24.11.1937
Neðri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Thor Thors:

Það er æði margt í ræðum hv. andstæðinga minna, bæði í ræðu hv. þm. Ísaf. og hæstv. atvmrh., sem ég þarf að gera aths. við. Þeir töluðu báðir nokkuð líkt og voru með sömu svör til mín.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að ég hefði ekki ástæðu til að kvarta yfir, að ríkisvaldið léti ekki þessar styrkveitingar til sín taka, heldur réði fiskimálanefnd þeim. Svo er ákveðið í l. um fiskimálasjóð, að atvmrh. hafi með höndum fiskimálasjóð, og í 5. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. veiti lán úr fiskimálasjóði. Svo segir síðar í þessari sömu gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórninni er heimilt, ef henta þykir, að fela fiskimálanefnd einni ýmsar framkvæmdir samkvæmt framanskráðu, eftir nánari fyrirmælum ráðherra“. Og það er þetta, sem hæstv. ráðh. hefir gert undanfarið, e. t. v. vegna annríkis sjálfs sin, eða, eins og sennilegra er, vegna ofríkis flokksbróður hans, hv. 3. þm. Reykv., að láta fiskimálanefnd einráða um þetta atriði. Það er þessi ástæða, sem ég gagnrýni og óska að verði breytt. Alþ. á aðgang að ráðh., en hefir enn ekki getað komið fram nauðsynlegri gagnrýni gegn hv. 3. þm. Reykv. og gerðum hans í þessum efnum, þar sem það er ekki Alþ., sem hefir kosið hann til þessa starfs. Það er öllum kunnugt, að þessi fiskimálanefnd, hvað sem segja má um skipun hennar að lagabókstafnum, hefir verið undir stjórn hv. 3. þm. Reykv., og það er hann, sem fyrst og fremst ber ábyrgð á öllum þeim afglöpum, sem þar hafa verið framin. Þetta er á allra vitorði.

Hv. þm. Ísaf. staðfesti það, sem ég sagði um afskipti hans af rækjuverksmiðjunni á Ísafirði. Það er sannað, að hann átti tal við menn í Rvík um stofnun verksmiðjunnar, en þegar til Ísafjarðar kom, sneri hann málinu þannig, að það varð bæjarstj. þar, sem hafði málið með höndum.

Hv. þm. Ísaf. vildi gera lítið úr samþykktum þings fisksölusamlagsins og sagði, að þar væru sjálfstæðismenn að verki. Á þinginu voru fulltrúar útgerðarmanna hvaðanæfa af landinu, sem fóru með umboð allra fiskeigenda, og ef þeir hafa allir verið í Sjálfstfl., sannar það aðeins, að stefna Sjálfstfl. er í fyllstu samræmi við óskir útvegsmanna, og Alþingi er skylt að taka tillit til óska útvegsmanna, hvar sem þeir skipa sér í flokk í stjórnmálabaráttunni. Þegar þeir koma saman til að ræða um vandamál sin, fara þeir aðeins eftir því sem þeir álíta, að atvinnurekstrinum sé fyrir beztu.

Hv. þm. sagði; að það væri öðru nær en að Alþfl. væri að hlaupa frá sinum hugsjónum. Hann hefði allt stjórnartímabil núv. ríkisstj. verið að greiða úr vandamálum þjóðarinnar. Það má vel vera, að þeir hafi ætlað sér þetta, en árangurinn hefir þá a. m. k. ekki orðið mikill. Á þessu tímabili hefir verið stöðug afturför hjá öllum atvinnuvegum, en þó einkum hjá sjávarútveginum, sem Alþfl. þóttist þó ætla að taka alveg sérstaklega að sér. Það má benda á það sem eitt af því, sem Alþfl. hefir gert fyrir sjávarútveginn, að á síðasta Alþ. börðust Alþfl.menn ekki harðar á móti neinu máli en því, að ný síldarverksmiðja væri reist hér á landi. Það var þeirra stærsta áhugamál. Það voru mennirnir, sem ætla að útrýma atvinnuleysinu úr landinu, sem börðust gegn þessu. Þeim hurfu hagsmunir útvegsmanna og sjómanna sýnum, en létu algerlega blindast af óvild til pólitískra andstæðinga sinna. Enda hefir það oftar komið fyrir, að velferð sjávarútvegsins hefir gleymzt vegna þess, að pólitískir andstæðingar hafa átt þar hlut að máli.

Hv. þm. sagði, að till. okkar sjálfstæðismanna um viðreisn sjávarútvegsins væri ekki hægt að taka alvarlega af því, að við hefðum ekki bent á neinar tekjuöflunarleiðir. Þetta er oft búið að segja hér á Alþingi, en við höfum hinsvegar bent á, að við erum reiðubúnir til að semja við stjórnarflokkana um tekjuöflun með nýjum skattaálögum, til að koma þessu máli í framkvæmd.

Hv. þm. talaði um, að allar líkur væru til þess, að útgerð nýtízku togara mundi borga sig hér, þótt þeir togarar, sem hann kallaði gamaldags, gætu ekki borið sig. En þetta er ósannað mál. Hér er aðeins um tilraun að ræða, sem er fjárhagslega vafasöm, hvað sem segja má um hana út frá atvinnuþörf þjóðarinnar. Það þýðir ekki að ganga framhjá því, að nýtízku togarar eru engin hugsjón, heldur virkileiki, og allar okkar nágrannaþjóðir eiga stóran skipastól af þeim. Hvernig hefir svo farið fyrir þeim, t. d. í Englandi? Þar eru hin mestu vandræði með að láta þá bera sig. Í fyrra stóðu yfir samningar milli útvegsmanna í Hull og Grimsby um að leggja upp allt að helming þessara nýtízku togara. Svona er ástandið þar. Ég sé ekki ástæðu til þess að byggja miklar vonir á vinnsluvélum í skipum, en það mun vera aðalumbótin á þessum togurum frá hinum eldri. Það má vera, að þær skili miklum arði, en þær þurfa líka mikinn vinnukraft, og það er ekki sannað, að um verulegan arð yrði að ræða af slíkri nýbreytni. Við verðum að gera okkur ljóst, að nýtízku togarar hafa ekki annað verkefni en aðrir togarar. Þeir verða að stunda saltfisksveiðar hluta af árinu og ísfisks- og síldveiðar hinn hluta ársins. Eins og ástandið er nú orðið, er næstum fullvíst, að á saltfisksveiðunum yrði um tap að ræða. Ísfisksveiðarnar hafa verið þannig, að Englandsmarkaðurinn hefir stöðugt farið minnkandi og svo óviss, að það er orðin bein fjárhætta að leggja stund á hann. Einn ísfisksveiðarnar, sem skila arði, eru Þýzkalandsveiðarnar. Þar höfum við fastan innflutnings-„kvóta“, en engin ástæða er til að ætla, að hann mundi aukast, þótt skipastóllinn væri aukinn. Það er mjög sennilegt, að afkoma þessara stóru togara yrði mjög svipuð afkomu þeirra, sem eru starfræktir nú.

Það hefir ekki verið hægt að fá upplýst hjá hv. andstæðingum, hvernig þeir hafa hugsað sér rekstur þessara togara, hvort það á að vera samvinnuútgerð, bæjarútgerð eða jafnvel einstaklingsrekstur. Af ræðu hæstv. atvmrh. virtist eiginlega allt þetta geta komið til mála. Mér þætti æskilegt að heyra einhvern framsóknarmann tala um þetta og heyra, til hvers er ætlazt af hálfu Framsfl. í þessu máli. Hv. þm. Ísaf. sagði, að það væri ekkert flokksmál hjá Framsfl., að um togarana yrði samvinnuútgerð. Ég veit ekki, hvaðan hann hefir umboð til að segja þetta; ég hélt, að honum væri nóg að tala fyrir munn Alþfl. En ég vil benda á, að Framsfl. hefir lagt fram hér á Alþ. frv. um að auka samvinnuútgerð í landinu, og hv. þm. hlýtur að vera kunnugt eftir skrifum í blöðum flokksins, að stefna hans í útgerðarmálum er einmitt sú, að koma á samvinnuútgerð. Ég held, að hv. þm. sé ekkert færari um að fullyrða, að þetta sé ekki flokksmál hjá Framsfl., þótt hann sé forstjóri samvinnuútgerðarinnar á Ísafirði. Ég hygg, að sú útgerð sé rekin eins og önnur útgerðarfélög, að verkafólkið fái taxtakaup og sjómennirnir séu upp á hlutaráðningin, en þegar Framsfl. talar um samvinnuútgerð, miðar hann við, að afkoma fólksins verði í hlutfalli við afrakstur útgerðarinnar. Ég held, að sjómönnum væri lítill fengur í því að taka upp hlutaskipti á togurunum, a. m. k. hefir Sjómannafélag Reykjavíkur alltaf beitt sér móti því. Ef Alþfl. getur sætt sig við, að það verði samvinnuútgerð með þessu sniði um togarana, vil ég spyrja, hvort það sé í samráði við Sjómannafélag Reykjavíkur, að þeir láta sér til hugar koma slíkan rekstur

Hv. ráðh. sagði, að ef menn hefðu trú á þessu fyrirtæki, mundi fé til þess koma af sjálfu sér. Ég er honum sammála um það, að ef menn hefðu trú á nýrri togaraútgerð, mundi fé berast til hennar, en ég dreg í efa, að þessi trú sé nú fyrir hendi og fullyrði, að hjá miklum fjölda fólks er hún alls ekki fyrir hendi af því, að framkvæmd þessa máls á að vera að svo miklu leyti undir stjórn sósialista.

Hv. þm. Ísaf. og hæstv. atvmrh. virtust draga í efa orð mín um afkomu togaraútgerðarinnar undanfarin ár. Ég skil ekki, hvernig hv. þm. Ísaf. getur efað þau, því eftir því sem ég bezt veit, hafa togarar á Ísafirði ekki verið neinir eftirbátar annara í að gefa tap á rekstri sínum. Ég hefi skýrslu frá félagi togaraeigenda í Reykjavik, þar sem skýrt er frá rekstrarreikningum allra togara þeirra undanfarin ár Ég get sýnt hv. þm. þessa skýrslu, ef þeir vilja. Hér er yfirlit yfir rekstrarafkomu meðaltogara árið 1936, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Á saltfisksveiðum er rekstrarhalli kr. 31055.26, á ísfisksveiðum er rekstrarhalli kr. 10489.11, á síldveiðum er rekstrarhalli kr. 28984.00. Samtals er rekstrarhalli meðaltogara á árinu 1936 kr. 70528.36. — Þá vil ég taka árið 1937, þar er miðað við sama meðaltal. Þá er rekstrarhalli á saltfisksveiðum kr. 28770.26, rekstrarhagnaður á síldveiðum kr. 8367.76 og rekstrarhalli á ísfisksveiðum kr. 28730.22. Samtals er rekstrarhalli þá kr.

49132.72. Þetta eru ekki glæsilegar tölur, en þær eru því miður sannar, og afkoma ársins, sem nú er að liða, er miðuð við reikninga togaranna fyrir það, sem af er árinu. Nú skulu menn ekki halda, að hér sé tekið litið aflamagn til þess að gera skýrsluna sem óálitlegasta, heldur er tekinn meðalafli, en margir togarar hafa auðvitað veitt minna, eins og hv. þm. geta séð af því, að meðal síldarafli togara er talinn 15196 mál.

Þessi skýrsla sýnir það, sem raunar allir ættu að vita, að afkoma togaraútgerðarinnar er mjög bágborin og hefir farið versnandi undanfarin ár.

Í þessu frv. segir svo, að félög sjómanna, verkamanna og annara skuli njóta styrks í þessu skyni. Þetta orð „annara“ er nokkuð teygjanlegt, og þætti mér gott að fá upplýst, hve stór hluti sjómanna og verkamanna þarf að vera á móti hluta þessara annara manna til að félögin njóti styrks. Menn gætu hugsað sér, að einhver efnamaður, eins og t. d. hv. 3. þm. Reykv., legði fram 90% af framlaginu og fengi svo nokkra sjómenn og verkamenn með sér til að leggja fram 10%, sem hann e. t. v. lánaði þeim sjálfur. Gæti ekki slíkur félagsskapur orðið styrksins aðnjótandi? Hvaða skorður eru settar hér fyrir því, að um félög sjómanna og verkamanna þurfi að vera að ræða?

Hv. þm. Ísaf. kunni því illa, að ég taldi rýrnun markaða sem þriðja lið í orsökum að erfiðleikum útvegsins. Það má segja, að það skipti ekki máli, í hvaða röð þessir liðir eru taldir upp, og ég taldi ekki þennan lið síðastan af því að ég telji hann minnstan. Þó má benda á, að afkoma útvegsins var farin að rýrna áður en erfiðleikar á sölu saltfiskjar komu verulega til greina. Árið 1931 voru engar viðskiptahömlur hjá þeim viðskiptaþjóðum okkar, sem aðallega keyptu saltfiskinn, en þá stóð yfir kreppa.

Hv. þm. vildi gera lítið úr því, á hvern hátt ríkisvaldið hefði búið að þessari atvinnugrein. Hann mun hafa nokkra sérstöðu, sem útvegsmaður á Ísafirði, því þar er um bæjarútgerð að ræða, svo hann verður ekki eins hart fyrir skattasvipunni og aðrir útgerðarmenn landsins. En öllum hlýtur að vera ljóst, að með hækkun beinna og óbeinna skatta og með nýjum tollum með nýjum nöfnum eru nýjar verulegar kvaðir lagðar á útveginn. Allt þýðir þetta aukinn rekstrarkostnað. Ég verð að segja, að mig undra þau ummæli hv. þm. Ísaf. stórum, að engir nýir skattar hafi verið lagðir á útveginn, þótt á hverju þingi hafi verið lagðir á hann nýir skattar til að jafna tekjuhalla fjárlaganna. Nú á t. d. að afla ríkissjóði 2,8 millj. kr. nýrra tekna á þessu þingi. Skyldi atvinnulífið ekkert verða vart við það? Hvaðan eru þá þessar álögur teknar?

Þá talaði hv. þm. um verkalaun við útgerðina og sagði að sig furðaði á því, að ég, sem sæti í vel launaðri stöðu, skyldi vera að telja eftir kaup til verkamanna og sjómanna. Það er hægt að slá slíku fram á kosningafundum, en það á ekki við hér á Alþingi. Það er ekki hægt að reka útgerðina ár eftir ár með tapi, eins og hv. atvmrh. sagði líka. Það verður að skera niður útgjöld á öllum sviðum útgerðarinnar, ef hún á að geta haldið áfram.

Hæstv. atvmrh. þarf ég ekki að svara miklu.

Hann sagði, að Ísfirðingar hefðu fengið leyfi til þess að flytja 400 smálestir af frystum fiski á markað í Norður-Ameríku, og það er rétt, en umboðsmaður sölusambandsins réð frá því, að fiskurinn væri sendur. Niðurstaðan varð því sú, að Jón A. Jónsson sendi aðeins 5 smálestir, er seldust á 240 kr. smálestin. Umboðsmaður fiskimálanefndar seldi hinsvegar 130 smál., með þeim árangri, að fiskimálanefnd varð að borga 100 kr. með hverri smálest. Tjónið varð um 120 þús. kr. Sést af þessu, hvort fiskimálanefnd eða Jón A. Jónsson hafa hagað sér skynsamlegar.

Það er alger óþarfi af hæstv. atvmrh. að vera að lofsyngja fiskimálanefnd fyrir karfann. Til þeirra mála hefir nefndin lagt alls 5660 kr. Það, að þarf mál komst á góðan rekspöl, er fyrst og fremst að þakka ungum fiskifræðingi, sem benti á bætiefni karfalýsisins, sem áður voru ókunn, og duglegum útgerðarmönnum á Patreksfirði, sem byggðu verksmiðjur til að vinna úr karfanum.

Hæstv. atvmrh. kvartaði yfir árásum við sig. Það er nú svo með hann og ýmsa hörundssára samherja hans að þeir kalla allt árásir, þótt aðeins sé um heilbrigða og hógværa gagnrýni að ræða. Þeir hófu þegar í þessu máli lofsöng um fiskimálanefnd, og það var sá lofsöngur, sem knúði þessa gagnrýni fram. Annars hófst þessi lofsöngur strax og fiskimálanefnd var stofnuð. Einu sinni kom í Alþýðubl. stór og skrautleg mynd af formanni fiskimálanefndar fyrir að hafa sent á erlendan markað 2000 smálestir — sem voru raunar aðeins 200 smál. — af fiski, sem seldist með 50 þús. kr. tapi. Einu sinni voru sendar nokkrar niðursuðudósir til Ítalíu, og kom í tilefni af því forsíðugrein í Alþýðubl.

Ég er þakklátur hæstv. atvmrh. fyrir upplýsingar hans um markað fyrir beinlausan fisk, þótt ég búist við, að ég sé eins kunnugur Argentínu-markaðinum eins og hann. Líka höfum við haldið áfram að leita fyrir okkur um markaði í Norður-Ameríku. Hingað kom þaðan maður í fyrra, sem hefir búið um fiskinn eins og hann telur hentast fyrir þann markað, og gerir sér vonir um nokkra sölu. — Hæstv. ráðh. sagði, að kapphlaup væri á milli sölusambandsins og fiskimálanefndar. Ég get ekki séð fram á neina hættu af því kapphlaupi. En sannleikurinn er sá, að jafnan hefir verið lagður fjötur á sölusambandið, utan saltfisksmarkaðarins, til þess að spilla ekki fyrir formanni fiskimálanefndar.

Þá minntist hæstv. atvmrh. á togarana. Hann vildi ekki viðurkenna, að sósialistar hefðu lækkað seglin í kröfum sínum um bæjar- og ríkisrekstur á togurum, þótt þeir séu nú úr 10 bæjarlög ríkisrekstrar togarum komnir niður í 2, sem ekki mega vera reknir af því opinbera. Nei, það má segja, að þeir hafi ekki lækkað kröfurnar, þótt þeir hafi nú skotið niður fyrir sjálfum sér 8 togara af 10. Hæstv. ráðh. spurði ennfremur, hvort ég haldi, að togurum fjölgaði, ef hann færi frá völdum. Já, ég held, að svo yrði. Ég held, að ef þjóðin losnaði við afskipti sósíalista af atvinnuvegunum, myndi fljótlega færast í þá aukið fjör, sem m. a. myndi leiða til aukningar á togaraflotanum. Þess vegna held ég, að þjóðinni væri fyrir beztu, að hv. atvmrh. færði sig milli stóla hér á Alþingi. — Hann sagði m. a., að ég hefði verið að kvarta yfir því, hve togararnir væru fáir. Ég hefi aldrei beðið um ríkistogara til að bæta úr þeirri fækkun, en er hinsvegar fylgjandi styrkjum til togarafélaga útgerðarmanna og sjómanna.

Það var helzt að heyra á hv. þm. Ísaf., að þessir 2 togarar ættu að geta orðið til í einni svipan. En hæstv. ráðh. tóki ekki dýpra í árinni en svo, að hann sagði að þeir gætu ekki orðið til á næsta ári.

Þá hafði hann það rétt einu sinni enn eftir hv. þm. G.-K., að togarar vorir væru fúaduggur og ryðkláfar. Ég vil nota hér tækifærið til að lýsa yfir því, að þessi ummæli eru algerlega úr lagi færð. Hv. þm. G.-K. sagði, að ef útgerðin vegna síversnandi afkomu gæti ekki haldið skipunum við, yrðu togararnir fljótlega að fúaduggum og ryðkláfum. En hingað til hafa útgerðarmenn, þrátt fyrir alla sína miklu örðugleika, reynt að koma í veg fyrir þetta.

Hæstv. ráðh. sagði, að útgerðin hefði aldrei verið styrkt sem nú, með þessu frv. En hvenær hefir togaraútgerðin verið styrkt af því opinbera? Ég hefi a. m. k. ekki orðið var við það.

Eitt er víst, og það getur ekki lengur dulist þeim, er sýnt hafa útgerðinni tómlæti og jafnvel óvild undanfarið, að framtíð og afkoma sjávarútvegsins er í miklum vanda. Tölur þær, sem ég las upp, sýna ástandið nú, og það er ekkert, sem bendir til þess nú, að framtíðin verði bjartari. Þjóðfélagið verður því að finna ráð til að koma í veg fyrir hrun þessa atvinnuvegar. Norska útgerðin hefir lent í sömu ógöngum, en þar styrkir nú ríkisvaldið útgerðina árlega með stórfé. Og fyrst og fremst verður að styrkja þau veiðitæki, sem til eru, togara og vélbáta, svo hægt sé að ýta þeim úr vör, hvaða ráð, sem valin eru þess.