03.03.1938
Efri deild: 13. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forsetil Þetta mál er ekki nýmæli hér á þingi. Það hefir verið flutt áður og þarf þess vegna minni skýringar við en ella myndi. Þetta er eitt af þeim málum, sem mþn. í sjávarútvegsmálum áleit, eftir athugun á útgerðinni og athugun á kjörum útvegsmanna, að gæti orðið, ef það yrði framgangi, til hjálpar útgerðarmönnum í verstöðvum eða byggðarlögum, einkum og sér í lagi þar, sem ekki er banki eða bankaútibú, sem sé að gera þeim kleift að hafa félagsskap til að ná sér í rekstrarlán. En í þetta frv. hafa verið felld ákvæði í þetta sinn, sem gera það aðgengilegra fyrir menn að mynda svona félagsskap. t. d. er ákvæði um það, að skattaálagning á rekstrarlánafélög verði hagað eftir sömu reglum og nú gilda um samvinnufélög, og ennfremur það, að rekstrarlánafélög hafi nokkur forréttindi um innflutning á nauðsynjavörum til félagsmanna, bæði til atvinnurekstrar og líka heimilisnauðsynja þeirra. Ég veit, að sumir hv. þdm., og jafnvel sumir hæstv. ráðh., hafa haft tillhneigingu til að gera heldur lítið úr þessu máli, og þótt það vera smávægilegt. En ég er ekki á sömu skoðun. Ég held, að það sé ekkert smávægilegt atriði, einkum á þessum erfiðu tímum sjávarútvegsins, að stuðlað sé að því, að menn standi saman í því að koma rekstri sínum á heilbrigðan grundvöll. Ég hefi veitt því athygli — mér til mikillar ánægju, verð ég að segja — að af hálfu eins stjórnmálafl., sem hér á marga þm., hefir samtökum Vestmannaeyinga á ýmsu því sviði, er snertir útveginn, verið nú alveg nýskeð sérstakur gaumur gefinn. Það hefir sem sé birzt hver lofgreinin á fætur annari í blöðum framsóknarmanna um samheldni og samvinnu og samtök Vestmannaeyinga. Það hefir glatt mig að sjá þessa viðurkenningu þeirra mætu manna, sem að þessum lofgreinum hafa staðið. Og mér þykir líklegt, að þeir menn, sem hafa séð og viðurkennt það gagn, sem frjáls samvinna útgerðarmanna hefir í þessu byggðarlagi o. fl. leitt af sér, muni vilja stuðla að því, að löggjöfin geri sitt til að gera það aðgengilegra fyrir menn að efla félagsskap á frjálsum grundvelli til að bæta sinn hag, sérstaklega að því er snertir útveginn. Ég skal nú segja það, að ég hefi ekki orðið var við það af hálfu hv. framsóknarmanna, að þeir hafi hætt þetta mál eða smáð það, en því miður get ég ekki gefið alþýðuflokksmönnum og ráðh. þeirra þann vitnisburð. Hann hefir látið sér það sæma að benda á þetta mál eins og sérstakt dæmi um, hvaða hégómamál þm. Vestm. leyfir sér að flytja hér á Alþingi. Það er að vísu gert utan þings, en mér þykir hlýða við þessa fyrstu umr. á ekki ómerkara máli en liggur fyrir að mótmæla þessum ummælum hæstv. ráðh. Alþfl. í garð þeirrar viðleitni, sem hér er á ferðinni, til að ýta undir frjáls félagsleg samtök útgerðurmanna í þessari atvinnugrein.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Ég vænti og óska þess, að því verði vísað til sjútvn., að lokinni þessari umr. Ég hefi aðeins viljað rökstyðja þá sérstöku von mína nú, að a. m. k. hv. framsóknarmenn hér á þingi muni ekki leggja á móti þessu máli, heldur hjálpa því að ná framgangi. Byggi ég það ekki hvað sízt á þeim ummælum annars stjórnarblaðsins um samtök útgerðarmanna í þeirri einu verstöð, sem ég nefndi á nafn, er hefir í raun og veru sama markmið og sumpart sömu verkefni við að fást eins og ætlazt er til, að sá félagsskapur, sem kynni að verða stofnaður samkvæmt þessu frv., myndi koma til með að glíma við.