17.03.1938
Sameinað þing: 7. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

Minning Jóns Baldvinssonar

forseti (JakM):

Ég hefi þá sorgarfregn að flytja þingmönnum, að forseti sameinaðs Alþingis, Jón Baldvinsson, andaðist í nótt að heimili sínu hér í bænum, hálfsextugur að aldri.

Jón Baldvinsson var fæddur 20. des. 1882 á Strandseljum í Ögurhreppi, sonur Baldvins Jónssonar bónda þar og konu hans, Halldóru Sigurðardóttur, bónda í Hörgshlíð Hafliðasonar. Hann lærði ungur prentiðn á Ísafirði og stundaði bað starf til ársins 1918, fyrst á Bessastöðum og síðar í Reykjavík. Það ár gerðist hann forstjóri alþýðubrauðgerðarinnar í Reykjavík og hélt því starfi til 1930, er hann varð bankastjóri í Útvegsbanka Íslands. Á Alþingi átti hann sæti í 1 í ár samfleytt, frá 1921, og var þetta 20. þingið, er hann sat. Hann var þm. Reykv. frá 1921–1926, en landsk. þm. 1927 og síðan.

Auk þess, sem hér hefir verið talið, hafði Jón Baldvinsson og á hendi fjölmörg önnur trúnaðarstörf í almennings þarfir. Skulu hér talin nokkur hin helztu. Í bæjarstjórn Reykjavíkur átti hann sæti 1918–1924. Hann var kosinn í danskíslenzka ráðgjafarnefnd 1927 og í Þingvallanefnd 1928, og átti sæti í báðum þeim nefndum síðan. 1932 var hann kusinn í milliþinganefnd um kjördæmaskipun. Hann var forseti Alþýðusambands Íslands frá stofnun þess, 1916, og formaður Alþýðuflokksins frá upphafi, var hann kosinn forseti sameinaðs Alþingis og var það síðan.

Með Jóni Baldvinssyni er til moldar genginn einn hinna merkustu stjórnmálamanna landsins. Þótt eigi nyti hann skólamenntunar, hafði hann af eigin rammleik aflað sér staðgóðrar þekkingar, eigi aðeins á landsmálum, heldur og á ýmsum öðrum sviðum. Hann tók snemma að gefa sig að stjórnmálum, og skipuðu gáfur hans og hæfileikar honum þegar á ungum aldri í sveit forustumanna í flokki hans, Alþýðuflokknum. Um 20 ára skeið hefir hann verið aðalforingi flokksins, og öllum öðrum fremur mótað stefnu hans og starfsemi, bæði innan þings og utan. Hyggindi hans og lipurð áttu og ekki minnstan þátt í því, að jafnan var þar leitað trausts og halds sem bann var, þegar vanda bar að höndum.

Við, sem með honum höfum starfað hér á þingi, eigum á bak að sjá eigi aðeins einum hinna verkhæfustu og ötulustu starfsbræðra, heldur og vinsælum manni og góðum dreng, og munu allir harma fráfall hans, hvar sem þeir eru í flokki.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessa látna merkismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir þingmenn stóðu upp.]