20.12.1937
Efri deild: 53. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Magnús Jónsson:

Það er nú orðið svo liðið á daga þingsins, að það er ekki rétt að vekja miklar almennar umr. um þetta mál. Ég hefi samt hálfpartinn hugsað mér, þegar málið kom til 3. umr., að tala dálítið almennt um það, en af því að það var rætt nokkuð almennt við 2. umr., get ég leitt það hjá mér.

Það, sem mér finnst langalvarlegast við þessa breyt., sem nú er verið að gera við þessi l., er það, að sú þróun, sem orðið hefir í áttina til offramleiðslu mjólkur, a. m. k. á verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, hlýtur að verða enn meiri eftir því nýja skipulagi, sem nú á að koma á með þessum l., og það getur að mínu viti ekki leitt út í annað en hækkun á mjólkinni.

Eins og ég gat um við 2. umr., þá er mjólkin sú neyzluvara, sem fjöldi heimila beinlínis heldur sér uppi á. Sérstaklega eftir að aðrar vörur hafa hækkað í verði jafnt og þétt, hafa menn aukið mjög mikið mjólkurkaup, ekki eingöngu vegna þess, að mjólkin er farin að verða með ódýrari neyzluvörum, heldur líka vegna þess að mjólkin er holl. Og ef til þess kemur, að mjólkin verður hækkuð í verði, þá er ég vantrúaður á þann Fróðafrið, sem spáð hefir verið, að renna muni upp með þessari löggjöf, því að verðhækkun á mjólkinni verður áreiðanlega stórkostlegt ófriðarefni. Það er þessi mikla ófæra, sem bersýnilega er stefnt út í með því að ætla sér að jafna mjólkurverðið til fulls með því einu að láta mjólkina sjálfa gera það. Ég vil ekki vera með að lögleiða slíkt skipulag, sem bersýnilega hlýtur að leiða til þess, án þess þó, að þeir, sem framleiða mjólk á bæjarlandi Reykjavíkur, séu nokkuð betur settir en áður.

Í raun og veru er þetta ákaflega fjarstætt fyrirkomulag, að hafa slíka löggjöf, að íbúar 100 km. frá Reykjavík, á langstærsta undirlendi landsins, þurfi ekkert annað að gera en að framleiða mjólk og láta hana svo fara í hverskonar vinnslu sem er og hvað ódýra vöru sem er, og þá sé þeim tryggt sama verð og þeim, sem geta komið með mjólkina nýja á markaðinn og selt hana þar hæsta verði. Þetta er svo fjarstætt fyrirkomulag, að óhugsandi er annað en að það leiði út í ófæru og sprengi af sér þennan ramma.

Ég hefi ekki viljað bera fram brtt. við frv., sem færi í þá átt, að breyta algerlega þessu verðjöfnunarfyrirkomulagi; það mun ekki tjóa, en ég vildi aðeins setja hér fram þau varnaðarorð, sem ég vildi láta fylgja þessu frv. frá minni hálfu um leið og það verður afgr. Með þessu er verið að gera mjólkina að svo hæpnu máli — ef svo mætti segja — eins og mögulegt er. Þó að minar brtt. verði samþ., þá er hægt eftir sem áður að breyta verðinu. Það er mest skriffinnska og tilkynningar, sem ég legg til, að tekið verði upp, en ég geri það til þess að þær verðlagsbreyt., sem kynnu að verða gerðar, og þær afleiðingar, sem þær kynnu að hafa fyrir alþýðu manna í Hafnarfirði og Reykjavík, skuli ekki ganga fyrir sig hljóðalaust og þeir aðiljar, sem hlut eiga að máli, skuli verða að koma sér saman um það, áður en það er gert. Af þeim ástæðum hefi ég borið fram brtt. mína, sem gengur út á það, að þegar verðjöfnunargjald er ákveðið af mjólkursölunefnd, þá sé sjálfsagt að tilkynna það þeirri nefnd, sem skipuð er til og fengið hefir það vald að ákveða mjólkurverðið. Ef svo þeirri nefnd þykir verðjöfnunargjaldið ákveðið þannig, að það sé veruleg hætta á því, að það valdi verðbreytingu, eða nefndin sjái sér ekki annað fært en að breyta verði mjólkurinnar, þá láti hún mjólkursölunefnd svo aftur vita það, svo hún viti, hvað hún er að gera þegar hún er Að ákveða verðjöfnunargjaldið, ef hún er að stefna út í verðbreyt. á mjólkinni. Þá hefi ég einnig í samræmi við þetta sett það inn í þessa brtt., að haldi mjólkursölunefnd fast við ákvörðun, sem hlýtur að leiða til verðhækkunar á mjólkinni, þá skuli málið sent bæjarstjórn, til þess að hún geti sagt álit sitt á málinu. Þar mun verða litið á það frá sjónarmiði þess almennings, sem velur bæjarstjórnina, og menn munu áreiðanlega sjá, að rödd almennings mun koma greinilega í ljós á þeim vettvangi. Ég álít, að yfirleitt eigi menn ekki að gera svo stórar ráðstafanir, sem hér um ræðir, þannig, að þeir komist létt út af því.

2. brtt. mín er aðeins í samræmi við þetta, því þar er talað um, að við verðákvörðun á mjólkinni skuli hlutaðeigandi bæjarstjórn gefinn kostur á því að segja sitt álit á málinu. En ég verð að segja, að það er ekki fýsileg eða falleg gjöf, sem rétt er að heimilum í þessum tveimur stóru kaupstöðum landsins, þar sem 1/3 landsmanna býr, þar sem er löggjöf, sem stefnir beint út í það, að höfuðneyzluvara alls almennings verði hækkuð.

3. brtt. mín er við 3. gr., um það, að úr því að ekki fekkst samþ. brtt. mín við 2. umr. um það, að meðalársnyt skyldi reiknuð eftir því, sem hún í raun og veru er bæði í Rvík og Hafnarfirði, þá sé samt ársnytin ákveðin nær því, sem hún raunverulega er, heldur en gert er í frv. En það er sögn mjög margra manna, sem eru þaulkunnugir mjólkurframleiðslu og eru sumir sjálfir mjólkurframleiðendur, að 3000 l. ársnyt nái engri átt, og það sé miklu nær 2500 lítrum, og þó ef til vill heldur of en van að ákveða .það. Það eru sjálfsagt ýmsar ástæður, sem liggja til þess, að þessi ranga tala 3000 lítrarnir, er komin á framfæri. Hún er, eins og ég hefi getið um, miðuð nokkuð við einstök kúabú, sem sérstaklega eru rekin til þess að hafa kýrnytina sem hæsta, en það eru einnig fleiri, sem koma til greina, og þar á meðal ein, sem maður getur sagt, að sé skopleg, en getur þó valdið því sama. Það er rík tilhneiging hjá sumum að hafa gaman af því að sýna náunganum, hvílíkar ágætisskepnur þeir hafi og hve sniðugir þeir séu að reka sín bú, og gorta af því, hversu mjólkin flæði úr kúnum. Þeir eru eins og maður, sem hefir gaman af að monta af því, hvað hann eigi góða reiðhesta.

Þær skýrslur, sem byggt hefir verið á og mynda grundvöllinn undir 3000 lítra kenningunni, eru mjög svo óáreiðanlegar og hljóta að vera byggðar á óáreiðanlegum upplýsingum. Ég þarf ekki að tala um, hversu nú er ástatt í þessu efni, þar sem fóðrið er yfirleitt vont, sem skepnunum er gefið, svo það er líklegt, að ársnytin á þessu ári verði nær 2000 lítrum heldur en 2500, hvað þá heldur fjarstæðunni 3000. Mér finnst ekki nema sanngjarnt að ákveða þetta nú eins nærri því rétta eins og mögulegt er. Ég vil segja, að samt sé nægilega á ýmsan hátt þröngvað kosti þeirra manna, sem brotizt hafa í því að rækta bæjarlandið og framleiða hér mjólk slíkt nauðsynjaverk eins og það var og er, þó ekki sé þar að auki verið að byggja gjöldin, sem þeir eiga að greiða, á alröngum upplýsingum.

Ég hefi þess vegna lagt til, að þessu 3000 lítra ákvæði sé breytt í 2500 lítra, því ég held, að allir verði að viðurkenna, að það er hið rétta.