31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

Ráðherraskipti

forsrh. (Hermann Jónasson):

Hér með vil ég tilkynna háttv. Alþingi eftirfarandi:

Á ríkisstjórninni munu nú verða gerðar þær Oreytingar, sennilega í dag eða á morgun, að Skúli Guðmundsson kaupfélagsstjóri tekur sæti í ríkisstj. í stað Haralds Guðmundssonar. Um verkaskiptingu er enn eigi fullráðið.

Ríkisstjórninni mun Alþýðuflokkurinn fyrst um sinn veita hlutleysi og afstýra vantrausti, ef fram kemur.

Ríkisstj. mun fylgja þeirri meginstefnu, sem fylgt hefir verið undanfarin ár, og leggja áherzlu á að efla atvinnuvegina og halda uppi verklegum framkvæmdum.

Auk ýmsra þeirra mála, sem þegar liggja fyrir Alþingi, mun löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur verða afgr. á þessu þingi og nokkur þeirra hagsmunamála fyrir sjómenn og verkamenn, sem nú eru aðkallandi og mögulegt er að afgreiða án verulegs undirbúnings.

Mörg hinna stærri mála, sem þarf að taka til framkvæmda, eru nú til undirbúnings og athugunar hjá ríkisstj., sum í nefndum, sem Alþingi hefir skipað, og önnur er gert ráð fyrir að verði tekin til meðferðar samkv. tillögum, sem liggja fyrir Alþingi. Við undirbúning þessara mála mun verða leitazt við að finna grundvöll fyrir nánari stjórnarsamvinnu milli flokkanna framvegis.