14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Pálmason:

Ég skal fyrst víkja að því atriði, sem hv. frsm. síðast kom að, sem sé launakjörum bankastjóra Búnaðarbanka Íslands. Það er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm., að ég ætlist til þess, að lækkuð séu laun þessa bankastjóra eins út af fyrir sig. En þar sem nú er starfandi mþn. í bankamálum yfirleitt, vil ég ekki gera neinar breyt. á þessum lögum, og þar með ekki binda mig við að samþ. neina bankastjóralaun, hvorki þessi né önnur. Sannleikurinn er sá, að launakjör manna í bönkum, frá þeim æðsta til hins lægsta, eru mikið hærri en teljast má eðlilegt og sanngjarnt, og er þetta m. a. eitt af þeim atriðum, sem til athugunar hlýtur að koma í sambandi við þær breyt., sem gera á í bankamálum okkar lands. Þess vegna kemur það ekki að neinu leyti við metnaði mínum eða hv. 2. þm. Skagf. fyrir landbúnaðarins hönd, hvað gert er í þessum sökum, því að deilan stendur aðeins um það, hvort ástæða er til að samþ. nokkrar breyt. á þessum lögum eða ekki.

Viðvíkjandi því, að það valdi ekki neinni truflun á störfum mþn., þó að frv. sé samþ., kann það rétt að vera, en mér finnst það óneitanlega dálítið óviðfelldið, að Alþ. sé á hverju einasta ári að krukka smátt og smátt í löggjöf, sem bersýnilega þarf breyt. við, hvað Alþ. sjálft hefir viðurkennt með því að skipa mþn. til þess að endurskoða þá löggjöf.

Þá vil ég benda á það, að mér finnst sá hluti n., sem vill samþ. þetta frv., ekki vera fyllilega sjálfum sér samkvæmur, þar sem við nú nýlega höfum samþ. brtt. við önnur lög, sem hefir það í för með sér að auka mjög störf stjórnar Búnaðarbanka Íslands frá því, sem nú er, og á ég þar við byggingarmál sveitanna. Ég tel því, að mjög geti komið til athugunar, hvort ekki sé rétt að hafa bankastjórana tvo frekar en einn og að sleppa þessum fyrirhugaða gæzlustjóra, sem gert er ráð fyrir í frv.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Þetta mál liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, og ég geri ráð fyrir, að þeir, sem hér eru viðstaddir, geti gert sér ljóst, hvort réttmætt sé að samþ. þetta frv. eða þá dagskrá, sem ég hefi lagt hér fram.