15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Út af því. sem hv. þm. Vestm. sagði hér um fund þann, sem haldinn var í stjórnarráðinu með útgerðarmönnum, get ég viðurkennt, að það er rétt, að þeim var lofað svörum svo fljótt sem stj. gæti gefið þau. Að nokkru leyti hafa þau svör komið hér fram, m. a. með því, að fallizt hefir verið á, að horfið skyldi að nokkru frá gjöldum þeim, er lögð skyldu á útveginn. En að fullkomin svör hafa ekki verið gefin, er af því, að ég hefi verið frá í tvo daga.

Annars get ég endurtekið það, sem ég sagði á umræddum fundi, að ef hver togari tapaði að meðaltali 110 þús. kr. á ári og hver vélbátur 10 þús. kr., eins og skýrsla útgerðarmanna hermir, þá ættu allir að geta verið sammála um, að það er hinu opinbera um megn að rétta við útgerð, sem byggir á slíkum áætlunum. Með því að gera ráð fyrir þeim afla og því verði, sem þar er byggt á, getur útgerðin sýnilega ekki borið sig. En ég vil annars geta þess, að ég sé ekki ástæðu til að miða við þessar tölur, því að nú er hægt að selja blautan fisk fyrir 30 aura kg., og auk þess er engin ástæða til að ætla, að á næstu vertíð verði annar eins aflabrestur og orðið hefir á þeirri síðustu.

Eins og ég hefi áður sagt, vildi ég láta athuga, hvort ekki er hægt að afnema toll á kolum og olíu, ekki af því, að hið opinbera muni ekki um það fé, heldur af því, að ekki er nema sjálfsagt, að ríkið athugi, hvort það getur ekki sleppt einhverjum slíkum tekjustofnum, þegar nauðsyn útgerðarinnar er eins brýn og nú er. Líka mætti athuga, hvort ríki og bæjarfélög gætu ekki létt af hafnargjöldum að einhverju leyti.

Hvenær greiðist svo úr, að það sjáist, hvernig afkoman muni verða á næsta ári, getur enginn sagt. Um áramót má ef til vill sjá nokkru lengra fram en nú. En ennþá hlýtur allt að vera í talsverðri óvissu um þetta.

Með brtt. sinni á þskj. 388 leggur hv. þm. til, að 3. töluliður 3. gr. verði felldur niður og þar með heimildin til að kaupa 2 togara. En mér skildist hann ekki gera sér ljósa grein fyrir því, hvernig þetta mál væri hugsað. Hann gekk út frá því, að kaupverð hvors togara myndi ekki verða undir 700 þús. kr. Ég tel vafasamt, að það geti farið niður úr 750 þús. kr., ef um nýtízku togara á að vera að ræða. (JJós: Ég er sömu skoðunar). 25% af þessari upphæð er rúmlega 187 þús. kr., eða, ef um 2 togara er að ræða, 375 þús. kr. Hv. þm. dró þessa upphæð frá tillaginu til fiskimálasjóðs á einu ári, en tilætlunin hefir hinsvegar verið sú, að þetta skyldi lagt fram á tveim árum að minnsta kosti. Tekjur fiskimálasjóðs eru nú um 120 þús. kr. Framlag er 400 þús. kr., eða samtals 520 þús. kr. Auk þess hefir sjóðurinn ýmsar smærri tekjur, og má gera ráð fyrir, að honum áskotnist þannig alls 520–550 þús. kr. á ári. Ef hann þarf að leggja fram til þessara kaupa um 180 þús. kr. hvort árið, ætti hann að hafa afgangs eitthvað kringum 350 þús. kr. hvort árið til annara aðgerða, frystihúsa, niðursuðuverksmiðja o. s. frv. Ég held því, að ekki sé ástæða til að ætla, að þessar upphæðir nægi ekki þessi fyrstu 2 ár. Nú þegar er búið að veita verulegar upphæðir til frystihúsa. Auk þess tel ég ekki hyggilegt að fara hraðara í útvíkkun á þessari starfsemi en markaðir leyfa. En ég held, að langt megi komast með þetta fé, þó að það myndi var, ófullnægjandi, ef gengið væri út frá því, eins og hv. þm. gerir, að fyrir liggi á næstu árum að breyta okkar fiskframleiðslu í form hraðfrystingar og niðursuðu. Ég trúi því ekki, að slíkt geti orðið á næstu árum, því að það krefst mikils undirbúnings, ekki sízt í markaðslöndunum. Hv þm. Snæf. tók það líka fram í ræðu í Nd., að varlega yrði að fara í þessu efni og með fullri forsjá. Ég er honum sammála um þetta. Mig minnir líka, að í frv. sjálfstæðismanna í Nd. um þetta efni hafi verið gert ráð fyrir, að 120–l50 þús. kr. á ári myndi nægja til þessara hluta. Ég held því að hv. þm. Vestm. þurfi engu að kvíða. þó að 3. liður verði samþ. Með því, sem sjóðurinn hefði þá afgangs, mætti eflaust komast langt á næstu 2 árum um aðstoð við hraðfrystingar- og niðursuðufyrirtæki.

En að því er snertir nauðsynina á nýjum togurum, þá viðurkenndi hv. þm. hana. Mér skildist þó sem nokkuð annað vekti fyrir honum en mér í þessu. Fyrir mér vakir þetta: Það hefir verið talið um nokkurra ára skeið, og fastast fram haldið af togaraeigendum nú, að togaraútgerð geti ekki borið sig á þessu landi. Allir sjá, hvert stefnir. ef þetta er rétt. Ef togaraveiðar geta ekki svorað kostnaði, þó að létt sé af þessari útgerð sköttum og skyldum og greitt fyrir henni eins og hægt er, þá hljóta togaraveiðar hér að leggjast niður á næstunni. Nú er það skoðun mín og minna flokksmanna, að ekki sé enn fengin full reynsla um þetta. Ætlun mín er nú sú, að fá hingað 2 nýtízku skip, sem eiga að geta skorið úr þessu máli. Slík skip, sem eru þannig útbúin, að þau geti notað hvern ugga, standa auðsjáanlega miklu betur að vígi en hin eldri. Vélaútbúnaður þeirra er allur miklu sparneytnari en hinna. Fyrir mér vakir að gera tilraun til að fá úr því skorið, hvort ekki sé hægt að láta slíka togara, smíðaða með fullkomnasta hætti nútímatækni, bera sig hér á landi. Einstakir menn geta ekki eða vilja ekki leggja fram fé í þessu skyni. En þjóðfélagið á hinsvegar mikið undir því, að úr þessu fáist skorið. Er því ekki nema sjálfsagt, að það leggi fram þetta áhættufé, og jafnvel þótt meira væri.