15.12.1937
Neðri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

140. mál, mæðiveikin

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti! Þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé samkv. þingsköpum aðeins borið fram af landbn. Nd., þá má telja, að báðar landbn. standi að frv. Þær hafa í sameiningu annazt undirbúning frv. og gengið frá því í öllum aðalatriðunum, fyrst með undirnefnd, sem skipuð var mönnum úr báðum n., og síðan með sameiginlegum fundum beggja n. Einnig hafa n. haft samvinnu við ríkisstj., og er mér óhætt að segja, að allir þessir aðiljar standa að frv. í öllum aðalatriðum, enda var n. ljóst, að þar sem svo áliðið er þings, var nauðsynlegt að ganga þannig frá frv., að sem bezt samkomulag væri tryggt um það fyrir fram, svo að vissa fengizt fyrir, að það gengi fljótt í gegnum þingið.

Eins og fyrirsögn frv. ber með sér er það tilraun af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr því tjóni, sem bændur og búalið á mæðiveikisvæðinu hefir orðið fyrir af völdum þeirrar veiki, sem kölluð er mæðiveikin, en áður hefir sérstaklega verið tengd við Borgarfjörð. Ekki er unnt að gefa neina skýrslu um það tjón, sem veikin hefir valdið, þar sem engar skýrslur eru til um það, hversu mikil fækkun hefir orðið á sauðfé síðan 1936, þegar fé var í fullri tölu, a. m. k. á mestum hluta veikindasvæðisins. Veikin hefir vitanlega gert mestan usla í Borgarfirði, þar sem hún byrjaði, svo og Mýra- og Vestur-Húnavatnssýslu. Þessar sýslur eru nú að mestu leyti undirlagðar af veikinni, ennfremur mikill hluti Dalasýslu, svo að þar munu nú ekki vera nema tveir hreppar, sem enn eru mikið til lausir við hana. Austur-Húnavatnssýsla er undirlögð hálf, eða austur að Blöndu. Þá er hún komin í 3 hreppa Strandasýslu, 3–1 hreppa í Árnessýslu, 2–3 í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og að síðustu hefir orðið vart við hana í Skagafirði.

Eins og ég sagði áðan, er ekki hægt að segja með neinni vissu, hversu mikil fækkun hefir orðið af völdum veikinnar, en í fardögum 1936 var fjárfjöldinn í þessum þremur sýslum, sem mestu tjóni hafa orðið fyrir, rúmlega 93700. Um fækkun í einstökum hreppum er ekki gott að segja, en ég hefi þó skýrslu yfir fækkun í einum hreppi á þessu svæði, sem sé Hvítársíðu í Borgarfirði. Þar hefir veikin geisað í 2 ár, þannig að Hvítársíðan er ekki meðal þeirra hreppa, þar sem veikin hefir staðið lengst, og ekki heldur einn af þeim, þar sem hún hefir staðið skemmst. Fækkunin í þessari sveit er þannig, að í fardögum 1936 voru þar 4155 kindur, en í fardögum 1937 voru þar 2863. Nú í haust var féð talið eftir að það var komið í hús, og var þá talan komin niður í 1850. M. ö. o., fækkunin þarna hefir orðið tæplega 55%. Ég geri ráð fyrir, að það sé nokkuð yfir meðallag, sem fækkunin hefir numið á þessu svæði, svo að ekki er vert að gera ráð fyrir, að fækkunin í þessum þremur sýslum sé yfir 40–15%, en ef það væri, sem ég hygg að láti nærri, þá mundi fjártalan vera komin úr rúmum 93 þús. og niður í ca. 50 þús. Sjá allir, hversu geysilegt hrun það er í fjárstofninum.

Nú skal ég geta þess, að það er ekki svo, að öll þessi fækkun hafi farið í ekki neitt og orðið einskis virði fyrir bændur, heldur stafar fækkunin að nokkru leyti af því, að menn hafa sett færra á af ótta við veikina. Þannig hefir í þessum sýslum varla verið sett á nokkurt lamb í haust og þar að auki slátrað mörgu af hinu yngra og vænna fé. En þó að svona sé ástatt, þá á hér við gamla máltækið, að þá er hver fiskur farinn þegar hann er barinn. Þegar búið er að fækka þannig bústofninum, verður lítið úr þessu fé í höndum manna. Kröfur úr öllum áttum og þörf fyrir greiðslur verða þess valdandi, að menn verða að láta það af hendi rakna, sem þeir fá fyrir féð, og þar með eru þeir sviptir þeim afkomumöguleikum, sem þeir hafa haft vegna sauðfjárstofnsins. Á þetta ekki eingöngu við bændurna sjálfa, heldur einnig þá búleysingja, sem í þessum sveitum hafa verið, því að fótunum er einnig alveg kippt undan þeim og þeirra afkomumöguleikum. Afleiðingar fjárpestarinnar munu því koma niður bæði á bændum landsins og eins því lausafólki, sem hefir dvalið í þessum sveitum, þannig að það hlýtur að hverfa burt úr sveitunum og leita atvinnu annarsstaðar, ef ekkert er gert til að ráða bætur á þessu tjóni. Auk þess er sýnilegt, að þegar svo sem ekkert er sett á, þá hlýtur fjárstofninn að minnka fljótlega, bæði af venjulegum ástæðum og eins af völdum fjárpestarinnar.

Efni þessa frv. er aðallega þrennskonar. Í fyrsta lagi er þar gerð tilraun til að vernda ábúðarrétt bænda, a. m. k. fyrir það ár, sem frv., ef að l. verður, á að gilda, þannig að þeim, sem vegna greiðsluörðugleika af þessum sökum geta ekki greitt tilskilda vexti og afborganir af veðlánum sínum, sem hvíla ýmist á jörðum þeirra eða lausafé eða hvorutveggja og vernda þá frá að gengið verði að þeim af þeim sökum. Vitanlega er það aðalatriði, að þeir bændur, sem á þessu svæði búa, geti haldizt við á jörðum sínum áfram, en eins og sakir standa nú, tel ég engar líkur til, að nýir bændur fari að flytja inn á það sýkta svæði. Þess vegna er lagt til í frv., að á árinu 1938 verði varið 150 þús. kr. til greiðslu vaxta fyrir þá bændur, sem í greiðsluþrot eru komnir af völdum fjármissisins, og hjálpa þeim þannig til að geta setið kyrrir á jörðum sínum. Ég verð að segja, að þessi fjárhæð er að nokkru leyti áætluð út í bláinn. Við höfum að vísu farið í gegnum skuldir og skuldbindingar bænda á þessu svæði og vitum að vaxtagreiðslur þessara bænda nema miklu meiru en þessari upphæð. En við hyggjum þó, að mjög mikið megi hjálpa þessum bændum, ef 150 þús. kr. verða fyrir hendi til þess að miðla til manna en af erfiðum fjárhagsástæðum ríkisins, sem öllum eru kunnar, höfum við ekki treyst okkur til að fara fram á hærri upphæð en þetta, en reynsla um það, hvað mikils þarf með í þessu efni, fæst á þessu ári, þannig að hægara verður að gera áætlun um þessa upphæð á næsta Alþ. Þetta er þá fyrsta atriðið í þessu frv., sem sé að reyna að tryggja bændum ábúðarréttinn, bæði með því að greiða hluta af vöxtum af þeim lánum, sem á jörðum þeirra og búum hvíla, svo að ekki verði að þeim gengið, og sömuleiðis að greiða afgjald fyrir þá leiguliða, sem hafa komizt í greiðsluþrot af sömu ástæðum, svo að þeim verði ekki sagt upp ábúðarjörðum sínum. Um þetta fjallar a-liður 1. gr.

Þá vil ég minnast á b-liðinn, sem er um það, að lagt verði til hreppavega og sýsluvega á þessu svæði allt að 110 þús. kr. Þetta á að gera til að auka atvinnu heima fyrir, til þess að bæta upp að nokkru þann atvinnumissi, sem bændur hafa orðið fyrir út af hruni fjárstofnsins. Það er viðurkennt, að ekki nærri því allir bændur geta notað sér þessa atvinnumöguleika, því að þótt bú þeirra hafi minnkað, þá eiga þó flestir a. m. k. eftir nokkurn hluta fjárstofnsins og þar að auki kýr og hesta, sem gerir það að verkum, að þeir eru bundnir heima við bú sín mestan hluta ársins og geta ekki frá þeim farið, þótt ekki sé fullkomin vinna fyrir þá heima fyrir að annast þennan hluta bústofnsins. En eins og ég sagði áðan, þá eru það ekki aðeins bændur, sem verða fyrir tjóni af völdum veikinnar, heldur líka búlausir menn, sem í sveitum eiga heima og hafa haft féð sér til framfæris, a. m. k. að nokkru leyti, og það er ekki hvað sízt til að reyna að tryggja, að þessir menn fari ekki úr sveitunum, að þessi fjárhæð til vegagerða er lögð fram, svo að menn, sem jafnvel að öðru leyti stunda heimilisstörf, eigi hægara með að fá vinnu. Er því lagt til í frv., að 110 þús. kr. verði varið til vegagerða, og þá helzt á þeim stöðum, þar sem hentugast er atvinnunnar vegna og sömuleiðis til þess að létta undir með framleiðslu mjólkurafurða og hjálpa mönnum þannig til að koma sér upp nýrri atvinnugrein í stað þeirrar, sem nú hefir brugðizt. Þetta getur verið til undirbúnings túnyrkju og framræslu á engjum og því orðið til atvinnu í atvinnuleysinu. Vegabótaféð og hækkun jarðabótastyrksins er einskonar atvinnubótafé til manna, sem þarna um ræðir. Það er tilraun til að koma á nýjum framleiðsluháttum.

Þá skal ég nefna c-liðinn um gróðurhús. A. m. k. í nokkrum sveitum er góð aðstaða til að hafa gróðurhús, því að hverasvæði eru víða mikil. Það er rétt að beina starfskröftum þeirra manna, sem eru atvinnulausir vegna fjárpestarinnar, inn á þetta nýja svið. Sömuleiðis er styrkur til rjómabúa allt að ½. Hingað til hafa rjómabú verið styrkt að ¼, en nú viljum við gera þessa undanþágu, og gætu þá bændur í Húnavatnssýslu og Dalasýslu reynt að beina sinni framleiðslu í þá átt að framleiða meira af smjöri. Auk byggingarstyrks til rjómabúa og gróðurhúsa má segja, að vegagerðir sé einn liðurinn í að koma á fót nýjum atvinnugreinum.

Þá vil ég minnast á fyrirkomulagið á úthlutun styrkjanna. Það gefur að skilja, að það er svo margt, sem þarf að taka tillit til, þegar ákveðið er um úthlutun fjár. Það verður að koma viðbót inn í reglugerðina um frekari framkvæmdir. Við hugsum okkur, að framkvæmdinni verði svo fyrir komið, að hún sé í höndum 3. manna n., sem landbrh. skipi samkv. tilnefningu landbn. Alþ., en til ráðuneytis verði 2 menn úr hverri sýslu. Verði svo leitað leiðbeininga hjá sýslufulltrúunum um allt, sem snertir þann aðilja, sem hlut á að máli.

Um greiðslu kostnaðar er það að segja, að gert er ráð fyrir, að ríkið greiði kostnað af 3. manna ráðinu, sýslurnar kosti sýslufulltrúa og hrepparnir hreppsfulltrúa.

Það er þá ekki miklu meira, sem ég þarf að minnast á. Ég skal geta þess, að það hefir komið til umr. í n. að taka til meðferðar löggjöfina frá síðasta þingi. Útbreiðsla mæðiveikinnar frá því, sem þekktist þá, hefir kollvarpað framkvæmdum, sem síðan hafa verið gerðar. Margar af girðingunum eru þegar gagnslausar og hafa jafnvel alltaf verið það. Það þurfa að koma nýjar girðingar. En ég skal geta þess, að þó nokkur hluti girðinganna hafi verið ónýtur í vor, tel ég samt, að þeim kostnaði sé ekki á glæ kastað, því að þær hafa hindrað, að veikin breiddist enn meira út. Eins og vitanlegt er, á Alþ. að koma saman aftur í febrúar, og þá er nægur tími til þess að ganga frá þessu. Þá mun og sjást betur, hvað gera þarf, og er því réttara að fresta framkvæmdum.