21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2447)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Thor Thors:

Ég vildi leggja áherzlu á, að þetta mál er einungis flutt af meiri hl. allshn. Minni hl., hv. 8. landsk. og ég, hefir ekki vilja að eiga þátt í flutningi þessa frv., og get ég látið nægja að vísa til þess, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um málið. Ef leyft verður að byggja þetta umrædda timburhús, verður það til þess að auka verulega eldhættuna á þessu svæði, enda hefir málinu verið tekið þannig af þeim réttu aðiljum. Það er vitað, að þessi lóð var keypt af ríkinu til þess, að hún yrði síðar notuð undir veglega opinbera byggingu. Ég hygg að ef farið verður að byggja þarna stórhýsi, þótt það eigi að heita til bráðabirgða, þá verði það til að tefja fyrir því, að opinber bygging rísi á þessum stað. Þetta frv. ætti að heita frv. til l. um brot á byggingarsamþykkt Reykjavíkur, því að aðalefni þess er að brjóta allar reglur, sem bæjarstjórn og byggingarnefnd hafa haft. Ég tel það varhugaverða braut fyrir löggjafarvaldið að leggja inn á, að taka sjálfsákvörðunarrétt bæjarfélaganna um þetta úr þeirra höndum.