10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

103. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjörð

*Bergur Jónsson:

Ég skal ekki fara langt út í þetta mál að þessu sinni. Það er talsverð ástæða til að hlífa útgerðinni sjálfri við útsvari eins og nú stendur. Og ef Hafnarfjarðarbær ætlar að fara inn á þá braut, þá er vitanlega óhjákvæmilegt, þar sem fjárhagur bæjarins er ekki góður, að fá einhverja sérstaka greiðslustofnun í staðinn. Ég vil ekki taka undir það með hv. 5. þm. Reykv., að þetta sé neitt hlægilegt, að leggja hér nú aukaútsvar á fargjöld. 3iér finnst miklu frekar hægt að segja, að hér sé að mörgu leyti um rangláta leið að ræða. Það eru vitanlega ýmsir þeirra, sem fara á milli þessara bæja, sem munu vel geta borgað nokkuð hærra gjald en nú er, en fjöldinn af því fólki, sem fer á milli, er sumpart skólafólk, sem engar tekjur hefir, og fólk, sem stundar atvinnu í Reykjavík og nú samkvæmt lögum mun verða látið greiða útsvar áfram, en mundi á þennan hátt fá aukaútsvar í gegnum þessa álagningu, sem sett yrði á fargjöldin. Ég vil segja það, að ef ég samþ. þetta frv., sem ég hefi ekki ennþá gert fullkomlega upp við mig, þá vil ég a. m. k. geta gengið út frá því, að bæjarstjórnin veiti einhver hlunnindi þeim mönnum, sem vegna atvinnu sinnar eða náms eða annara orsaka verða að greiða þetta gjald daglega, kannske meiri hl. ársins eða allan ársins hring. Það er vitanlega rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. tók fram, að það nær engri átt að velta útsvarsþunganum af fyrirtækjum, sem hafa borið sig vel, eins og sum af útgerðarfyrirtækjunum í Hafnarfirði, og á nokkurn hluta af bæjarbúum, og þá kannske á suma af þeim fátækustu, sem þarna eiga hlut að máli. Ég vil skjóta þessum aths. til fjhn., sem ég býst við, að fái málið til athugunar.