03.03.1938
Neðri deild: 13. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

37. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Ég get tekið undir þau orð hv. 1. flm., að þetta frv. stefnir í rétta átt að því leyti, sem það miðar að því að auka friðun í landhelginni frá því, sem nú er, enda var ekki annars að vænta frá þessum hv. þm., sem hafa lagt því lið að undanförnu að verja landhelgina fyrir þeirri miklu ásælni, sem hefir verið í frammi höfð hér á þingi, bæði vegna þeirra hagsmuna, sem landsmenn hafa átt að hafa af þessu, þótt þar hafi aðeins verið um stundarhagsmuni að ræða, og þá ekki siður til hagsmuna fyrir okkar sambandsmenn, Dani og Færeyinga, þó að hinsvegar hafi verið sýnd viðleitni til að stía þeim burt með takmörkun á þeirri skipastærð, sem nota má til þessara veiða, þó að það náttúrlega sé haldlítil bót, ef á annað borð þessir menn færu að hugsa sér að hagnýta sér þau auðæfi, sem hér eru við strendur landsins inni í vogum og víkum, sem þó vitanlega yrði ekki til að skerða þeirra hagsmuni í framtíðinni, þar sem vitað er, að tengslin milli Danmerkur og Íslands verða slitin eftir nokkur ár.

En ég vil út af þessu frv., sem hér er fram komið, mælast til þess við hv. flm. og aðra, að við reynum að taka höndum saman og gera betri bragarbót á þessum l. heldur en í þessu frv. felst, og þá fyrst, að sömu ákvæði verði látin gilda kringum allt land að því er hámarksstærð skipanna snertir, og svo ætti líka að banna veiðarnar við suðurströndina allt árið. Ættum við nú að freista, hvað við gætum komizt langt á leið með þessa nauðsynlegu friðun, sem um er að ræða, í áframhaldi af þeirri stefnu, sem við höfum haft í þessu máli, og ég veit, að undir meðferð málsins munum við kynna okkur, hvað okkur getur orðið ágengt í þessu efni, og það er þó undir öllum kringumstæðum sjálfsagt, að það sama bann gildi um þessa báta árið um kring og hvar sem er við strendur landsins, því að ekki er til fyrirmyndar ástandið, sem skapað var og komið á um nokkurt árabil, að láta önnur l. gilda á Suður- og Vesturlandi en á Norður- og Vesturlandi, þar sem hættan um vitanlega jafnmikil, og þó kannske öllu meiri hér við suðurströndina en nokkursstaðar annarsstaðar, af því að þar var verið að grafa ræturnar undan okkar eigin afkomu að því er fiskveiðar snertir. Alþingi má ekki fara að taka aftur upp það ófremdarástand, að láta ekki sömu l. og reglur gilda í þessum efnum.

Ég vænti svo góðrar samvinnu við mína gömlu samherja í þessu máli um það að freista, hvað við getum gert fyrir fósturjörðina í framtíðinni í því að verjast þessari ásælni, sem um hefir verið að ræða að undanförnu, sem löggjöf þessi ber vott um.