18.03.1938
Efri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

Ráðherraskipti

*forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil leyfa mér að tilkynna hér í hv. d., eins og ég hefi gert í Nd., þar sem hæstv. atvmrh. á sæti, að mér hefir í morgun borizt bréf frá honum, þar sem hann óskar eftir að verða leystur frá ráðherrastörfum. Ég hefi því gert ráðstafanir til þess, að konungi verði símað nú í dag, og óskað eftir, að hann leysti hann frá störfum sem ráðherra. Ég hefi jafnframt gert ráðstafanir til þess, að konungi verði símað, og lagt til við hann, að mér verði falið að gegna störfum atvmrh. fyrst um sinn, eða þangað til öðruvísi yrði ákveðið.

Mér þykir það mjög leitt, og ég verð að láta þá skoðun í ljós í þessari hv. d., að samvinnan hefir á þennan hátt slitnað, en ástæðurnar, sem liggja til þess, eru hv. d. kunnar, og eru þær ástæður, sem færðar eru fram í bréfinu, hinar sömu, sem hæstv. atvmrh. færði fram hér á Alþ., sem sé frv. um gerðardóm í vinnudeilu, sem lá fyrir Alþ. fyrir skemmstu, hefir verið samþ. og staðfest af konungi.

Mér þykir það leitt, að þetta skuli hafa valdið slíkum ágreiningi, þar sem mér virtist ekki bera það mikið á milli. En ég verð að láta þá skoðun í ljós, eins og ég lýsti yfir undir þeim umr., að mál það, sem þá var verið að afgr., væri það stórt mál fyrir okkar þjóðfélag, að sá venjulegi réttur aðilja, samningaréttur sjómanna og útgerðarmanna, yrði að víkja fyrir því máli, og eins taldi ég, að hvert annað sjónarmið, jafnvel um breyt. í ríkisstj., yrði að víkja fyrir því, og er ég þeirrar skoðunar enn. Ég er ekki í vafa um, að ég var þá að gera það, sem var rétt. Mér þykir þetta mjög miður vegna þess, að þó þá flokka, sem hafa haft samvinnu í ríkisstj. undanfarin ár, greini á um ýmislegt, og það hafi eins og gengur og gerist borið nokkuð á þeim ágreiningi, þá hefir samvinnan í ríkisstj. verið mjög góð.

Ég vil hér í þessari hv. d. þakka hæstv. atvmrh. fyrir samvinnuna í ríkisstj., og ég verð að segja, að ef ég á að taka eitthvað sérstaklega fram, án þess að halda um það neina ræðu, hvað valdið hafi því, að samvinnan hefir verið góð, þá er það fyrst og fremst fyrir þá sök, að hann hefir sýnt í allri samvinnunni mikla hreinskilni og drengskap, sem ég álít, að sé fyrsta undirstaðan undir góðri samvinnu milli þeirra, sem ekki eru algerlega sömu skoðunar.

Þetta leyfi ég mér að tilkynna hv. þd., og sé ég ekki ástæðu til að ræða um málið frekar, nema tilefni gefist til.