur, og mér finnst sennilegt, að hann hafi gert það. Ég hefi ekki séð minnstu viðleitni frá bæjarstj. Rvíkur til þess að styðja á nokkurn hátt togaraútgerðina hér. En það segir sig sjálft, að minni hl. getur þar engu um orkað. Það er í mesta lagi, að till. frá honum sé vísað til bæjarráðs eða einhverrar nefndar, og þar með eru till. sofnaðar. Ég vil spyrja hv. þm. Snæf., hvort hann vill veita mér liðsinni til að styrkja af opinberu fé rekstur togaraútgerðar með nýtízku skipum og tækjum undir tryggu fyrirkomulagi.

Hv. þm. telur, að ef þessi ákvæði verða samþ., muni lítið fé verða eftir til annara framkvæmda fiskimálasjóðs. Um það má náttúrlega deila. Tekjur hans eru áætlaðar 40 þús. kr. árlega úr ríkissjóði og allt að 120 þús. kr. í gjald samkv. eldri l. Aðrar tekjur má gera ráð fyrir, að séu um 20 þús. kr. Þarna eru þá 540 þús. kr. Það liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um, hvað skipin mundu kosta, en mér finnst, eins og hv. þm. snæf., ekki ráðlegt að áætla minna en 700 þús. kr. hvort skip, eða 1400 þús. kr. bæði. Styrkur úr sjóðnum yrði samkv. því um 175 þús. kr. á hvort skip, og er gert ráð fyrir að greiða hann á 2 árum. Ætti sjóðurinn þá að eiga eftir 350–370 þús. kr. Ég skal játa, að þetta er ekki mikið en til viðbótar efir fiskimálasjóður undanfarið styrkt ekki fá frystihús með lánum til þess að fá sér frystitæki, og samkv. frv. falla þau frystihús undir ákvæði l., og er þá hægt að breyta þeim lánum, sem þau hafa fengið í styrki. En eftir fyrstu 2 árin þyrfti ekki lengur að draga þær upphæðir frá öðru starfsfé fiskimálasjóðs. Ég skal játa að það væri æskilegt, að meira fé væri fyrir hendi, en ég tel þó, að koma megi við miklum stuðningi einmitt þar sem þörfin er brýn.

Um það, hve erfitt sé að fá skip smíðuð á þessum tímum, má margt segja. Það er rétt hjá hv. þm. Snæf., að ýmsa skipasmíðastöðvar hafa gert samninga fram í tímann, en margar munu þó geta skotið inn smáskipum. Þetta hefir nokkuð verið athugað, og er ekki ósennilegt, að takist að leysa málið. En skipin yrðu ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi næsta haust, eða jafnvel síðar. Ég vil ekki segja, að ekki verði mögulegt að finna skip, sem hægt er að kaupa, og er það athugunarefni. Hv. þm. telur ekki miklar líkur til, að hægt verði að fá 15% frá eigendum, en það yrði um 225 þús. kr. Um þetta skal ég ekki fullyrða, en tel, að sterkar líkur séu til þess, að þetta verði hægt. Hinsvegar væri æskilegt, að ríkisstj. og fiskimálan. væri heimilað að veita styrkinn, þó að ekki lánaðist að fá 15% frá eigendum og væri mér kært, ef hv. þm. vildi styðja það.

Hv. þm. spurði, hvort hér væri um að ræða samvinnuútgerð eða ríkisútgerð. Ég hygg, að um hvorugt sé að ræða. Í frv. eru engin skilyrði um það, og ekki heldur um þjóðnýtingu. Það sem um er að ræða, er að tilraun sé gerð með fullkomlega nýtízku skipum til þess að fá úr því skorðið, hvort togaraútgerð með slíkum skipum getir svarað kostnaði. Hv. þm. talar alltaf um að togaraútgerðin sé rekin með tapi ár eftir ár. Það segir sig sjálft, að ef þetta er rétt, endar það bara á einn veg. Útgerðin verður að hætta. Það er því lífsnauðsyn að fá úr því skorið, hvort hægt er að reka togaraútgerð án taps. Ef það kemur í ljós, að hægt er að reka útgerðina með fullkomnustu tækjum svo að svari kostnaði, þá er það byrjun þess, að útgerð okkar vegni vel.

Hv. þm. sagði, að það, að tala um nýtízku skip og nýtízku tæki, væri eiginlega bara orðafjas,skildist mér. Í raun og veru sé togaraflotinn nútímaskip. Hv. þm. gekk svo langt, að hann sagði að ef við hefðum nú okkar fyrsta togara, sem við fengum 1907, Jón forseta, yrði hann talinn sæmilegt skip. Mér er skylt að játa, að hv. þm. er kunnugri útgerð heldur en ég, en hér er annar maður inni, bróðir hv. þm., hv. þm. G.-K. sem ber ekki síður skyn á útgerðarmál en hv. þm. Snæf., og hann hefir tvisvar gefið þá lýsingu á togurunum, að þeir væru ryðkláfar og fúaduggur. Eru þetta nýtízku skip hv. þm. Snæf.? Ég skal játa að ég hygg þetta ofmælt há háttv. þingmanni G.-K., en hitt vita allir, að meiri hluti togaranna okkar er orðinn gömul skip og sum þeirra kannski ekki sérlega vönduð í upphafi. Sum skipin eru svo smá og afllítil að þau eiga erfitt með að toga á nægilega djúpu vatni til að fiska stöðugt. Sum skipin eyða meiri kolum en nýtízku vélar gera til að ná sama afli. Allt þetta veit hv. þm. sennilega betur en ég, auk þess sem allir vita að því eldri sem skip eru, því meiri er viðhaldskostnaður, enda veit hv. þm, að viðhaldskostnaður á sumum gömlum skipum er svo gífurlegur, að varla er að búast við að rekstur þeirra geti borið sig. Ég held, að það sé öfugmæli hjá hv. þm. Snæf., að íslenzki togaraflotinn sé svo góðu ástandi, að ekki sé ástæða til að fá ný og betri skip í hann. Ég teleinmitt brýna nauðsyn á að þessi tilraun sé gerð, til að fá úr því skorið, hvort togaraútgerðin getur borgað sig eða ekki, en ég tel engar líkur á, að einstakir menn eða félög fari að gera þessa tilraun. Hv. þm. talaði um, að þetta væri of áættusamt til þess, að einstaklingar færu að leggja í það fé, og reynslan hefir sannað, að svo er. Því verður þessi tilraun ekki gerð nema til hennar komi almenningsfé og þarna er svo mikið í húfi fyrir atvinnurekstur okkar, að ég tel það ekki áhorfsmál, að þessi tilraun sé gerð. hv. þm. bar því við, að ástæður sjávarútvegsins væru yfirleitt mjög slæmar, og get ég verið honum sammála um það, en hann verður að játa, að ríkissjóður hefir lagt mikið fram til að bæta ástæðurútvegsins frá því, sem áður var. Hv. þm. taldi til 3 atriði, sem væru völd að þessum vandræðum, og voru þar í fyrsta lagi aðgerðir ríkisvaldsins gagnvart útgerðarmönnum og útveginum í heild. Hv. þm. Ísaf. hefir svarað þessu og sýnt fram á, að það er fullkomið rangmæli. Engir skattar hafa verið hækkaðir á útgerðarfél0gunum í tíð núv. stjórnar, en aftur á móti lækkaðir mikið, og síðast nú er borið fram frv. um afnám útflutningsgjalds af saltfiski. Auk þess hefir í tíð núv. stj. verið varið meira fé til að styrkja sjávarútveginn beint og óbeint en nokkurn tíma hefir verið gert áður. Þá taldi hann næst gegndarlausar kröfur verkalýðsins um kaupgjald, og í þriðja lagi lokun eða takmörkun markaða, eða tap markaðslokun eða takmörkun markaða, eða tap markaðs fyrir íslenzkan saltfisk, og lauk máli sínu með því að heita á ríkissj og þá flokka, sem að henni standa, ef þeir vildu sjávarútveginum vel, að láta þá af ofsóknum sínum í garð sjávarútvegsins og veita honum hjálp til þess að sigrast á hinum tveimur öflunum. Ég veit ekki betur en að hv. þm. sé kunnugt um, að ríkisstj. hefir gert allt, sem hún hefir getað, til þess að draga úr lokun fiskimarkaðarins og opna nýja, og einnig mun honum kunnugt, að hún hefir unnið mikið að því að skapa möguleika fyrir sölu á íslenzkum vörum, enda hefir tekizt að selja mest allan fisk, sem veiðzt hefir þetta ár. Hvað viðvíkur aðstoð ríkisstj. til þess að sigrast á því atriði, sem eftir er, vil ég segja fyrir mitt leyti, að ég mun að mörgu öðru gæta áður en ég fer að vinna að því að lækka kaup sjómanna og verkamanna.

Þá er ekki fleira, sem ég vildi taka fram að þessu sinni, en ég vil mæla með því við hv. d., að hún samþ. frv. í aðalatriðum eins og það liggur fyrir, og að sú hv. n., sem fær það til athugunar, vildi taka til athugunar þau tvö atriði, sem ég hefi minnzt á.