31.03.1938
Sameinað þing: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

Ráðherraskipti

*Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn minni á þá leið, að hann upplýsti, að á milli Framsfl. og Alþfl. væru engir samningar um það, hvaða stuðning Alþfl. mundi veita hinni nýju stj., ef koma skyldi til athafna af hendi ríkisvaldsins í sambandi við framkvæmd gerðardómsins. „Það er vitanlega ekkert um það samið, hvort l., sem Alþ. hefir nýlega sett, verði framkvæmd. Það er svo sjálfsagður hlutur, að um það þarf ekki að semja“ sagði hæstv. ráðh. Ég ætla nú að leiða athygli þingheims að því, sem hæstv. rh. veit náttúrlega eins og við hinir, að annar aðili þessa máls hefir lýst yfir því, að hann telji sig ekki bundinn af þessum lögum. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp samþykkt þá, sem gerð var á fundi sjómannafélagsins á fundi þess 21. þ. m. í tilefni af gerðardóminum, en sú till. var svo hljóðandi:

„Sjómannafélag Reykjavíkur mótmælir harðlega gerðardómi þeim, er settur var með lögum 17. þ. m., til að dæma um ágreining milli sjómanna og togaraútgerðarmanna, svo og úrskurði dómsins uppkveðnum í dag. Telur félagið úrskurðinn ekki á þann hátt bindandi fyrir meðlimi sína, að því sé óheimilt að gera ráðstafanir til, að ekki verði lögskráð á togara með þeim kjörum, sem í úrskurðinum eru ákveðin.

En þar sem nauðsyn krefur að lausn fáist nú þegar á kaupdeilunni að því er varðar saltfiskvertíðina, og félagið telur, að þau kjör, sem til boða standa á þessari vertið, séu eftir atvikum ekki óviðunandi, þá heimilar félagið meðlimum sínum að láta lögskrá sig á togara með greindum kjörum á saltfiskvertíð þeirri, sem nú er að hefjast.“

Í þessari samþykkt er beinlínis sagt, að ákveðnir aðiljar telji sig ekki bundna af gerðardómnum, og það er og tekið fram, að þeir telji sér heimilt að gera ráðstafanir til að hindra, að lögskráð verði á togarana með þeim kjörum, sem í úrskurðinum eru ákveðnir. Þó að ekkert liggi annað fyrir í þessu máli, þá er mér það ráðgáta, hvernig hæstv. forsrh. getur látið eins og það sé gersamlega ástæðulaust að bera nokkurn kvíðboga fyrir því, að til átaka geti komið milli löggjafans og þessa aðilja. Þetta er ekki út í bláinn talað, því það stendur beinlínis í aðalmálgagni Alþfl., að afstaða sjómannanna sé í fullu samræmi við afstöðu Alþfl. á Alþ. og till. sjálf er samin af þm. Alþfl. og borin fram af þeim.

Ég get þess vegna ekki komizt hjá því að hugsa, að hæstv. forsrh. og flokkur hans hljóti að bera í brjósti nokkurn kvíða fyrir því, að það geti komið til athafna af hendi ríkisvaldsins í þessu efni.

Ég vil nú, eftir að hafa bent á þessar sterku líkur fyrir því, að til átaka geti komið í sambandi við framkvæmd gerðardómsins, leyfa mér að bera þá fyrirspurn fram til hæstv. forsrh., hvort hann muni, ef nauðsyn krefur, beita ríkisvaldinu til þess að tryggja framkvæmd þessara l. Og ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Seyðf., hvort hann og hans flokkur muni, ef til slíks kemur, halda áfram að veita stj. hlutleysi.