07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

7. mál, vitabyggingar

*Finnur Jónsson:

Ég hefi orðið óbeinlínis til þess, að hv. þm. Borgf. stökk upp, enda þótt ég á engan hátt hafi vikið að honum persónulega. Ástæðan fyrir því, að hann sleppti sér svona hér í d. nú eins og hann gerði, mun hafa verið sú, að ég benti á það, að eitthvert mesta hættusvæði, sem er til hér við land, er einmitt í grennd við hans kjördæmi og honum tilheyrandi, og á því er engin ljóstýra ennþá, þrátt fyrir rúmlega 20 ára þingsetu þessa hv. þm. Hv. þm. Borgf. getur bent á þetta einmitt sem mikinn árangur af sínum eigin áhuga á vitamálum.

Ég er búinn að afhenda hv. þm. Borgf. lista yfir vitagjaldið frá byrjun og útgjöldin við vitana, og á þeim lista kemur greinilega í ljós, að þegar til stjórnarsamvinnunnar var stofnað árið 1934, var Sjálfstfl. ásamt Framsfl. búinn að taka um 1/2 millj. kr. af vitafé í aðrar þarfir ríkissjóðs. Svo að það er von, að það syngi nokkuð í tálknunum á hv. þm. Borgf. út af þessu máli, þar sem það er einmitt hans flokkur, sem hefir byrjað á því að stela vitafénu úr sjálfs sín hendi, eins og hann orðaði það, til annara þarfa ríkissjóðs. — Ef hv. þm. Borgf. ætti nú eftir að sitja hér á þingi í önnur 20 ár, þá væri æskilegt, að eftir hans 40 ára þingsetu gæti hann bent á einhverja ljóstýru í grennd við sitt kjördæmi, sem hann gæti státað af í ellinni.

Hv. þm. Borgf. veik dálítið að því að tala um, að mín stjórn á síldarmálum hefði verið óheppileg. Ég verð að segja það, að ég tel það nokkuð mikla dirfsku af hv. þm. Borgf. að tala um slíkt, því að það er vitað, að stjórn síldarmálanna og síldarútvegsins yfir höfuð hefir aldrei gengið líkt því eins vel og einmitt þau tvö ár, sem ég átti sæti í stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Þetta getur verið að sé ekki nema a. n. l. stjórn síldarverksmiðjanna að þakka. Þó verð ég að segja það, sem ég hefi áður bent á hér á Alþ., að stjórn síldarverksmiðja ríkisins, ásamt flestum síldarverksmiðjum einstakra manna og félaga, var það framsýn, að hún seldi lýsi sitt fyrirfram háu verði á síðasta ári, til þess að tryggja, að hægt yrði að borga sjómönnum 8 kr. verð fyr]r síldarmálið. En ef þessi sala hefði ekki farið fram, þá hefði ekki verið hægt að borga neitt líkt þessu fyrir síldina. Það er öllum kunnugt, að verðfallið á síldarlýsi varð svo mikið, að lýsið féll úr £ 22 frá því í janúar í fyrra og niður í £ 13. Og það er jafnvel fallið lengra niður nú. Og þetta munar svo miklu, hvenær menn hafa selt lýsið, að jafnaðarsöluverð á síldarlýsi Kveldúlfs hefir orðið um 700000 kr. lægra heldur en jafnaðarsöluverð á sama magni hjá síldarverksmiðjum ríkisins.

Ég hafði ekki ætlað mér að vekja máls á þessu nú við þessar umr. En ég sé ástæðu til að benda á þetta, þegar ráðizt er á stjórn síldarverksmiðja ríkisins jafnhatramlega eins og hv. þm. Borgf. gerði. Og mætti segja, að fyrir Kveldúlf væri ráð að biðja Drottin að varðveita sig fyrir vinum sínum, þegar vinir Kveldúlfs hér á Alþ. fara að innleiða umr. um þetta, sem sýnir ekki stjórn þess fyrirtækis sem neina sérlega fyrirmynd.

Það, sem hv. þm. Borgf. sagði um síldarþróna, er ekki annað en ósannindi. Ég mun, út af ýmsum sögum, sem um þetta hafa gengið, fara fram á, að kosnir verði 3 óvilhallir menn til þess að dæma um það, hvernig hægt sé að nota nýju síldarþróna á Siglufirði. Ég veit, að engir 3 óvilhallir menn finnast, sem álita, að ekki sé hægt að geyma síld á neðra lofti í síldarþrónni á Siglufirði, sem byggð var þar á síðastl. sumri, alveg eins og gert er á Djúpuvík og á Hjalteyri. Þeir, sem fundið hafa köllun hjá sér til þess að verja óhæfilega spákaupmennsku forstjóra Kveldúlfs á síðastl. ári viðvíkjandi lýsissölu, hafa líka fundið upp á þessu ósanna tali um síldarþróna á Siglufirði. Vegna verðfalls á lýsi kom það í ljós, að síldarverksmiðjur ríkisins höfðu á síðasta ári ofborgað síldina um 21 eyri á málið. Meira munaði það ekki. Og þegar tekið er tillit til þess gífurlega verðfalls, sem varð á lýsinu, þá er ekki hægt að segja annað en að áætlun stjórnar síldarverksmiðja ríkisins hafi furðanlega staðizt. Hvað h/f Kveldúlfur hefir yfirborgað mikið hvert síldarmál, veit ég ekki, en það er a. m. k. nokkuð mörgum sinnum meira en 21 eyrir á hvert síldarmál, sem stafar af þeirri óhæfilegu spekulation, sem forstjórar þess fyrirtækis gerðu sig seka um í sambandi við sölu síldarlýsis á síðastl. ári.