01.11.1937
Neðri deild: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

21. mál, bændaskólar

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég býst við, að þýðingarlítið sé að karpa lengi um þetta.

Vil ég þó mótmæla því, sem hv. flm. brtt. sagði, að ég hefði sagzt vera samþ. þessum höfuðbrtt. þeirra hv. þm. Dal. og hans, að sett yrði á stofn framhaldsdeild við Hvanneyrarskólann. Ég tók það einmitt fram, að ég væri ásamt n. þeim ósamþykkur. Og ég verð að segja það (þó að hv. þm. Borgf. sé því miður ekki hér viðstaddur), að mér þótti það ákaflega einkennilegt, að hann skyldi lýsa sig fylgjandi þessum till., því að ég vissi ekki betur en að fullt samkomulag væri um það í n. að mæla á móti till. Ég heyrði ekki hv. þm. Borgf. mæla þar eitt orð um það, að hann væri samþ. þessum till. um framhaldsdeild. (BÁ: Er þá ekki fyrirvari?). Nei, hann er enginn í nál. Þess vegna þótti mér þetta einkennilegt.

Ekki skal ég um það þrátta við hv. 4. landsk., hvort dráttarvélar eigi að kallast verkfæri. Ég hefi heldur aldrei í daglegu tali heyrt sláttuvélar, rakstrarvélar eða snúningsvélar kallaðar verkfæri. En vitanlega eru þetta allt verkfæri. Það er hlægilegt og tilgangslaust að karpa um þetta. En e. t. v. hefði átt að standa í frv. „véla og verkfæra“. En það vita allir, að þarna í 5. mgr. 7. gr. frv. er átt við öll tæki, sem notuð eru til jarðvinnslu og annara bústarfa. Vitanlega verða sum þau verkfæri, sem í daglegu tali eru kölluð því nafni, ekki notuð nema í sambandi við dráttarvél, svo sem til þess gerðir plógar og herfi. Ég vil halda því fram, að þessi málsgr. frv. taki yfir þetta allt og að það hafi enga efnislega þýðingu í för með sér, hvort þessi málsgr. brtt. er samþ. eða ekki.

Út af þeirri kennarafækkun, sem ég tel, að hv. flm. brtt. séu með. vil ég segja nokkur orð. Til að inna af hendi það kennslustarf, sem hefir verið fjögra kennara starf við skólana, segja þeir, að ætlazt sé til í frv., að séu hafðir aðeins þrír kennarar. En ég tók það fram, að þessi tala kennara er svo ákveðin samkv. till. skólastjóranna við báða bændaskólana. Ég taldi þess vegna heppilegt að hafa lausa kennslukrafta við skólana að nokkru leyti, en vitanlega er það ekki tilætlunin að skerða kennslukrafta skólanna.

Skal ég þá aðeins nokkuð minnast á framhaldsdeildina. Ég tók það fram áðan, að út af fyrir sig væri það ágætt að fá slíka framhaldsdeild. En það mál er ekki á neinn hátt þannig undirbúið að hægt sé að setja þá stofnun upp nú í náinni framtið. Það hefir ekki komið fram frá flm. brtt. tilraun til að gera áætlun um, hvað slík stofnun mundi kosta, hvorki hvað stofnkostnað snertir né í rekstri. Það verður ekki komið upp framhaldsdeild við þennan skóla (á Hvanneyri) svo að hún sé boðleg sem framhaldsdeild við bændaskólana hér án þess að stofnkostnaður verði a. m. k. 100 þús. krónur. Það er ekkert framhaldsnám á sviði búvísinda, ef á aðeins að taka einhverjar bóklegar námsgreinar til viðbótar, eins og hér er gert ráð fyrir í frv. það er ekki gerandi á öðrum grundvelli en að við slíka stofnun væri efnarannsóknarstofa ásamt ýmsum söfnum, þar sem nemendur gætu fengið að vinna við efnagreiningu og ýmsar aðrar athuganir, bæði er snerti grasafræði og margt annað, eins og alstaðar viðgengst við slíkar stofnanir erlendis. Einhvern vísi í slíku yrðum við að setja upp í sambandi við slíka stofnun, ef hún á ekki að vera hreinasta kák. Og t. d. með því að fara að taka upp kennslu í búfjársjúkdómum eins og hér er gert ráð fyrir í frv., þá verðum við að sjá um, að nemendur geti lært eitthvað á því sviði. Ég vil segja, að það er auðvelt að setja frv. fram í 6 greinum um, að slík stofnun sé reist. En það er ekki gerð nokkur minnsta tilraun til að gera grein fyrir, hvernig eigi að framkvæma það og hvað það kosti, en það er. það fyrsta, sem verður að gera. Ef kæmi þáltill. um að rannsaka möguleikana til þessa og á hvern hátt því yrði fyrir komið, þá væri hægt að mæla með því. Það er einmitt svo með menntastofnanir, sem eiga að veita æðri menntun í landbúnaði, að það er margt, sem kemur til greina, margt að fást við, jurtir og búfé, að ekki er hægt að hugsa sér þá starfsemi öðruvísi en í sambandi við hana komi ýmsar stofnanir, þar sem nemendur fá æfingu, ekki einungis við verkleg störf, heldur þurfa þeir einnig að fá einhvern snefil af vísindastarfi. Og það er þetta, sem gerir það að verkum, að ég fyrir mitt leyti áleit — og ég vissi ekki annað en að öll n. væri sammála um, að ekki væri hægt að mæla með því, að þessar till. yrðu samþ. eins og þær liggja hér fyrir, þrátt fyrir það, þó að þetta sé vitanlega framtíðarmál, sem við einhvern tíma síðar munum leysa. En ég er alls ekki viss um, að slík stofnun eigi að vera við bændaskóla. Það er að rísa upp atvinnudeild við háskólann, sem á að taka við kennslu í hagnýtum fræðum, og hvað er þá eðlilegra en að í sambandi við þá stofnun væri komið upp sérfræðimenntun einmitt fyrir landbúnaðinn? Hér í Reykjavík yrðu einmitt þau tæki til í þeirri stofnun, sem þessir menn þyrftu að nota. Vitanlega gætu þeir innt verklegt nám af höndum á bændaskólabúum og öðrum stofnunum í landbúnaði. Ég vil enn halda því fram, að þetta frumvarp sé allt of flausturslega fram borið til þess að nokkur meining sé að samþykkja það eins og það liggur fyrir.