15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég skal leitast við að svara þessari fyrirspurn, og þá ætla ég fyrst og fremst að svara henni með því að benda fyrirspyrjanda á, að frv. því, sem lá fyrir síðasta þingi og var á þskj. 217, fylgdi grg. frá dr. Jóni Vestdal, þar sem þetta er allt reiknað út. Þar komst hann að þeirri niðurstöðu, að ef 1% af undanrennu er blandað í 1,5 kg. af rúgbrauði, þá hækki það um 1,3 aura. Þessi útreikningur fylgdi með frv. eins og það lá fyrir þinginu í fyrra á þskj. 217.

Viðvíkjandi því, sem hv. 9. landsk. var að tala um, þá má vel vera, að betra sé að orða þetta öðruvísi. En þegar þess er gætt, að þarna er aðeins um heimild að ræða fyrir landbrh. að ákveða þetta, þá leiðir af sjálfu sér, að hann þarf ekki að ákveða þetta í allt brauð. Hann getur notað heimildina til að ákveða blöndun í þær brauðtegundir, sem honum finnst ástæða til, en hann þarf ekki að ákveða í allt brauð.

Það kann vel að vera, að heppilegra sé að fella burtu þetta „allt“, en mér finnst, að það þurfi ekki, þar sem aðeins er um heimild að ræða. Það liggur því opið fyrir, að það þarf ekki að nota heimildina til að ákveða blöndun í þær brauðtegundir, sem enginn kærir sig um að hafa duft í. Það er því ekki nein þörf á að breyta þessu, þó ég fyrir mitt leyti hafi ekkert á móti því.