22.04.1938
Neðri deild: 51. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

34. mál, atvinna við siglingar

Ísleifur Högnason:

Þess er getið í grg. þessa frv., að till. hafi verið samþ. á flokksþingi framsóknarmanna 1937 þess efnis, að flokkurinn beiti sér fyrir, „að endurskoðuð verði löggjöfin um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, og þess þá gætt, að íþyngja sjávarútveginum ekki um of með kröfum um mannahald o. fl. — —“ og þess sé jafnframt gætt, að miða kröfur um mannahald og útbúnað á íslenzkum flutninga- og farþegaskipum við þær kröfur, sem þær þjóðir gera, sem íslenzk flutninga- og farþegaskip þurfa að keppa við.

Eins og lýst hefir verið hér í hv. deild, er þetta frv. breyt. á 1., sem samþ. voru á þingi 1937. Og að því er mér skilst fór sú löggjöf í þá átt að fjölga yfirmönnum skipa með tilliti til öryggis og tilliti til þess, að hægt væri að gefa mönnum úr stýrimannaskólanum og vélstjóraskólanum tækifæri til þess að fá reynslu í siglingafræði og meðferð véla. Nú er það mála sannast, að hér við land eru miklu hættulegri siglingaleiðir en með ströndum Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs. Er þá fyrst að geta þess, að vitakerfið hér við land er ekki nándar nærri eins fullkomið eins og hjá hinum þjóðunum. Þá er og tíðarfarið viðsjálla, brim og stormar miklu háskalegri hér en annars staðar. Mér er kunnugt um, að Skipstjóra- og stýrimannafélag Reykjavíkur hafa tekið þetta frv. um fækkun manna á skipum til meðferðar og leggja eindregið gegn því. Sanna þeir með dæmum af slysförum, að öryggi skipa hér við land er alls ekki tryggt, nema þessu lágmarki, sem núv. löggjöf gerir ráð fyrir, sé fullnægt. Ég skal t. d. geta þess, að á togurum er gert ráð fyrir, að ekki þurfi nema einn stýrimann. En nú er vitanlegt, að togarar fiska samfleytt sólarhringum saman. Og skipstjórinn, sem er þar aðalmaðurinn, sem siglingafróður er, stendur á vakt bæði dag og nótt. Er þá ekki nema einn maður til að stjórna siglingu heim, 1. stýrimaður. Nú getur þetta tekið svo langan tíma, að ómögulegt sé fyrir einn mann að standa allan tímann á vakt. Er þá enginn siglingafróður maður til að taka við. Þetta gefur vitanlega ástæðu til að ætla, að öryggi skipanna sé hætta búin. Enda segja stýrimenn og skipstjórar, að þess séu dæmi að einmitt af þessari sök — að ekki hafi verið siglingafróðir menn á vakt — hafi skip farizt hér við land, og þau ekki fá. Þau dæmi um árekstra og slys, sem þeir nefna í áliti sínu um þetta frv., eru þessi: Ásigling b/v Maí og b/v Brougion, ásigling b/v Sahikk og b/v Eutonia, strand b/v Jóns forseta og fleira. Svo að ástæðunni, sem færð var fram í grg. fyrir því að þessu megi breyta til sparnaðar, vegna þess að öryggi skipanna sé ekki hætta búin af fækkuninni, er þar með hrundið. Ég álít alveg óforsvaranlegt af Alþingi að ætla sér að afnema þessi lög, sem eru nýsett og eiga að tryggja betur líf sjómannastéttarinnar og öryggi. Óforsvaranlegt sérstaklega af þeim mönnum, sem flytja þetta frv., því að þeir þekkja mjög lítið til siglinga og þarfar sjómanna til að hafa vélfróða menn og siglingafróða stýrimenn, — að þeir skuli bera þetta fram án þess að taka nokkurt tillit til óska og krafna þeirra, sem mest eiga á hættu og mótmælt hafa þessu eindregið. Ég álít það svo mikið ábyrgðarleysi, að ekki komi til mála, að slík afskipti megi þolast til að skaða öryggi sjómanna. Það er talað um í því áliti, sem fyrir liggur frá Stýrimanna- og skipstjórafélaginu, að það að fækka um einn stýrimann spari 250–300 kr. á ári. En að það muni valda úrslitum um, hvort togaraútgerðin ber sig eða ekki, getur hver maður séð. En ef ósiglingafróður maður, sem ekki kann á kompás, er við stjórn, þarf ekki ýkjalangan krók úr réttri leið til þess að að þessar 250 krónur séu jafnaðar, með óþarfri orkueyðslu. Sama máli gegnir, ef ekki er nægilegt af hæfum mönnum til að stjórna vélum og passa þær, þá kemur það fram á endingu vélanna og skipsins. Það er því hið mesta Lokaráð að fækka vélfróðum og siglingafróðum mönnum í íslenzka flotanum. Ég álít þetta hið óþarfasta frv., sem enn hefir komið fram í garð sjómanna. að undanskildu gerðardómsfrv. vitanlega. Ber þar tvennt til, að öryggi sjómanna er stefnt í voða, og að sparnaður af þessu er enginn, heldur þvert á móti, að þetta getur haft í för með sér mikil aukin útgjöld fyrir útgerðina.