18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1938

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki tefja tímann mikið. — Ég á hér aðeins 2 brtt., og er önnur þeirra um, að veittar verði 10 þús. kr. til vegar fram Ólafsfjörð, sem tekur við af Lágheiðarvegi. Það er nú þegar búið að samþ., að þarna verði gerður bílfær vegur yfir Lágheiði til Skagafjarðar, og nú er á fjárl. fjárveiting til að leggja veg hinumegin frá, frá Stíflunni. Ég hafði líka vænzt þess, að Ólafsfirðingar hefðu verið látnir njóta nokkurrar fjárhæðar á fjárl. til þessa vegar þeirra megin. Ég hygg, að þetta sé eini hreppurinn á landinu, sem engrar fjárhæðar á að njóta til vega. Þeir eiga fulla kröfu til að fá eitthvert fé til þess eins og aðrir, auk þess sem þetta þorp er þannig í sveit sett, að því er nauðsynlegt að fá veg vestur yfir í Stífluna. Ég vil þess vegna vænta þess, að þingið samþ. þessa upphæð.

Ég hefi einnig borið fram till. um 300 kr. styrk til Jóns Einarssonar í Rauðhúsum, til framfærslu fávita, sem hann hefir á framfæri. Þetta hefir verið á fjárl. 3 undanfarin ár. Ég vænti því, að Alþingi fari ekki að kippa að sér hendinni með þessa litlu fjárhæð. Ég skal geta þess, að nú er komin í fjárl. nokkur upphæð, 5 þús., sem á að verja til framfærslu fávita. Ég mun draga till. mína til baka, ef ég fæ að heyra góðar undirtektir um, að þessi maður fái af þessari upphæð með sérstöku tilliti til þess, að hann hefir fengið þessa upphæð áður beint úr ríkissjóði og samþ. á fjárl.

Um einstakar brtt. ætla ég ekki að tala; það gera þeir, sem þær flytja. Það er aðeins ein brtt., sem ég vil mæla með. Það er brtt. frá hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Ak. um aukinn styrk til báts fyrir Norðurlandi. Mér er kunnugt um, að þeir, sem hafa rekið þennan bát á undanförnum árum, hafa ekki fengið af honum þær tekjur, að hann hafi getað borgað sig þrátt fyrir þennan styrk, sem þeir hafa fengið frá Alþingi. Það er öllum þingheimi kunnugt að því bréfi, sem þeir hafa skrifað til Alþingis, að þeir hafa tekið á sig lengri ferðir en þeir eru skyldir til, með sérstöku tilliti til, hve slæmar samgöngur eru þarna, sérstaklega austur um. En það hefir reynzt svo, að beztu ferðirnar eru vestur um til Siglufjarðar, og svo er stutt leið til Hofsóss og Sauðárkróks. Ég vænti, að till. verði samþ.