23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

59. mál, byggingar- og landnámssjóður

*Jón Pálmason:

Eins og hv. þdm. hafa sennilega veitt eftirtekt, höfum við hv. þm. Borgf. borið fram brtt. á þskj. 266, um að hækka úr 200 í 250 þús. kr. framlag ríkisins til sjóðsins. Það er rétt hjá hv. þm. Mýr., að áður en 200 þús. kr. framlagið var ákveðið, var búið að samþ. till., sem fram kom algerlega á bak við fjvn., um að hækka framlag til verkamannabústaða um 50 þús. Þetta raskaði hlutfallinu milli þessara framlaga, og það er það, sem við viljum aftur lagfæra.

Annars er það skoðun okkar flm. brtt., að hér sé í rauninni svo ólíku saman að jafna, að þessi framlög séu ekki nefnandi á nafn hvort með öðru. Hér í Reykjavík eru byggð hús fyrir 4–6 millj. á ári. En vegna þess, hvernig fjárhagsástandið er orðið í sveitum, veltur það, hvort jarðir fara í auðn, á því, hvort hægt er að byggja upp á þeim. Í kaupstöðum eru nógir, sem vilja byggja, ef innflutningur leyfir. Í sveitum er það allt of fáum kleift. Þennan mun verður Alþingi að skilja og haga ráðstöfunum sínum eftir því.

Það gerði ekki mikið til, þó að fólksfjölgunin og vöxturinn lenti allur í bæjunum, ef atvinnuskilyrðin þar væru glæsileg. En nú er fólksfjöldinn þar orðinn svo mikill, að hann er gersamlega í ósamræmi við atvinnuskilyrðin. Þess vegna er ekki rétt, að ríkið auki byggingar í kaupstöðum. Hitt er öllum ljóst, sem hugsa um það, að í sveitum eru til lífsskilyrði fyrir miklu fleira fólk, ef vel er á haldið. Þess vegna væri réttara að leggja allt féð til bygginga í sveitum heldur en að auka byggingar í kaupstöðum handa fólki, sem hefir enga atvinnu þar við að vera.

Þótt okkur hv. þm. Borgf. sé ljós þörfin og teldum rétt að hækka framlagið meir en um þessa tiltölulega litlu upphæð, viljum við ekki fara fram á það, eins og sakir standa. En hitt væri ástæðulaust að draga úr þeirri kröfu, sem gerð er í till., þegar nýbúið er að fara kringum fjvn. og slengja á þessari hækkun, sem gerð var til verkamannabústaða við 2. umr. fjárlaganna.